Oddviti Hafrún Olgeirsdóttir leiðir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurþingi.
Oddviti Hafrún Olgeirsdóttir leiðir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurþingi.
Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is Hafrún Olgeirsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi, segir að meirihlutaviðræður D-lista Sjálfstæðisflokks og B-lista Framsóknar og félagshyggju gangi vel. „Þetta mjakast allt í rétta átt.

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is Hafrún Olgeirsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi, segir að meirihlutaviðræður D-lista Sjálfstæðisflokks og B-lista Framsóknar og félagshyggju gangi vel. „Þetta mjakast allt í rétta átt. Við erum bara að vinna í málefnasamningi og hann verður kynntur fljótlega eftir helgi geri ég ráð fyrir,“ segir Hafrún en viðræðurnar hófust fyrir um tíu dögum.

Tveggja flokka meirihluti

Meirihlutinn í Norðurþingi féll í sveitarstjórnarkosningunum nú í vor. Í meirihluta voru áður Vinstri græn og óháðir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin og annað félagshyggjufólk.

Framsókn fékk þrjá menn kjörna í sveitarstjórnarkosningunum en Sjálfstæðisflokkur tvo menn og eru því með fimm af níu fulltrúum sem sitja í sveitarstjórn Norðurþings.

Hafrún segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að leggja upp með það fyrir kosningar að mynda tveggja flokka meirihluta. „Það tekst svona, þannig að við ætlum að láta reyna á það.“

Ætla að ráða sveitarstjóra

Hafrún segir flokkana hafa verið sammála um að ráða sveitarstjóra.

„Þetta er algjörlega á frumstigi. Við ætlum bara að kasta á milli okkar nöfnum og ef það verður ekki lending í því, þá auglýsum við stöðuna,“ segir Hafrún.

Kristján Þór Magnússon hefur gegnt starfi sveitarstjóra í Norðurþingi undanfarin tvö kjörtímabil. Hann var upphaflega ráðinn í stöðuna en var svo oddviti Sjálfstæðisflokks fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og náði kjöri og hélt stöðu sinni sem sveitarstjóri. Í upphafi árs tilkynnti Kristján að hann hygðist ekki sækjast eftir að gegna starfinu áfram, né bjóða sig fram til setu í sveitarstjórn.