Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Baltasar Kormákur Baltasarsson leikstjóri segir ekkert jafnast á við það að vera til staðar og leiðbeina ungu fólki í upphafi ferils síns í kvikmyndaheiminum. Hefur hann fylgt fjölda íslenskra leikara fyrsta spölinn hér heima og er nú kominn á þann stað að hafa fylgt nokkrum erlendum stjörnum sem léku sín fyrstu hlutverk í kvikmyndum hans. „Það er ofboðslega gaman að fá að styðja fólk þegar það tekur fyrstu skrefin. Þau verða svolítið eins og börnin manns. Þau þroskast og stækka og eignast geggjaðan feril. Þau eignast stað í hjarta manns,“ segir Baltasar.
Baltasar leggur nú lokahönd á nýjustu kvikmynd sína, Beast , sem hann tók að stórum hluta upp í frumskógum Suður-Afríku. Í kvikmyndinni eru tvær ungar konur, Leah Jeffries og Iyana Halley. Jeffries fékk í kjölfar Beast hlutverk í þáttunum Percy Jackson and the Olympians, en hún hafði einnig áður farið með hlutverk í þáttunum Empire . Halley fór áður með hlutverk í þáttunum This is Us .
Með aðalhlutverk í kvikmyndinni fer stórleikarinn Idris Elba og segir Baltasar þá félaga eiga mikið sameiginlegt og ná mjög vel saman. Hann segir að þeir hafi lengi leitað að hinu fullkomna verkefni til að vinna saman og lendingin hafi verið kvikmyndin Beast . 2