Veronika Steinunn Magnúsdóttir
veronika@mbl.is
Leiguverð hefur ekki hækkað að raunvirði á síðastliðnum tveimur árum, frá aprílmánuði 2020 til aprílmánaðar 2022, sé litið til leiguverðs í þinglýstum leigusamningum. Þetta segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Verkalýðshreyfingin hefur talað öðru máli og segir stöðu leigjenda afleita. Á tímabilinu hækkaði leiguverð um 9%, almennt verðlag án húsnæðis um 10%, laun um 17% og verð íbúðarhúsnæðis um 39%, að sögn Önnu Hrefnu. „Gögnin endurspegla leiguverð nýrra samninga í upphafi samningstímans. Margir leigusamningar eru þó vísitölubundnir og ekki öllum leigusamningum er þinglýst þannig að það mætti bæta úr gögnum um leigumarkað, eins og stendur reyndar til að gera,“ segir Anna. Segir hún að þá væri hægt að fá fyllri upplýsingar um það hvers konar leigusamningar liggi þarna að baki og hvernig leiguverð þróast á samningstíanum. Þá hefur Alma íbúðafélag til að mynda ákveðið að frysta leiguverð á endurnýjuðum leigusamningum vegna verðbólgu.
Viðbúið að leiguverð hækki
„Þó að leiguverð hafi undanfarin tvö ár ekki hækkað í takt við kaupverð húsnæðis, laun eða verðlag er viðbúið að það breytist á næstunni. Ekki síst í ljósi þess að þörf er á talsverðu aðfluttu vinnuafli sem þarf einhvers staðar að búa. Svo eigum við einnig von á áframhaldandi straumi flóttafólks vegna stríðsins. Þessi þróun mun setja aukinn þrýsting á leigumarkað,“ segir hún.
Spurð hvort skynsamlegt væri að setja þak á leiguverð segir Anna: „Það væri afar óskynsamlegt að reyna að leysa vanda leigjenda með því að setja þak á leiguverð. Ávöxtun af útleigu íbúðarhúsnæðis er þegar lítil og leiguþak myndi einungis draga úr því litla framboði sem þegar er til staðar á markaðinum þar sem hvatinn til að leigja út húsnæði yrði enn minni. Vandamálið á húsnæðismarkaði er einmitt skortur á íbúðarhúsnæði og leiguþak myndi því verka í þveröfuga átt við það sem til þarf, sem er stóraukið framboð íbúða á leigumarkaði.“
Engar skammtímalausnir dugi
Aukið framboð húsnæðis sé það eina sem myndi raunverulega lækka húsnæðiskostnað, sérstaklega ef hægt væri að byggja hraðar og hagkvæmar, án þess að gæðum eða öryggi yrði fórnað. Fyrir liggja fjöldamargar tillögur í þessum efnum svo sem fjölgun byggingarhæfra lóða, bætt ferli skipulagsmála og skilvirkari stjórnsýsla þannig að stytta megi framkvæmdatíma svo dæmi séu tekin.“ Engar skammtímalausnir dugi í þessum efnum og því sé mikilvægt að yfirvöld, ríki og sveitarfélög, hefjist handa strax við að ráðast í úrbætur í takt við þær sem aðgerðir í húsnæðismálum ríkisstjórnin kynnti fyrir viku, um aukna uppbyggingu íbúða og endurskoðun húsaleigulaga svo fátt eitt sé nefnt. Snúast þær um aukna uppbyggingu íbúða í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, endurbættan húsnæðisstuðning, endurskoðun húsaleigulaga. Mun ríkið þá hefja viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um rammasamning sem lýtur að byggingu 4.000 íbúða á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða næstu fimm ár þar á eftir.
Hlutfall vanskila minnkað
Í byrjun maímánaðar var fjallað um „afleita stöðu leigjenda“ í kjarafréttariti Eflingar. Segir þar að leigjendur hefðu varið að meðaltali 45% ráðstöfunartekna sinna í leigu árið, í samanburði við 40% árið 2019.
Er rétt að miða við ráðstöfunartekjur í hlutfall við leiguverð þegar aðstæður á leigumarkaði eru skoðaðar?
„Það er bæði óskynsamlegt og óframkvæmanlegt að ætla að miða leiguverð við ákveðið hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks við gerð samninga. Leiguverð ræðst af aðstæðum á húsnæðismarkaði og byrði húsnæðiskostnaðar er afleiðing af þróun undirliggjandi þátta svo sem launa, skatta og verði þess húsnæðis sem fólk kýs að búa í, en ekki útgangspunktur við ákvörðun leiguverðs,“ segir Anna Hrefna. Hins vegar sé gagnlegt að skoða þetta hlutfall reglulega líkt og Hagstofan geri, til þess að fá mynd af því hversu íþyngjandi húsnæðiskostnaður er almennt og fyrir ólíka hópa. „Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar kemur einmitt fram að byrði húsnæðiskostnaðar hefur frekar farið minnkandi, meira að segja í gegnum faraldurinn. Þá hefur hlutfall vanskila af húsnæðislánum eða leigu einnig farið lækkandi, líka í fyrra,“ segir Anna að lokum.