Vinkonur Salka Guðmundsdóttir og Aðalbjörg Árnadóttir starfa saman undir merkjum sviðslistahópsins Soðið svið.
Vinkonur Salka Guðmundsdóttir og Aðalbjörg Árnadóttir starfa saman undir merkjum sviðslistahópsins Soðið svið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Hugmyndin að formi verksins kviknaði í Covid, en okkur langaði að búa til verk sem fólk gæti notið heima hjá sér. Verkið er því í formi bréfa.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Hugmyndin að formi verksins kviknaði í Covid, en okkur langaði að búa til verk sem fólk gæti notið heima hjá sér. Verkið er því í formi bréfa. Í ákveðnum skilningi erum við að þenja miðilinn, því þetta er sviðslistaverk án sviðs. Hvað innihald verksins varðar get ég sagt að ljósmynd sem Sigurhans Vignir tók á grímuballi sem starfsmannafélag Landsmiðjunnar hélt um miðja síðustu öld vakti áhuga okkar á Sölvhólsgötunni,“ segir Aðalbjörg Árnadóttir sem ásamt Sölku Guðmundsdóttur er höfundur leikhúss í sendibréfaformi sem nefnist Framhald í næsta bréfi og sviðslistahópurinn Soðið svið sýnir á Listahátíð í Reykjavík í júní.

„Verkið er stór og mikil saga sem spannar heila öld. Sagan er sönn að einhverju leyti, en við tökum okkur líka ákveðið frelsi og fölsum heimildir,“ segir Aðalbjörg og útskýrir að miðahafar munu fá sjö bréfasendingar yfir tveggja vikna tímabil sem hefst 1. júní. „Í umslögunum má meðal annars finna handskrifuð bréf, skýrslur, úrklippur af fréttum, kort og ljósmyndir sem saman segja heillandi og dularfulla sögu. Við hverja sendingu verður nýtt hljóðverk gert aðgengilegt, en þessi útvarpsverk munu á endanum tengja þetta allt saman,“ segir Aðalbjörg og bendir á að Helga Dögg Stúdíó, útlitshönnuður verksins, hafi lýst því sem bók sem tekin hefði verið í sundur.

Mannshvarf og sjóslys

„Okkur langaði í ákveðna fegurð í því sem viðtakendur handfjatla. Eftir því sem viðtakendur lesa og heyra meira geta þeir smám saman farið að tengja saman atburði, sem við fyrstu sýn virðast alls ótengdir,“ segir Aðalbjörg og nefnir sem dæmi að meðal þess sem viðtakendur fái í fyrsta bréfinu sé ítalskt nammibréf, sem síðar komi í ljós hvernig tengist heildarmyndinni.

Í kynningu frá Listahátíð segir að framan af sé sendandinn óþekktur en sendingin reynist fyrsta skrefið á slóð sem leiðir þátttakendur gegnum sögu af mannshvarfi í Kaupmannahöfn á hippaárunum, munaðarlausri stúlku sem send er í vist árið 1931, starfsmannapartíi á Sölvhólsgötu við stríðslok og hörmulegu sjóslysi. Spurt hvort verkið hafi kallað á mikið grúsk af hálfu höfundanna svarar Aðalbjörg því játandi. „Við byrjuðum að vinna heilmikla heimildarvinnu, fórum í húsakannanir við Sölvhólsgötuna, kynntum okkur gamlar bréfaskriftir, leituðum í ljósmyndasöfn og gömul fréttasöfn. Í framhaldinu þurftum við að plotta verkið vel þannig að skýrt væri hvað kæmi fram hvenær og hvernig þræðir ættu að tengjast. Hljóðverkin eru síðan eins og lítil útvarpsverk þar sem við fengum mjög flotta leikara til liðs við okkur, sem hjálpa okkur að segja söguna með þeim miðli,“ segir Aðalbjörg og tekur fram að eitt af því sem skýrist eftir því sem á sendingarnar líður sé hver sendandinn er „og hver sé að leita að hverjum og hvers vegna“.

Mikil handavinna í hverju bréfi

Samkæmt upplýsingum frá Listahátíð er miðafjöldi takmarkaður og því liggur beint við að spyrja Aðalbjörgu hvort það helgist af því að handskrifa þurfi hluta sendinganna. „Já, að hluta. Það eru aðens hundrað miðar í boði og fer hver að verða síðastur að tryggja sér sendingu. Fjöldi miða ræðst að hluta af því hversu seinvirkt það er að setja saman hvern og einn pakka. Við erum þannig búin að virkja alla stórfjölskylduna til að hjálpa okkur. Það er mikil handavinna að setja pakkana saman. En það þykir okkur gaman. Við höfum báðar mjög gaman af því að leysa ráðgátur, en rétt er að taka fram að verkið okkar er ekki glæpasaga. Á sama tíma höfum við báðar einnig mjög gaman af bréfum,“ segir Aðalbjörg og rifjar upp að þegar hún kynntist Sölku í kringum 10 ára aldurinn hafi Salka átt fjölda pennavina. „Mér fannst alltaf svo spennandi að fylgjast með girnilegu póstsendingunum sem hún fékk víðs vegar að úr heiminum með flottum frímerkjum. Ég á líka tugi bréfa frá henni sem hún hefur sent mér síðustu 30 árin. Okkur finnst báðum mjög skemmtilegt að fá bréf og erum því í ákveðnum skilningi að búa til leikhús fyrir okkur.

Við Salka náum mjög vel saman í listinni. Mér finnst mjög gaman að vinna með kláru fólki og Salka er súperklár. Hún er líka fljót að hugsa og fyndin. Það er því algjör lúxus að fá að vinna með svona góðum samstarfsaðila. Við erum líkar að því leyti að við lásum báðar mjög mikið þegar við vorum yngri og þar tengjum við sterkt í því hvernig fólk segir sögur. Síðast en ekki síst erum við mjög góðar vinkonur. Við bætum hvor aðra upp þar sem styrkleikar okkar liggja á ólíkum sviðum. Við vinnum því mjög vel saman,“ segir Aðalbjörg.