Guðmunda Hjartardóttir fæddist á Sólvöllum í Kvíabryggjuþorpi við Grundarfjörð 7. nóvember 1931. Hún lést 17. maí 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Hjörtur Hermannsson, f. 1.10. 1896, d. 28.5. 1966, og Arnfríður Friðgeirsdóttir, f. 15.12. 1902, d 19.8. 1961. Bróðir Guðmundu var Friðjón, f. 12.12. 1926, d. 17.6. 1971.

Eiginmaður Guðmundu var Jón Hansson, verkstjóri í Grundarfirði, f. 4.7. 1929, d. 14.9. 2001. Börn þeirra eru: 1) Hafsteinn, f. 16.3. 1950, búsettur í Hveragerði. Hafsteinn var kvæntur Sigrúnu Eddu Hringsdóttur, f. 15.2. 1958, d. 23.2. 2019. Börn þeirra eru Sigrún, María og Hermann. Barnabörnin eru fimm. 2) Hermann, f. 22.8. 1952. Búsettur í Kópavogi, kvæntur Elísu Önnu Friðjónsdóttur. Synir þeirra eru Friðjón Fannar, f. 23.2. 1975, d. 30.10. 2016, Hermann og Hjörvar. Barnabörnin eru þrjú. 3) Ingi Hans, f. 24.2. 1955, búsettur í Grundarfirði, kvæntur Sigurborgu Kr. Hannesdóttur. Börn hans og Ólafar Hildar Jónsdóttur eru Jón Hans, Hanna Sif, Ída María og Ingi Björn. Barnabörnin eru sjö. 4) Hjördís Fríða, f. 13.4. 1959, búsett í Grundarfirði, gift Sævaldi Fjalari Elíssyni. Börn þeirra eru Hjalti Vignir og Særós Ósk. Barnabörnin eru tvö. 5) Guðmundur Hjörtur, f. 1.10. 1970, búsettur í Hafnarfirði, kvæntur Margréti Óskarsdóttur. Börn þeirra eru Guðrún Ósk, Aron og Eva Lind og eru barnabörnin þrjú. Fyrir átti Guðmundur dótturina Sunnu Dögg. Móðir hennar er Snædís Kristinsdóttir.

Guðmunda var níu ára gömul er hún flutti með foreldrum sínum og Friðjóni bróður sínum í Grafarnes við Grundarfjörð þar sem þá var þorp að myndast. Fljótlega eftir komuna í Grafarnes hófst Friðjón, á 16. ári, handa við að byggja fjölskyldunni nýtt heimili með aðstoð vinar. Drengirnir byrjuðu á byggingunni í ágúst 1941 og flutti fjölskyldan í húsið skömmu fyrir jól. Af þessu afreki drengjanna fékk húsið nafnið Snarræði.

Þau Guðmunda og Jón undu hag sínum vel í Grundarfirði og tóku virkan þátt í uppbyggingu þorpsins. Heimili þeirra var rómað fyrir gestrisni og snyrtimennsku. Guðmunda vann ýmis störf utan heimilis og var listhneigð og mikil hannyrðakona. Þau hjón voru öflug í félags- og menningarstarfi sinnar byggðar.

Útför Guðmundu fer fram í dag, 27. maí 2022, frá Grundarfjarðarkirkju og hefst kl. 13.00.

Streymt verður frá athöfninni á youtube-síðu Grundarfjarðarkirkju.

Þegar sólin hellti sínum fyrstu geislum yfir land og haf þótti mömmu rétt að fara. Þannig var lífinu varið enda tilvalið að rísa úr sæti, gera sér erindi, hitta vini og frændfólk eða bara fara með nesti í fallega laut og njóta þess sem lífið bauð. En á þessum fyrstu sólardögum sumarsins lagði Guðmunda Hjartardóttir af stað til Sumarlandsins, södd lífdaga, þakklát og glöð. Lífsgöngunni er lokið og nú skal stefnt á önnur tilverustig.

Nokkrar kynslóðir barna í Grundarfirði sjá á bak ömmu Mundu og minnast í kærleika stunda yfir lukkupökkum, smáköku, ísblómi eða smá nammi. Hönd lögð á koll eða stroka um vanga. Alltaf glöð, uppörvandi og hvetjandi. Að lifa til fulls er að lifa í þakklæti, njóta hverrar stundar í gleði og miðla henni til samferðafólksins ungra sem aldinna. Og allt kom það til baka í virðingu og væntumþykju samferðafólks. Já, það er ljúft að minnast þess alls.

En nú er komin kveðjustund og maður lýtur höfði í virðingu, tár streyma niður vanga og hjartað opnar fyrir allt það fallega sem þar býr. Elsku mamma mín, takk fyrir allt og berðu kveðju til Sumarlandsins.

Ingi Hans.

Þá hefur hún kvatt, hún Munda, sem fékk að fara nákvæmlega eins og hún óskaði sér. Að sofna og vakna ekki aftur. Þegar minningarnar um þessa góðu konu streyma fram fyllist hjartað af gleði.

Hún var glaðlynd, með dillandi hlátur og hún elskaði að gefa, hvort sem það voru afmælis- eða jólagjafir eða lukkupakkar fyrir börnin á jólamarkaði. Helst vildi hún gefa ljós eða engla. Og hún gaf af sér mikið ljós í gegnum lífið, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Gestir sem komu í heimsókn til okkar Inga Hans voru iðulega teknir með í heimsókn til Mundu, því það var svo spennandi að fá að kíkja í bílskúrinn hjá henni á allt handverkið. Öllum tók hún vel og oftar en ekki gaukaði hún einhverju að gestinum. Líka útlendingum sem við komum með til hennar og skipti þá engu máli þótt hún kynni enga útlensku, allra beið faðmur og dillandi hlátur. Einn þessara gesta, alsæll með móttökurnar, hafði þó orð á því hvað hún færi seint að sofa, þessi gamla kona.

Nú dansar hún í Sumarlandinu við hann Jón sinn og við sem þekktum hana yljum okkur við hafsjó af góðum minningum. Á þessu heimili er svo margt sem minnir á hana; englastyttur og stór hluti af jólaskrautinu. Þannig er hún og hennar góða lífsverk með okkur þar til kemur að endurfundum í annarri vídd.

Elsku Munda, hafðu þökk fyrir allt sem þú gafst mér, faðmlögin, kærleikann, brosin og gleðina.

Sigurborg Kristín Hannesdóttir.

Elsku amma. Nú þegar ég kveð þig í hinsta sinn koma margar minningar fram. Fyrst koma upp í hugann öll spilakvöldin þar sem var spilað t.d. lúdó, manni og marías, að ógleymdri vistinni góðu, og fór ég oft með ykkur afa í félagsvist þar sem þið oftar en ekki unnuð.

Þú varst líka oft að föndra ýmsa hluti sem þú svo seldir á jólabasarnum og á Góðri stund.

Svo varstu líka oft að gefa okkur ömmu- og langömmubörnunum ýmislegt sem þú varst að búa til, að ógleymdum aukapökkunum á jólunum.

Amma var alltaf brosandi eða hlæjandi og mun ég alltaf minnast hennar þannig.

Ég veit að Jón afi tekur vel á móti þér núna þegar þið sameinist á ný.

Blessuð sé minning Mundu ömmu.

Hjalti Vignir.