Kraftur og snerpa Einbeittur Jolli á fullri ferð með Tindastóli.
Kraftur og snerpa Einbeittur Jolli á fullri ferð með Tindastóli.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Enn einu körfuboltatímabilinu er lokið og Tindastóll varð að sætta sig við silfrið í efstu deild karla. Skagfirðingar geta samt huggað sig við það að enn stendur met Eyjólfs G. Sverrissonar eða Jolla, sem hann setti í deildinni fyrir um 33 árum.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Enn einu körfuboltatímabilinu er lokið og Tindastóll varð að sætta sig við silfrið í efstu deild karla. Skagfirðingar geta samt huggað sig við það að enn stendur met Eyjólfs G. Sverrissonar eða Jolla, sem hann setti í deildinni fyrir um 33 árum.

Veturinn 1988-1989 lék Jolli 26 leiki með Tindastóli, sem var þá í fyrsta sinní í úrvalsdeild karla í körfubolta, og skoraði 24,2 stig að meðaltali í leik. Á næsta tímabili lék hann einn leik, áður en hann fór í atvinnumennsku í knattspyrnu, og skoraði fjögur stig úr jafnmörgum vítaskotum. Þar með lækkaði meðaltalið í 23,4 stig í leik í efstu deild en engu að síður var hann áfram stigahæstur að meðaltali í leik í efstu deild og er enn, samkvæmt upplýsingum frá Körfuknattleikssambandi Íslands.

„Þetta var mjög skemmtilegur tími,“ segir Jolli. „Karfan er frábær íþrótt og ég fylgist vel með henni.“ Hann var fæddur íþróttamaður og gat allt. „Þegar slyddan fór að berja mann í andlitið fór ég inn í körfuna og þegar sólin fór að skína á vorin fór ég út í fótbolta.“

Karfa og framhaldsnám

Þegar Jolli var í unglingalandsliðinu í körfubolta var hann valinn í U21 landsliðið í fótbolta og sló í gegn í Evrópuleik á móti Finnum á Akureyrarvelli í september 1989. „Ég ætlaði alltaf að einbeita mér að körfunni, hafði í huga að fara í nám til Bandaríkjanna og spila þar körfu með, rétt eins og margir gerðu á þessum tíma, en eftir að hafa verið valinn í U21 árs hópinn í fótbolta vandaðist valið. Svo skoraði ég þessi fjögur mörk á móti Finnum í undankeppni EM, var boðið í æfingaferð til Stuttgart, sem ég þáði, og í kjölfarið gerði ég samning til tveggja ára við þýska félagið. Á svipstundu breyttist allt og ég endaði í fótboltanum.“

Árangurinn lét ekki á sér standa. Jolli varð Þýskalandsmeistari með Stuttgart 1992, Tyrklandsmeistari með Besiktas 1995 og bikarmeistari með Herthu Berlín 2001 auk þess sem hann var lykilmaður í íslenska landsliðinu, en hann lék aldrei í efstu deild á Íslandi. Varð hins vegar landsliðsþjálfari og átti stóran þátt í gullaldarliðinu á nýliðnum áratug.

Jolli var sterklega byggður og með mikinn sprengi- og stökkkraft. Hann segir að snemma hafi verið komið fyrir körfu á bílaplaninu heima á Króknum og þar hafi hann æft stökkkraftinn. „Þar tróð ég öllum stundum, æfði gabbhreyfingar og langskotin.“ Í því sambandi nefnir hann að hann hafi æft stökkkraftinn með því að stökkva með sandpoka bundna við ökklana. „Þegar ég stökk án þeirra var ég eins og gormur.“

Kári Marísson, þáverandi landsliðsmaður í körfubolta, flutti á Sauðárkrók 1978 og endurreisti íþróttina á svæðinu með góðum árangri. „Kári reif upp körfuna á Króknum, kveikti í mér sem krakka og var fyrsta fyrirmynd mín, á stóran þátt í uppgangi íþróttarinnar þar. Síðan kom Valur Ingimundarson norður sem þjálfari og leikmaður og ég lærði mikið af honum. Ég hafði fylgst lengi með honum, enda góður og skemmtilegur leikmaður, frábær félagi, sem gott var að spila með. Þessir menn höfðu mest áhrif á mig í körfunni og það er svolítið fyndið að metið skuli enn standa, en sem betur fer spilaði ég ekki meira!“