Safamýri Hin sænska Emma Olsson sækir að marki Vals í Safamýrinni í gærkvöldi á meðan Morgan Marie Þorkelsdóttir fylgist með.
Safamýri Hin sænska Emma Olsson sækir að marki Vals í Safamýrinni í gærkvöldi á meðan Morgan Marie Þorkelsdóttir fylgist með. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Fram er einum sigri frá Íslandsmeistaratitli kvenna í handbolta eftir 25:22-heimasigur á Val í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu í gærkvöldi.

Í Safamýri

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Fram er einum sigri frá Íslandsmeistaratitli kvenna í handbolta eftir 25:22-heimasigur á Val í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu í gærkvöldi. Fram er komið í 2:1 í einvíginu og verður meistari með sigri á útivelli á sunnudag.

Hafdís Renötudóttir í marki Framara átti sinn besta leik í einvíginu til þessa og varði 17 skot. Oftar en ekki var Hafdís mætt í hornið að verja neglur frá sterkum leikmönnum Vals. Þar fyrir framan hana var varnarleikur Framara glæsilegur og áttu Valskonur í stökustu vandræður með að finna glufur.

Galdrakonan Karen

Uppstilltur sóknarleikur Framara hefur oft gengið betur en liðið er með galdrakonuna Karen Knútsdóttur, sem átti enn og aftur glæsilegan leik. Karen er búin að vera besti leikmaður úrslitaeinvígisins til þessa og hvað eftir annað opnaði hún Valsvörnina með huggulegu gegnumbroti eða fallegri sendingu á liðsfélaga. Á meðan Valskonur fóru í erfið skot þegar sóknirnar lengdust, þá fann Karen ávallt góða lausn og Fram fékk yfirleitt góð færi þökk sé Karen.

Sú sænska orðin raddlaus?

Steinunn Björnsdóttir stóð fyrir sínu hjá Fram og Perla Ruth Albertsdóttir átti öflugan leik. Þá var stuðkonan Emma Olssen í essinu sínu, en hún hlýtur að vera orðin raddlaus eftir fagnöskrin í hvert skipti sem Framvörnin stöðvaði sókn Valskvenna. Morgan Marie Þorkelsdóttir átti fínan leik fyrir Val og Hildigunnur Einarsdóttir var sterk á báðum endum vallarins. Valskonur verða hins vegar að fá fleiri mörk frá Theu Imani Sturludóttur og Lovísu Thompson. Þær skoruðu samtals fimm mörk.

Fram verður Íslandsmeistari með sigri í fjórða leik liðanna á Hlíðarenda á sunnudag og var leikurinn í gær því mögulega sá síðasti sem félagið leikur í Safamýri. Félagið flytur í Úlfarsárdal fyrir næstu leiktíð. Valskonur vilja einn leik í viðbót í Framhúsinu.