Jóna Vestfjörð Árnadóttir fæddist á Bræðraminni á Bíldudal 4. apríl 1943. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 19. maí 2022.

Jóna var dóttir hjónanna Guðrúnar Snæbjörnsdóttur, f. 11.10. 1912, d. 20.12. 1992, og Árna Kristjánssonar, f. 7.11. 1901, d. 8.4. 1966.

Systkini Jónu voru Kristján, f. 3.12. 1932, d. 24.4. 2019, Magga Alda, f. 21.4. 1936, d. 1.3. 2004, Reynir, f. 3.2. 1938, d. 9.2. 1938, Hilmar, f. 4.2. 1938, d. 7.6. 2019, Snæbjörn, f. 6.3. 1940, Rannveig, f. 11.1. 1942, d 10.6. 2002, Auðbjörg Sigríður Ragnhildur, f. 10.10. 1944, Hreiðar, f. 10.10. 1945, d. 10.1. 1970, Bjarnfríður Jóna, f. 17.3. 1947, Björg Júlíana, f. 26.2. 1949, d. 25.11. 2021, Magnús Jón, f. 11.12. 1950, Guðrún, f. 28.3. 1952, og Sigrún Málfríður, f. 4.11. 1956.

Jóna giftist hinn 29.12. 1962 eftirlifandi eiginmanni sínum, Sóloni Rúnari Sigurðssyni, f. 1.3. 1942.

Þau eignuðust fjögur börn: 1) Guðrún Margrét, f. 20.4. 1962, eiginmaður Hannes Heimisson, f. 25.3. 1960. Börn þeirra eru Heimir, f. 28.6. 1988, sambýliskona hans er Helga Margrét Marzellíusardóttir, f. 6.2. 1988, dóttir Helgu er Margrét Bára Birgisdóttir, f. 29.11. 2006. Barn Heimis og Helgu er Hrefna, f. 2.10. 2018. Jóna Vestfjörð, f. 7.11. 1991. Jóna er gift Hólmari Erni Eyjólfssyni, börn þeirra eru Sylvía Vestfjörð, f. 15.12. 2015, og Eyjólfur Hannes, f. 20.3. 2020. Sólon Björn, f. 4.4. 2001, og Erla Sólveig, f. 13.3. 2003. 2) Sigurður Magnús, f. 5.7. 1965, eiginkona Arnfríður Hjaltadóttir, f. 14.4. 1966. Börn þeirra eru Sandra Dís, f. 4.10. 1987, eiginmaður hennar er Davíð Heimir Hjaltalín, f. 15.12. 1987, synir þeirra eru Heimir Elí, f. 26.9. 2015, og Sigurður, f. 7.9. 2020. Sólon Rúnar, f. 14.5. 1994, sambýliskona hans er Hekla Kristín Valsdóttir, f. 2.12. 1996. 3) Árni Valur, f. 10.10. 1966, eiginkona Svanlaug Ida Þráinsdóttir, f. 1.6. 1966. Börn þeirra eru Sólon Kristinn, f. 14.4. 1991, eiginkona Germaine Lopez, f. 23.10. 1990. Hilmar, f. 20.5. 2004, og Guðrún Ida, f. 23.3. 2006. 4) Óskírður sonur, f. í London í ágúst 1973, d. ágúst 1973.

Jóna Vestfjörð ólst upp á Bíldudal hjá foreldrum sínum, ein af 14 systkinum. Hún lauk barnaskólanámi þar og fór þá til Reykjavíkur í nám þar sem hún lauk gagnfræðanámi.

Jóna var heimavinnandi móðir eftir að börnin fæddust en lengst af starfaði hún í Útvegsbanka Íslands.

Útför Jónu fer fram í Víðistaðakirkju í dag, 27. maí 2022, klukkan 15.

Mamma, þetta fallegasta orð í heimi. Fólk á yfirleitt sínar bestu minningar og þær flestu um móður sína, hana hefur maður þekkt lengst og best af öllum. Við fráfall mömmu leita því ótal góðar minningar upp í hugann.

Mamma að keyra með okkur systkinin í aftursætinu á litla rauða sportbílnum þar sem varla var pláss fyrir okkur þrjú í aftursætinu. „Krakkar, finnst ykkur ekki gaman að keyra þessa hlykkjóttu rauðu malarvegi,“ sagði hún og gaf í og söng hástöfum: „Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri, Bjössi á mjólkurbílnum... svo tókum við undir „hann Bjössi kvennagull tralalalalalala“. Mér fannst hún svo skemmtileg og falleg með ljósa túberaða hárið og himinbláu augun.

Mamma var heimavinnandi með okkur systkinin, eins og flestar mæður þá. Hún fann alltaf eitthvað skemmtilegt að gera úr engu. Við bjuggum til lítil heimili úr pappakössum og klipptum út myndir úr „príslistum“ og límdum inn í kassana með hveitilími sem mamma bjó til. Mamma braut hitamæli og við horfðum dolfallin á mömmu láta það skilja sig í milljón einingar og renna síðan saman í eina á eldhúsborðinu. Kannski baneitrað efni en hvað vissi maður árið 1970. Endalausar skemmtilegar minningar.

Mamma og pabbi voru einstaklega samrýnd hjón. Þau gerðu flest saman, þau voru golffélagar, veiðifélagar og ferðafélagar. Þegar við systkinin vorum komin á unglingsár og þau höfðu meiri tíma fyrir sig fóru sumrin í golf og veiði. Þau reyndu að draga okkur með á golfvöllinn og hvetja okkur áfram þar. Einnig voru þau dugleg að bjóða okkur með í veiði og kveikja með okkur veiðidellu sem var sterk hjá þeim. Mamma með flugurnar sínar sem hún hnýtti sjálf. Hún dró mig með á kastnámskeið og golfnámskeið.

Það þurfti aldrei að biðja mömmu um hjálp, hún fann á sér ef einhverja hjálp vantaði og var mætt um leið. Hvort sem það var barnapössun, hjálp við flutninga eða annað. Mamma og pabbi voru dugleg að taka barnabörnin með í sumarbústaðinn og til útlanda í fermingarferðir. Þegar við Hannes fluttum á milli landa voru þau mætt fyrst til að hjálpa til. Mömmu óx það ekki í augum að fljúga á milli landa til að passa barnabörnin hvenær sem var, alltaf hafði fjölskyldan forgang. Þó mamma hafi verið dugleg í félagslífi og þau með stóran vinahóp þá var alltaf tími fyrir fjölskylduna.

Pabbi sagði alltaf „Jóna mín“ við mömmu þegar hann talaði við hana þannig að vinir þeirra kölluðu mömmu líka „Jóna mín“. Þetta verður erfitt fyrir hann en við lítum svo á að mamma hafi fengið hvíld eftir löng og erfið veikindi og baráttu við hræðilegan sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast „progressive supranuclear palsy“.

Ég vil þakka starfsfólki á deildinni Þórsmörk á Hjúkrunarheimilinu Ísafold fyrir umönnun mömmu síðustu mánuði. Þau hafa verið einstaklega hlý og natin og alltaf allar bónir sjálfsagðar. Einnig starfsfólki á deild 2A á Borgarspítalanum.

Nú þeysir mamma á rauðum hlykkjóttum malarvegi á leið að hitta sitt fólk. Góða ferð, elsku mamma.

Guðrún Margrét Sólonsdóttir.

Elsku móðir mín er nú látin eftir löng veikindi. Eftir standa fjölmargar minningar frá því að við spiluðum golf saman, annaðhvort í hitanum á Flórída eða með ullarvettlinga í slyddu og snjókomu á golfmóti Starfsmannafélags Útvegsbankans. Ein góð minning er frá því þegar hún var að kenna mér að kasta flugu í Miðfjarðará, því hún var svo þolinmóð og einstaklega góður kennari. Hún var mikil aflakló og oft veiddi hún flesta og stærstu fiskana.

Foreldrar okkar systkina leyfðu okkur alltaf að ráða hvað við vildum gera við líf okkar en mamma vissi alltaf hvenær rétt væri að taka í tauminn. Þegar ég var sautján ára tók ég mér leyfi frá menntaskólanum og fór að vinna á börum bæjarins. Þá spurði hún hvað ég væri að hugsa og hvort ég ætlaði ekki að gera eitthvað af viti í lífinu. Þá voru góð ráð dýr og í fljótfærni sagðist ég vera búinn að skrá mig í grunndeild rafvirkjunar og eyddi vetrinum í það nám. Það hefur að vísu reynst mér ágætlega að hafa smá skilning á rafmagni og geta skipt um kló þegar þess þarf með. En fljótlega eftir þetta byrjaði ég aftur að vinna í veitingageiranum og hefur hún, ásamt Sóloni föður mínum, stutt mig í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur alla tíð síðan.

Það er sárt að kveðja móður sína en það er mér huggun að hún hafi nú fengið hvíld frá veikindunum og sé nú á betri stað. Ég, Svanlaug Ida, Sólon Kristinn, Germaine, Hilmar og Guðrún Ida kveðjum elsku móður mína með söknuði og þakklæti í hjarta. Elsku mamma, þín verður sárt saknað.

Hvíl í friði.

Þinn sonur,

Árni Valur.

Man hvar ég sá hana fyrst. Minningin er ljúf og skýr. Önnum kafin í síðdegissól í garðinum við Heiðvang 2 þar sem hún sinnti vorverkum af natni og umhyggju. Björt yfirlitum, svipfögur og með fallegt bros. Aldrei hafði ég séð eins myndarlega konu. Nema ef vera skyldi fimmtán ára heimasætuna á bænum sem var tilefni heimsóknarinnar. Mér var vel tekið. Ekki grunaði mig að myndarlega konan innan um vorblómin í Norðurbænum væri tilvonandi tengdamóðir mín.

Það er bjart yfir minningu Jónu Vestfjörð Árnadóttur. Í hugann koma fram myndir af góðri og vandaðri manneskju með hlýja nærveru. Í framgöngu allri var Jóna einstaklega fáguð og prúð. Mér fannst ævinlega bjart yfir henni og hreint í kringum hana. Það stafaði af innræti hennar. Aldrei heyrði ég hana mæla styggðaryrði og ekki lagði hún illt til nokkurs manns. Var hún þó enginn skapleysingi og víst gat þykknað í henni. Fágun hennar, innri ögun og meðfædd kurteisi leyfðu þó enga lágkúru.

Fjölskyldan var ætíð í fyrirrúmi og Jóna miðpunktur og kjölfesta allra samskipta. Hún fylgdist vel með sínum nánustu og systkinum frá Bíldudal og afkomendum þeirra var hún hjartfólginn vinur. Þau fjölskyldutengsl voru náin og skiptu hana miklu. Minnst er árlegra þorrablóta fjölskyldunnar og frumlegra skemmtiatriða. Þetta var sannkölluð stórfjölskylda og Jóna enn og aftur miðdepill. Ekki skorti heldur á alúð og örlæti þegar einhver átti um sárt að binda.

Tengdamóðir mín var ein fjórtán barna sæmdarhjónanna Guðrúnar Snæbjörnsdóttur og Árna Kristjánssonar sem bjuggu á Bræðraminni í Bíldudal. Jóna naut þess að segja okkur sögur frá uppvaxtarárunum á Bíldudal. Við þekktum öll „Árnabeljuna“ og „Árnasafnið“ og sögur af barnabörnunum sem eltu langafa sinn í ljósbrúna samfestingnum með samlita derhúfu með von um að fá bita af nýverkuðum hákarli.

Tengdaforeldrar mínir nutu þess að ferðast og voru víðförul. Þau voru dugleg að heimsækja okkur Guðrúnu og barnabörnin á fjarlægar slóðir og létu langar og erfiðar flugferðir til framandi heimsálfa ekki slá sig út af laginu. Þau áttu góðar stundir í húsinu sínu í Flórída og sinntu gestum af örlæti. Þangað var gaman að koma. Tengdamóðir mín elskaði að spila golf og vakti athygli á sólbjörtum völlunum í Ameríku á golfbílnum sínum rækilega merktum íslenska fánanum. En best leið henni þó á Íslandi, innan um fjölskyldu og fjölmarga vini. Sumarbústaðurinn í Úthlíð var í miklu uppáhaldi. Þar dvöldu tengdaforeldrar mínir oft langdvölum og nutu kyrrðar og náttúru.

Síðustu þrjú árin voru erfið. Sjaldgæfur og illvígur sjúkdómurinn sótti á. Baráttan var erfið og miskunnarlaus. Jóna naut góðrar umönnunar einstaks starfsfólks á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ. Fyrir það ber að þakka.

Á kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir samfylgd og nána og trausta vináttu.

Blessuð sé minning Jónu Vestfjörð Árnadóttur.

Hannes Heimisson.

Elsku tengdamamma mín, Jóna Vestfjörð, lést 19. maí sl. eftir erfið veikindi og hennar verður svo sannarlega sárt saknað. Jóna var einstök, alltaf svo ljúf og góð og ég sá hana aldrei skipta skapi. Hún var einstaklega myndarleg húsmóðir og það var alltaf gaman að koma í matarboð til hennar og Sólons tengdapabba og enginn fór svangur heim eftir veislurnar hjá þeim.

Jóna og Sólon áttu fallegt heimili, sumarbústað og annað heimili á Flórída, þar sem þau eyddu nokkrum mánuðum á ári eftir að Sólon fór á eftirlaun. Þar nutu þau lífsins, þeim leið vel í sólinni og golfið átti hug þeirra allan. Við fjölskyldan skruppum nokkrum sinnum í heimsókn til þeirra til Flórída og þar var dekrað við okkur alla daga.

Jóna var yndislega góð eiginkona, móðir, tengdamóðir, amma og langamma og barnabörnin dýrkuðu hana. Hún kom oft færandi hendi eftir ferðir erlendis og gaf barnabörnunum ýmist leikföng eða ný og falleg föt.

Það er sárt að horfa á eftir fólki sem maður virðir og þykir vænt um en minningin um yndislega konu situr eftir og er ég afar þakklát fyrir að hafa átt Jónu sem tengdamóður. Ég, Árni, Sólon Kristinn, Germaine, Hilmar og Guðrún Ida kveðjum elsku Jónu með söknuði og þakklæti í hjarta.

Hvíl í friði elsku Jóna.

Svanlaug Ida.

Það hefur síðustu daga verið skrýtið til þess að hugsa að eiga ekki lengur ömmu. Jafnvel ósanngjarnt.

Ég reyndar átti svo miklu meira en bara ömmu. Amma Jóna var vinur, mamma, amma og á köflum siðgæðisvörður. „Hvað myndi ömmu Jónu finnast um þetta,“ spurði ég mig stundum áður en ég gerði eitthvað sem ég vissi að myndi framkalla eftirsjá síðar meir.

Margir þekktu ömmu Jónu, en enginn eins og ég. Hún amma hafði alveg sérstakt lag á mér, og reyndar öllum sínum barnabörnum. Hún hafði sérstakt hólf í sínu hjarta fyrir okkur öll. Þrjú börn. Níu barnabörn. Sex barnabarnabörn. Alltaf pláss. Alltaf tími.

Amma kenndi mér margt. Hún kenndi mér að allt fólk er gott, og kannski sérstaklega þeir sem maður síst myndi halda. Allt fólk er gott, en auðvitað ekkert verra ef þú varst í Sjálfstæðisflokknum eða að vestan. Hún kenndi mér að það skiptir í sjálfu sér engu máli hvað þú gerir, bara að þú gerir það vel. Hún kenndi mér að það er engin hola það djúp að ekki sé leið upp. Hún kenndi mér að það væri allt í lagi að gera hlutina bara eins og ég vildi gera þá. Sjálfstæði væri kostur, ekki hitt. Og hún kenndi mér að það væri engin leið að halda partí heima hjá henni án þess að hún kæmist að því.

Amma las mig eins og opna bók, enda gekk mér heilt yfir illa að halda leyndarmálum frá henni. Þegar vel gekk gat maður ekki beðið eftir að segja ömmu frá og þegar eitthvað fór úrskeiðis var hún oftar en ekki fyrsta símtalið.

Amma tók hlutina heldur aldrei of alvarlega. Einu sinni sótti ég hana úr hjartaþræðingu á hjartadeild Landspítalans. Á leiðinni heim sagði hún mér að við þyrftum að koma við á einum stað og spurði hvort ég væri ekki svangur. Urðum við þann daginn fyrst til þess að heimsækja hjartadeild og KFC á sama eftirmiðdegi.

Amma og afi voru samhent hjón. Meira að segja þegar amma hafði átt við hitastillinn á loftkælingunni og afi sat undir þremur flísteppum í sófanum í húsinu þeirra í Flórída, bölvandi og ragnandi yfir „íshússtjóranum á takkanum“, vissi maður að þau gætu ekki, og vildu ekki, hvort án annars vera. Samband þeirra var til fyrirmyndar og leiðarvísir fyrir okkur hin.

Síðustu misseri hefur amma Jóna setið í skugga veikinda. Veikinda sem gerðu henni ókleift að gera það sem hún elskaði að gera. Faðma fólkið sitt, sinna sumarbústaðnum sínum, raða vöfflum í barnabörnin. Allt var þetta henni ofviða á síðustu metrunum. Það vissi ég að henni þótti sárt og erfitt.

Þótt það sé ekki nokkur leið að setja það í orð hve sárt ömmu Jónu verður saknað er það huggun harmi gegn að amma Jóna situr ekki lengur ein í skugganum.

Þar til næst, amma mín.

Þinn

Heimir.

Elsku amma Jóna lést fimmtudaginn 19. maí, á fallegum degi. Þegar ég hugsa til ömmu Jónu er þakklæti efst í huga. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að hafa átt ömmu eins og hana, enda dekraði hún barnabörnin sín út í eitt alla tíð og var alltaf til staðar fyrir okkur. Undanfarna daga hef ég hugsað um allar þær frábæru minningar sem ég um hana, en þær eru ansi margar. Mér eru sérstaklega minnisstæð þau ófáu skipti sem ég fékk að gista hjá ömmu, en þá fékk maður að vaka fram eftir og laumast í nammiskápinn inni í stofu á Heiðvangi.

Á unglingsárunum bjó ég hjá henni og afa Sóloni á meðan mamma og pabbi dvöldu í Tókýó og þar áður þegar ég kaus að búa hjá ömmu og afa á Flórída frekar en að halda áfram með skiptinám á Spáni. Endurspeglar þetta svolítið fjörið sem var í kringum þau – en okkur barnabörnunum fannst alltaf svo gaman hjá þeim. Hvort sem það voru kósíkvöld með ömmu að horfa á Law & Order, fara á gólfnámskeið með henni í Villages, hún að hlýða mér yfir fyrir próf í Verzló og svo síðar í lagadeildinni eða hún að sækja mig seint á kvöldin á skemmtanir niður í bæ. Hún var alltaf til staðar og maður gat alltaf leitað til hennar. Amma Jóna var t.a.m. ein af þeim fyrstu sem vissu af komu Sylvíu Vestfjörð í þennan heim og ég mun aldrei gleyma gleðiviðbrögðunum hennar vegna þeirra frétta. Hún var svo ánægð að það fjölgaði í hópnum hennar. Amma var líka alltaf svo ánægð með hann Hólmar minn, eiginmann minn, og horfði stolt á hvern einasta fótboltaleik sem hann spilaði. Hún var okkar helsti stuðningsaðili og sýndi okkur ómældan áhuga, hvað sem við tókum okkur fyrir hendur. Hún kom t.d. í heimsókn til okkar til Noregs og var gaman að geta sýnt henni hvernig við bjuggum þar. Við stefndum svo alltaf á að hún kæmi í heimsókn til Búlgaríu en því miður var það erfitt þegar sjúkdómurinn fór að taka sinn toll af elsku ömmu.

Elsku amma var dásamleg manneskja og erum við, fólkið hennar, heppin að hafa haft hana sem fyrirmynd. Ég veit þó að amma er komin á betri stað í dag, með systkinum sínum og litla drengnum sínum sem kvaddi alltof snemma. Elsku amma mín, góða ferð og sjáumst síðar. Ég mun sakna þín á hverjum degi.

Þín

Jóna.

Elsku amma Jóna. Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf verið mikil ömmustelpa. Ég hringdi oft í þig eftir skóla þegar ég var barn og bað þig að ná í mig því að mig langaði að koma í heimsókn til þín og afa. Þú komst hiklaust frá Hafnarfirði upp í Grafarvog að ná í mig svo að ég gæti verið með þér í smástund eftir skólann.

Við höfum átt svo margar góðar stundir saman, hvort sem það var heima, í sumarbústöðum eða erlendis. Ég var svo heppin að fá að ferðast með þér og afa erlendis en eftirminnilegasta ferðin er þegar þið heimsóttuð mig til Ítalíu þegar ég var í námi þar. Þá keyrðum við út um allt í Toskana, skoðuðum fallega bæi, borðuðum góðan mat og drukkum góð vín. Ég fékk svo að sýna ykkur heimili mitt í Mílanó og borgina sjálfa þar sem þið dekruðuð aldeilis við mig. Við nutum þess svo að vera saman á Ítalíu. Eitt af því sem þú kunnir svo sannarlega að gera var að njóta.

Eftir að þið afi fluttuð til Flórída reyndi ég að koma sem oftast í heimsókn og í síðustu heimsókn minni þangað kom hann Heimir Elí okkar með einungis tveggja mánaða. Ég man svo vel hvað þú varst spennt að verða langamma. Þú fórst beint að hekla teppi fyrir hann Heimi Elí og varst búin að tilkynna öllum á Facebook að það væri von á barni áður en við vorum sjálf búin að því, spennan og gleðin var svo mikil. Ég varðveiti þá mynd vel þar sem þú heldur á honum Heimi Elí í fyrsta skiptið, gleðin og stoltið skín af þér þegar þú heldur á fyrsta langömmubarninu þínu.

Mér leið alltaf svo vel hjá ykkur afa. Það er varla hægt að tala um þig nema tala um afa í leiðinni því að þið voruð svo samrýnd hjón sem nutuð þess að vera saman og voruð óaðskiljanleg fram á síðasta dag. Ég hef alltaf litið upp til þín fyrir að vera svona góð, skemmtileg, traust og barngóð. Þú stóðst fast með þínu fólki og varst alltaf brosmild og glöð. Þú hefur líka alltaf verið dugleg að halda fjölskyldunni saman. Ég var svo heppin að alast upp við það að öll jól og áramót voru haldin með stórum fjölskylduhóp þar sem börnin þín og barnabörn sameinuðust öll hjá ykkur. Þetta hélt út þangað til ég var orðin fullorðin og er þetta mér mjög dýrmætt. Þú elskaðir að ferðast, veiða, spila golf og vera með fólkinu þínu. Nú ertu lögð af stað í lokaferðalagið, laus við sjúkdóminn, þar sem þér líður vel og ert brosandi með öllu fólkinu þínu sem tók á móti þér í lokaferðalagið.

Takk fyrir allt, elsku besta amma mín. Ég er stolt að geta kallað þig ömmu mína og þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Sjáumst seinna.

Sandra Dís

Sigurðardóttir.

Ljúfmennska, hlýja og nærgætni. Þessi þrjú orð finnst mér lýsa Jónu frænku vel. Einnig gjafmildi og skilyrðislaus kærleikur til þeirra sem henni þótti vænt um.

Ég var líklega fimm ára þegar mamma flutti í smá tíma til Jónu og Sólons í Álfaskeiðið með mig og bróður minn til að passa Guðrúnu, Sigga og Árna meðan þau hjón voru erlendis en pabbi var til sjós á þessum tíma. Þetta var skemmtilegur tími fyrir mig, að leika við þessi eldri frændsystkini sem áttu alls konar flott dót og spil og fullt af Tinna- og Lukku-Lákabókum. Það sem er einnig minnisstætt frá þessum tíma er að þegar þau hjónin komu heim úr ferðinni, þá komu þau með gjöf til mín. Ég fékk eitt flottasta tússpennasett sem ég hafði séð, 50 tússpenna í öllum regnbogans litum, og passaði ég upp á þá vel og lengi. Ég minnist líka þess þegar Jóna frænka bauð mér með á eftirminnilega og glæsilega ballettsýningu þegar ég bjó í París, Svanavatnið með Kirov-ballettflokknum.

Jóna frænka var fastur punktur í minni æsku. Þar sem svo stutt var á milli þeirra systra, mömmu og hennar, renndi hún mjög reglulega við í kaffi eða mamma til hennar og þá var ekki leiðinlegt að leggja við hlustir og heyra hvað þær skröfuðu systurnar. Þær ræddu saman um börn sín en jafnframt um heimsmálin og það sem var í gangi í þjóðfélaginu. Skiptust á uppskriftum að kræsingum og ekki síður skiptust þær á heilræðum til handa hvor annarri. Þótt ólíkar væru áttu þær gott skap saman; mamma hrein og bein, Jóna ljúf, þægileg og skapgóð, en þó ekki skaplaus. Hún hafði einnig einstaklega þægilega nærveru. Þær skiptust á matarboðum til að prófa nýjar uppskriftir, ferðuðust saman til útlanda og voru ekki bara systur heldur góðar vinkonur. Þær voru heppnar að eiga stóra fjölskyldu og ég hugsaði oft um hvað það hlyti að vera gaman að vera svona mörg systkinin. Jóna minnti mann oft á ömmu Guðrúnu enda var hún kannski sú sem líkust var ömmu af þeim systrum, bæði í útliti sem og háttum.

Þær systur höfðu einnig frumkvæði að því að koma á þorrablótum systkinanna og fjölskyldna. Þá buðu þær einnig eldri kynslóðinni, bæði í móður- og föðurætt. Allir höfðu mikla ánægju af þessum samkvæmum sem haldin voru árlega í mörg ár, fyrst í heimahúsum en síðar í sal og gladdi þetta eldri kynslóðina mikið.

Með tímanum og stækkandi fjölskyldu minnkaði sambandið en ég veit að í veikindum mömmu á síðasta ári var hún þakklát fyrir símtöl en Jóna, sem sjálf var lasin, hringdi nokkrum sinnum frá hjúkrunarheimilinu í mömmu sem þá var fárveik. Það mat hún mikils. Jóna sagði sjálf að þær myndu fara á annan stað með stuttu millibili systurnar og sú varð raunin, einungis rúmir fimm mánuðir frá andláti mömmu. Eflaust hafa þær tekið upp þráðinn frá því í gamla daga og skiptast nú á sögum af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Við Óli og fjölskyldur og pabbi sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra kæru Sólon, Guðrún, Siggi, Árni og fjölskyldur. Minningin um góða konu lifir.

Sigrún Hildur, Ólafur Þór og Kristján Ólafsson.

Kær vinkona hefur kvatt okkur í hinsta sinn. Saman vorum við búnar að vera í saumaklúbb í 50 ár, þótt síðustu árin hefðum við ekki hist eins oft og í gamla daga þegar við fórum með karlana okkar í sumarbústaðaferðir og fleira. Tvisvar fórum við vinkonurnar í utanlandsferðir sem við vorum búnar að safna fyrir.

Elsku Jóna okkar, þakka þér fyrir samfylgdina í öll þessi ár.

Elsku Sólon, við erum með hugann hjá þér og öllum ykkar afkomendum. Samúðarkveðjur.

Bróderaða rósin,

Sólveig (Lolla), Björg, Sveingerður, Guðrún (Gunna) og Elín (Ella).