Eyjólfur Eyjólfsson sendi mér póst: „Fyrir nokkru smokraði illkvittinn skunkur, Eyjólfur J. að nafni, sér inn í vísnahorn Morgunblaðsins og stal þar frá mér vísukorni.

Eyjólfur Eyjólfsson sendi mér póst: „Fyrir nokkru smokraði illkvittinn skunkur, Eyjólfur J. að nafni, sér inn í vísnahorn Morgunblaðsins og stal þar frá mér vísukorni. Nú er þessi skratti aftur kominn á kreik með sama flærðarglottið og ískrar í honum hláturinn. Hann er enginn vinur minn“:

Eyjólfur Óskar er fremur

andlítill tittur sem semur

óttalegt hnoð

segir Eyjólfur J.

og sinn nafna með nöglinni kremur.

Á Boðnarmjöð skrifar Gunnar J. Straumland: „Nú hóta klerkar helvítisvist. Sumum er bara alveg sama“:

Hylli myrkrahöfðingjans

hækkaði gróða aflandsmanns

því allt sem fór til andskotans

endaði svo í vasa hans.

Áður hafði Gunnar ort og sagt „Skrítið“:

Auðvitað hef ég, án alls vafa,

yndislega nærveru,

en þó er mér sagt ég þyki hafa

þægilegri fjarveru.

Hallmundur Kristinsson yrkir „Séra Davíð“:

Blessað getur bæði spé

og boðskap sinna feðra.

Kann að vera að karlinn sé

kunnugur í neðra.

Dofri Hermannsson spyr hver orti:

Dimm og þung er dómsins raust,

dæmt, frá engu' er þokað.

Helvíti er hurðalaust

en himnaríki lokað.

Stefán Gíslason svarar og segir að erindið sé úr kvæðinu Axlar-Björn eftir Davíð frá Fagraskógi.

Ólafur Stefánsson skrifar: „Það er svo sem nóg rekjan og það er „gott fyrir gróðurinn“ eins og karlinn sagði, en hlýjuna vantar og sólin sparar sig óþarflega:“

Varíasjónir um veðrið

Nú sést varla birta blá

né brauðvolg sumarkvöld,

þoka yfir þrumir grá

þrúgandi og köld.

Bíða má ég bjartra nátta

bregðast rauðgyllt kvöld.

Hitastigin aðeins átta,

úrg er þoka og köld.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Leysing (nýlanghent, víxlhent, síðbakhent)“:

Þegar hlánar hlýnar blærinn,

hægur bærir smáu stráin,

lindin þánar, þiðnar snærinn,

þotið fær til sjávar áin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is