Fyndnar Fyndnustu mínar frumsýna í kvöld sitt fyrsta sviðsverk sem nefnist FemCon.
Fyndnar Fyndnustu mínar frumsýna í kvöld sitt fyrsta sviðsverk sem nefnist FemCon.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is FemCon nefnist sýning uppistandshópsins Fyndnustu mínar sem frumsýnd verður í kvöld í Borgarleikhúsinu og er ekki uppistandssýning, þótt hópurinn sé þekktur af slíku standi.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

FemCon nefnist sýning uppistandshópsins Fyndnustu mínar sem frumsýnd verður í kvöld í Borgarleikhúsinu og er ekki uppistandssýning, þótt hópurinn sé þekktur af slíku standi. Hann skipa þær Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Lóa Björk Björnsdóttir, Rebecca Scott Lord og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og er sýningin hluti af verkefni leikhússins Umbúðalaust sem er vettvangur til að þróa verkefni og setja upp sýningar í hráu rými með lítilli umgjörð, svo vitnað sé í vef leikhússins og er markmiðið með Umbúðalausu að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur.

Ráðstefna og rýnihópur

Hekla segir að þetta sé fyrsta sýning Fyndnustu minna sem sé ekki uppistandssýning. Hún sé sviðsverk en þó með ákveðnum „elementum“ úr uppistandi. „Þetta er gamanverk og meira „show“ en við höfum verið með áður. Það er dansað og sungið og vídeó og leikur og ýmislegt. Við erum allar með sviðslistamenntun þannig að þetta er í fyrsta skipti sem við nýtum það saman til að búa til grínsýningu með meiri umgjörð en uppistand,“ útskýrir Hekla.

FemCon er hálfgerð ráðstefna, segir Hekla og að þær vinkonur séu í sýningunni að átta sig á því að þær komist ekki lengra sem uppistandarar þar sem þær séu að sleikja glerþakið á bransanum. „Þá liggur beinast við að breyta bara femínisma og endurmarkaðssetja hann. Áhorfendur eru í hálfgerðum rýnihópi hjá okkur þar sem við leitumst við að þróa nýjar aðferðir og einfalda hugmyndafræðina svo við getum náð jafnrétti hraðar til að ná árangri hraðar. Þetta er mjög sjálfsmiðað „mission“ en með göfugu markmiði samt,“ segir Hekla. Verkið virðist, miðað við lýsingu, vera fyndið á yfirborðinu en þó með alvarlegum undirtóni. Hekla er spurð að því hvort það sé ekki rétt skilið og svarar hún því til að svo megi að orði komast. „Við erum að leitast við að tala um þung og erfið málefni á hátt sem er ekki alveg það,“ útskýrir hún.

En er mikil sviðsmynd í sýningunni eða bara strípað svið? Hvernig er hin sjónræna útfærsla? Hekla segir litla sviðsmynd í henni þar sem þær fái greitt fyrir að gera verkið en enginn efniskostnaður sé innifalinn í þeirri greiðslu. „Þannig að við erum bara að vinna svolítið með það sem er til,“ segir hún. „Þetta er samt meiri sviðsmynd en maður er vanur í uppistandi.“

Danskennsla hjá dragdrottningu

„Já, já,“ svarar Hekla þegar hún er spurð að því hvort þær skipti um búninga í sýningunni og segir hún að búningarnir séu samtíningur af hinu og þessu, lánuðum flíkum og flíkum úr leikhúsinu meðal annars. Hún bætir við að þær vinkonur hafi verið í stífri danskennslu hjá dragdrottningu sem sé mjög áhugavert þar sem engin þeirra sé í formi.

Í texta á vef leikhússins segir m.a. um sýninguna að nú geti allar konur fundið sína eigin eitruðu yfirkonu. En er ekki verkið fyrir karla líka? „Jú, jú, karlar þurfa líka að finna sína eigin eitruðu yfirkonu,“ svarar Hekla glettin. FemCon er því fyrir alla og allir græða á því að mæta.