Thorarinn Hjaltason
Thorarinn Hjaltason
Eftir Þórarin Hjaltason: "Miðað við ofangreindar forsendur um uppbyggingu borgarinnar til norðurs hlýtur Sundabraut á lágbrú yfir Kleppsvík að teljast fýsilegri kostur."

Í fyrra undirrituðu samgönguráðherra og borgarstjóri viljayfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. Þar kemur fram að stefnt sé að því að brautin verði tekin í notkun 2031 og á næstunni verði hafist handa við undirbúning að breytingu á aðalskipulagi borgarinnar sem feli í sér endanlegt leiðarval fyrir Sundabraut. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist 2026, þannig að nýkjörin borgarstjórn þarf að hafa snör handtök. Valið stendur á milli lágbrúar yfir Kleppsvík eða jarðganga. Báðir kostir eru taldir hagkvæmir, en jarðgangaleiðin er mun dýrari og léttir minna á umferð um Ártúnsbrekku.

Í svæðisskipulagi 2001-2024 fyrir höfuðborgarsvæðið var gert ráð fyrir því að byggt yrði á Geldinganesi á skipulagstímabilinu og eftir það á Álfsnesi. Í gildandi svæðisskipulagi var því miður horfið frá þeirri stefnu og ákveðið að þétta byggð innan tiltekinna byggðamarka. Eins og Bjarni Reynarsson skipulagsfræðingur bendir á í ágætri grein í Mbl. 23. maí sl. eru skipulagsfræðingar og arkitektar farnir að tala um ofurþéttingu byggðar.

Í umræðunni undanfarin misseri hefur ítrekað verið bent á að þéttingarstefnan hafi leitt til sívaxandi skorts á íbúðarhúsnæði og óheyrilega hás íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg hefur bestu möguleikana til að snúa við þessari óheillaþróun, bæði sem langstærsta sveitarfélagið og með Geldinganes, Álfsnes og Kjalarnes innan sinnar lögsögu og góða tengingu við Sundabraut. Á þeim svæðum má auðveldlega koma fyrir íbúðum fyrir 30 þúsund manns, svo framarlega sem góðar og greiðar samgöngur eru tryggðar.

Í nýlegri umferðarspá kemur fram að allt að 45 þúsund bílar á sólarhring muni nýta sér Sundabraut á kaflanum milli Sæbrautar og Gufuness árið 2034. Í forsendum þeirrar spár er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. Ef við gerum ráð fyrir þeim möguleika að byggja íbúðir á þessum svæðum fyrir allt að 30 þúsund manns er ljóst að Sundabraut þarf að vera sex akreinar á umræddum kafla til að geta annað þeirri bílaumferð sem fullbyggð svæðin myndu skapa.

Tiltölulega ódýrt er að breikka fjögurra akreina lágbrú upp í sex akreinar. Sama verður ekki sagt um fjögurra akreina jarðgöng. Í því tilviki þarf annaðhvort að gera ný göng eða hafa jarðgöngin sex akreinar frá upphafi. Miðað við ofangreindar forsendur um uppbyggingu borgarinnar til norðurs hlýtur Sundabraut á lágbrú yfir Kleppsvík að teljast fýsilegri kostur.

Höfundur er samgönguverkfræðingur. thjaltason@gmail.com

Höf.: Þórarin Hjaltason