Sjávarútvegur Mikilvægt er fyrir Ísland að markaðsaðgangur til ESB fyrir sjávarafurðir verði bættur og verður áhersla lögð á það.
Sjávarútvegur Mikilvægt er fyrir Ísland að markaðsaðgangur til ESB fyrir sjávarafurðir verði bættur og verður áhersla lögð á það.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, mun leiða viðræður EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við Evrópusambandið um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES. Fyrsti samningafundur verður hinn 16. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, mun leiða viðræður EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við Evrópusambandið um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES. Fyrsti samningafundur verður hinn 16. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Samningaviðræður um nýtt tímabil sjóðsins eru fjórþættar. Í fyrsta lagi er samið við ESB um heildarframlög EES-EFTA-ríkjanna til sjóðsins á næsta starfstímabili. Í öðru lagi er samið við ESB um helstu áætlanasvið sjóðsins á tímabilinu, þ.e. á hvaða sviðum þau verkefni skuli vera sem framlögum EES-EFTA-ríkjanna verður ráðstafað til í viðtökuríkjum sjóðsins. Í þriðja lagi semja EES-EFTA-ríkin við hvert og eitt viðtökuríkja sjóðsins um skiptingu fjármuna milli einstakra áætlanasviða, skiptingu áætlana á milli Uppbyggingarsjóðs EES annars vegar og norska tvíhliða sjóðsins hins vegar og fyrirkomulag framkvæmdar í hverju ríki fyrir sig. Í fjórða lagi er samið við ESB um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir á hverju nýju starfstímabili sjóðsins.

„Þannig samdi Ísland um tollfrjálsa kvóta fyrir tiltekið magn af síld, karfa, humri og þorsklifur vegna yfirstandandi starfstímabils. Ísland mun jafnframt nýta það tækifæri sem viðræður um nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðsins fela í sér til að knýja á um endurskoðun samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur,“ segir í svarinu.

Í samningaviðræðunum mun Ísland leggja áherslu á að möguleg hækkun framlaga verði eins hófleg og kostur er og helst ekki umfram verðlagsbreytingar. „Hvað varðar viðræður um áætlanasvið sjóðsins og skiptingu framlaga milli þeirra í einstökum viðtökuríkjum sjóðsins mun Ísland áfram hafa svipaðar áherslur og hingað til, þ.e. að framlögum verði m.a. ráðstafað til áætlana á sviðum rannsókna, nýsköpunar, menntunar, menningar, endurnýjanlegrar orku, umhverfismála, kynjajafnréttis sem og til frjálsra félagasamtaka.“

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni áréttaði utanríkisráðherra á fundi EES-ráðsins í byrjun vikunnar hve mikilvægt það væri fyrir Ísland að markaðsaðgangur til ESB fyrir sjávarafurðir yrði bættur og að landbúnaðarsamningur Íslands og ESB yrði endurskoðaður. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsin er rakið að Ísland hafi á undanförnum árum lýst ítrekað þeirri skoðun sinni gagnvart ESB að tollar sem lagðir eru á íslenskar sjávarafurðir við innflutning til ESB séu óeðlilegir og ekki í anda þeirra grundvallarsjónarmiða sem EES samstarfið byggist á.

„Frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994 hefur samsetning sjávarafurða sem fluttar eru til ESB ríkja breyst og orðið til þess að hlutfall afurða sem ber toll hefur aukist. Hlutfall íslenskra sjávarafurða sem eru fluttar tollfrjálst á markað ESB hefur þannig farið úr því að vera 96% árið 1994 niður í um 73% í dag, ef miðað er við útflutningsverðmæti. Skýrist þetta einkum af auknum útflutningi á ferskum afurðum í stað frosinna, auknum útflutningi eldisafurða og því að makríll fór að veiðast í íslenskri lögsögu. Á sama tíma hefur ESB gert viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem veitt er fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir, t.a.m. við Japan, Bretland, Víetnam og Kanada. Ísland hefur staðfastlega haldið fram þeirri kröfu að þessi staða verði bætt umtalsvert,“ segir í svarinu.

Framlagið 6,9 milljarðar

Sameiginleg framlög ríkjanna þriggja, sem fara fram í gegnum Uppbyggingarsjóð EES, nema alls rúmum 1,5 milljörðum evra á yfirstandandi sjóðstímabili, 2014-2021. Því til viðbótar samþykkti Noregur að greiða sérstaklega tæplega 1,3 milljarða evra á tímabilinu í gegnum norskan tvíhliða sjóð sem er rekinn samhliða Uppbyggingarsjóði EES. „Umsamið framlag Íslands á tímabilinu nam 50 milljónum evra (um 6,9 milljörðum kr. m.v. núverandi gengi) eða sem svarar til um 3,2% af sameiginlegum framlögum og um 1,8% af heildarframlögum EES-EFTA-ríkjanna. Rétt er að hafa í huga að íslenskir samstarfsaðilar njóta góðs af þátttöku í ýmsum verkefnum sem fjármögnuð eru af sjóðnum,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.