6 Blikarnir Ísak Snær Þorvaldsson og danski varnarmaðurinn Mikkel Qvist fallast í faðma eftir að sá síðarnefndi hafði skorað sjötta mark Breiðabliks.
6 Blikarnir Ísak Snær Þorvaldsson og danski varnarmaðurinn Mikkel Qvist fallast í faðma eftir að sá síðarnefndi hafði skorað sjötta mark Breiðabliks. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Ísak Snær Þorvaldsson kom inn á í hálfleik og skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik þegar liðið vann stórsigur gegn Val í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, á Kópavogsvelli í Kópavogi í gær.

Ísak Snær Þorvaldsson kom inn á í hálfleik og skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik þegar liðið vann stórsigur gegn Val í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, á Kópavogsvelli í Kópavogi í gær. Staðan var jöfn í hálfleik, 2:2, þar sem þeir Omar Sowe og Viktor Örn Margeirsson skoruðu mörk Blika en Birkir Heimisson og Tryggvi Hrafn Haraldsson voru á skotskónum fyrir Val. Galdur Guðmundsson og Mikkel Qvist skoruðu mörk Blika í síðari hálfleik ásamt Ísaki Snæ og lokatölur því 6:2.

*Tíu Framarar unnu dramatískan sigur gegn Leikni úr Reykjavík í framlengdum leik á Framvelli í Safamýri þar sem Magnús Þórðarson og Alexander Már Þorláksson skoruðu mörk Framara í venjulegum leiktíma áður en Mikkel Jakobsen minnkaði muninn fyrir Leikni á 68. mínútu. Alex Freyr Elíasson í liði Framara fékk að líta rauða spjaldið á 74. mínútu fyrir að verja með höndum á marklínu og vítaspyrna dæmd. Emil Berger steig á punktinn og jafnaði metin fyrir Leikni. Í framlengingunni var það Jannik Pohl sem skoraði sigurmark leiksins og þar við sat.

*Þá unnu Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík stórsigur gegn annarradeildarliði Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði. Leiknum lauk með 7:0-sigri Víkinga en þeir Birnir Snær Ingason, Helgi Guðjónsson og Kristall Máni Ingason skoruðu tvö mörk hver fyrir Víkinga og þá var Ari Sigurpálsson einnig á skotskónum.

*Á Akureyri vann KA svo 4:1-sigur gegn Reynir úr Sandgerði eftir að staðan hafði verið 1:1 í hálfleik.

Jakob Snær Árnason kom KA yfir á 15. mínútu en Elton Barros jafnaði metin fyrir Reyni á 24. mínútu.

Elfar Árni Aðalsteinsson, Jakob Snær og Hallgrímur Mar Steingrímsson bættu svo við sínu markinu hver í síðari hálfleik og Akureyringar fögnuðu sigri.

*Það verða því Ægir, ÍA, Selfoss, Afturelding, HK, ÍR, Kórdrengir, Dalvík/Reynir, Fylkir, FH, Njarðvík, KR, Fram, KA, Víkingur úr Reykjavík og Breiðablik sem verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin.