Sigurður Hólm Sigurðsson fæddist á Hólmavík 4. mars 1946. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 18. maí 2022.
Foreldrar hans voru Sigurður Rósmundsson, f. 24. nóvember 1902, d. 13. ágúst 1986, og Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 11. júní 1913, d. 2. október 1988.
Sigurður sleit barnsskónum á Brúará á Ströndum og á unglingsárunum var hann á Akranesi frá átta ára aldri.
Rúmlega tvítugur flutti hann á Blönduós, giftist og eignaðist börnin sín þar. 1980 flutti hann til Reykjanesbæjar og bjó þar til æviloka.
Systur hans eru Ingibjörg Fanney Sigurðardóttir, f. 20. júni 1942, Guðrún Magndís Sigurðardóttir, f. 8. febrúar 1949, Kristjana Guðjónsdóttir, f. 5. september 1955, og uppeldissystir var Finnfríður Benedikta Hjartardóttir, f. 2. febrúar 1933, d. 15. júlí 2020.
Hinn 9. september 1967 kvæntist Sigurður Hólm eftirlifandi konu sinni, Eygló Hjálmarsdóttur frá Blönduósi, f. 7. desember 1946. Foreldrar hennar voru Kristín Helgadóttir, f. 20. nóvember 1921, d. 2. mars 2009, og Hjálmar Húnfjörð Eyþórsson, f. 4. desember 1917, d. 21 júní 1999.
Börn þeirra eru: 1) Kristín Ingibjörg Sigurðardóttir Hólm, f. 13. janúar 1968, maki Ásgeir Guðrúnarson Hólm. 2) Guðjón Hólm Sigurðsson, f. 11. ágúst 1971, maki Sigurborg Þórsdóttir. 3) Hjálmar Sigurðsson, f. 19. júlí 1976, maki Marta Ólöf Jónsdóttir. Áður átti Sigurður Þorkel Daníel Jónsson, f. 24. júní 1966, maki hans er Guðrún Jónína Haraldsdóttir.
Barnabörn eru tíu og barnabarnabörn eru fjögur.
Að lokinni hefðbundinni skólagöngu tók Sigurður 1. bekkinn í Iðnskólanum á Sauðárkróki. Hann útskrifast úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1976.
Sigurður fór ungur að aldri til sjós, hann var orðinn bátsmaður 15 ára gamall á togara. Hann var með eigin útgerð um tíma og var skipstjóri og stýrimaður lengst af á Geir Goða GK 220. Sigurður var alla ævi með hugann við sjóinn.
Sigurður vann um tíma við pípulagnir, í trefjaplasti á Blönduósi og við ýmis önnur verkamannastörf.
Sigurður fór til Namibíu í febrúar 1994 og vann sem skipstjóri á Jakob Marengo til maí 1996. Eftir dvölina í Namibíu stofnaði hann sápuverksmiðjuna Undra og rak hana með konu sinni og börnum í 19 ár.
Sigurður verður jarðsunginn frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 27. maí 2022, kl. 11.
Þessar línur elsku pabbi minn ertu til þín sem nú ert horfinn okkur frá. Snöggt skiptast á skin og skúrir í lífinu og þessu hafði ég bara á engan hátt búist við, ekki núna og ekki svona hratt. En það er mér ómetanlegt að hafa fengið að vera með þér, þessa síðustu daga í ferðalaginu með mömmu og Ásgeiri og þar áður þessa sex mánuði sem þið voruð hjá okkur í Danaveldi frá því í ágúst í fyrra.
Sögumaður varstu góður og sagðir skemmtilega frá. Sem barn var það unun að hlusta á þig lesa sögur fyrir okkur. Sögurnar urðu lifandi og hver sögupersóna fékk sína rödd. Barnabörnin þín fengu líka að kynnast þessum frásagnarhæfileikum þínum, og allavega eitt þeirra hefur erft þessa frásagnahæfileika þína. Einnig sem fullorðin naut ég þess að hlusta á þig lesa eða segja sögur. Þú varst einstaklega orðheppinn maður og sagðir skemmtilega frá. Sannleikurinn þurfti ekkert að eyðileggja góða sögu, sagðir þú oft með blik í auga.
Þín er einnig minnst af vinum þínum fyrir að segja skemmtilega frá og vera góður maður.
Ljónheppinn varstu og oft stóðstu í lífshættulegum aðstæðum, sem þú bjargaðist frá á einhvern óskiljanlegan hátt. Oft sagðir þú: Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið.
Ljóðelskur varstu með afbrigðum og þú þurftir ekki að heyra góða vísu nema einu sinni og þá kunnir þú hana. Þetta fékkstu í arf frá föður þínum sem var góður hagyrðingur.
Man ég eitt ljóð svona:
Má hann babbi bera þig,
þótt býsna sértu ólmur
Komdu þá og kysstu mig,
kæri Siggi Hólmur.
Stærstan hluta lífs þíns varstu skipstjóri eða stýrimaður og var sjórinn alltaf ofarlega í huga þínum. Þrátt fyrir að þú hættir til sjós, stofnaðir og rækir sápuverksmiðjuna Undra ásamt mömmu í 19 ár dundaðir þú við að gera upp bát og sækja sjó í hjáverkum.
Þið mamma voruð samrýnd þótt ólík væruð. Þú varst meira ákveðinn en mamma fór mýkri leiðina. Það var líka fyrir tilstuðlan hennar að þið ferðuðust um allan heim. Hún studdi þig alltaf, en hélt þér samt á jörðinni þegar hugmyndirnar, sem þú áttir nóg af, tóku flugið.
Okkur börnin þín og barnabörn studdir þú af öllum mætti og þið mamma reynduð allt hvað þið gátuð til að við yrðum örugg og okkur liði vel. Ég þakka þér og mömmu fyrir allt það sem þið hafið gefið mér og mínum í lífinu. Umburðarlyndi, traust, áræði og reyndar líka ævintýramennsku tek ég með mér frá uppeldinu hjá ykkur, og það að maður mátti og átti að vera maður sjálfur.
Elsku pabbi minn, það er komið að kveðjustund í bili. Ég hef þá trú að við hittumst á ný og þá trú hafðir þú líka. Eflaust munt þú skemmta öllu okkar fólki sem á undan þér er gengið með sögunum þínum og glaðværð. Og þegar okkar tími kemur bíður þú okkar með enn eitt húsið sem þú ert búinn að byggja handa okkur.
Ég enda þetta á vísu eftir afa, sem við vitum að þér þótti vænt um:
Helstan á ég herrann að,
nálægð hans ég þekki.
Hann er hjá mér þrátt fyrir það,
þó ég sjái hann ekki.
Þín dóttir,
Kristín Ingibjörg
Sigurðardóttir Hólm.
Þegar sjómannsferli hans lauk breyttust áhugamálin og áherslurnar, sumarbústaðurinn fyrir norðan tók meiri tíma. Við bræður og hann tókum til við að virkja bæjarlækinn og var það meira áhugamál fremur en nauðsyn. Við feðgar fengum eitt sinn mikinn náttúruunnanda sem lagði stund á rjúpnaveiði í heimsókn. Honum varð að orði þegar hann dáðist að vatnsföllunum bylgjast niður hlíðar dalsins fagra að þá værum við feðgar að reikna út aflið sem færi þar forgörðum óvirkjað, svo mikill væri áhuginn hjá okkur.
Hann pabbi var mikill sögumaður og hafði einstaka frásagnargáfu sem seint verður lýst, menn sem hafa upplifað það skilja hvað átt er við. Ég mátti vita að ef hann sagði söguna mátti deila í hana með tíu til að fá rétta útkomu. Ef einhver nefndi að ekki væri rétt með farið sagði hann einfaldlega að „ekki mætti láta góðu sögu líða fyrir sannleikann“. Hann hafði þá náðargáfu að ef hann heyrði vísu mundi hann hana. Átti hann það til að þylja upp heilu vísnabálkana. Ég skildi ekki hvernig þetta væri hægt en hann orðaði það svo að ef rétt væri kveðið væri auðvelt að læra þær.
Hann var sérlega iðinn og varð ávallt að hafa eitthvað fyrir stafni, annars leiddist honum. Til marks um það vorum við feðgar eitt sinn sem oftar fyrir norðan um vetrartíma og höfðum fjárfest í vélsleða til að komast leiða okkar í sumarbústaðinn. Við vorum að standsetja ljósavél til að nota yfir vetrartímann. Það leið ekki á löngu þar til hann var farinn að skjótast á sleðanum til að sækja lítilræði á næsta bóndabæ til verksins og sumt sem þurfti ekki einu sinni. Ég nefndi þá hvort hann vildi ekki bara fara og leika sér á sleðanum hér í nágrenninu. Hann sagði þá um hæl: „Maður leikur sér ekki á vélsleða!“ Allt varð að hafa tilgang.
Hér fór kraftmikill maður sem lét ekkert stöðva sig og ekkert verk var honum of stórt, liðsinnis hans var ávallt óskað í hverju því sem einhver þurfti aðstoðar við. Minningarnar hrannast upp þegar ég minnist föður míns. Hann var ekki bara faðir heldur líka traustur vinur og það er erfitt að greina þar á milli.
Elsku pabbi, á þessari kveðjustund er mér efst í huga þakklæti og enginn gæti óskað sér betri föður. Ég mun sakna þín, ég mun minnast þín og halda sögum þínum lifandi.
Þinn einlægur sonur,
Hjálmar.
Við erum stödd heima í Lágseylu og við enda borðsins situr gráhærður maður sem er orðinn nokkuð lotinn í herðum. Augun eru hvikul og það leikur örlítið glott um varir hans út í annað munnvikið. Það vita það allir sem sitja til borðs að nú er von á góðri sögu. Eygló eiginkona Sigga Hólm hefur lagað rjúkandi heitt kaffi og skenkt í bolla fyrir gesti. Einnig hefur hún borið fram veitingar sem líkjast meira fermingarveislu, en það má ekki nefna það, þetta er bara smáræði með kaffinu. Og nú hefst frásögn Sigga af löngu liðnum atburðum, atburðum sem birtast okkur ljóslifandi í stofunni fyrir þá sem hlusta á. Svo ljóslifandi verður frásögnin að bæði umhverfið, mennirnir og atburðurinn sjálfur eru okkur svo vel kunnug, þrátt fyrir að bæði söguslóðir og mennirnir séu nú horfnir, að það er eins og við séum á staðnum. Við erum leidd í gegnum löngu liðinn tíma sem við fáum nú um nokkra stund að dvelja við í gegnum frásögn Sigga. Sögumaðurinn hefur lagt sig fram við að gera söguna bæði eftirminnilega og spaugilega.
Minningarnar munu ylja um ókomna tíð um eftirminnilegan mann sem hafði frá mörgu að segja. Ævintýramann sem sá tækifæri í mörgu og var harðduglegur til allra verka.
Elsku Siggi minn, takk fyrir sögurnar og kaffið, takk fyrir vináttuna og kærleikann sem þú sýndir mér og mínum.
Kærleiks- og vinarkveðja,
Marta Ólöf.
Kveðja frá Reglu Musterisriddara
Í dag minnumst við Sigurðar Hólm Sigurðssonar sem lést 18. maí 2022. Sigurður gekk í Reglu Musterisriddara árið 2016. Hann gegndi þar trúnaðarstörfum og var virkur félagsmaður sem bar hag Reglunnar fyrir brjósti. Alltaf tilbúinn þegar til hans var leitað og lagði sitt af mörkum til að framgangur Reglunnar yrði sem bestur. Við félagarnir minnumst hans með þakklæti og hlýhug og þökkum honum vel unnin störf og góða samferð.Regla Musterisriddara sendir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Sigurðar og ástvina. Blessuð sé minning Sigurðar Hólm Sigurðssonar.
Fyrir hönd Reglu Musterisriddara RM Heklu,
Stefán Þór
Kjartansson.