Kópavogur Ásdís Kristjánsdóttir er nýr bæjarstjóri en Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta.
Kópavogur Ásdís Kristjánsdóttir er nýr bæjarstjóri en Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, er nýr bæjarstjóri Kópavogs.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, er nýr bæjarstjóri Kópavogs. Málefnasamningur hins nýja meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins, var kynntur og undirritaður í Gerðarsafni í Kópavogi í dag. „Við höfum sett fram okkar megináherslur, sem eru átta, og undir hverri og einni áherslu má lesa þau verkefni sem við ætlum að setja í forgang á kjörtímabilinu.“

Aukið samtal

Ásdís segir megináherslurnar vera framúrskarandi þjónustu auk samtals og samráðs við bæjarbúa. „Við leggjum ríka áherslu á að efla bæjarbrag í bænum.“

Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar í Kópavogi og nýr formaður bæjarráðs, segir að aukin áhersla verði á lögð málefni barna og tekur sérstaklega fram að flóðlýsingin á Kópavogsvelli verði bætt svo hún standist alþjóðlega staðla, sem hún gerir ekki í dag.

Fjárfesta í samgöngum

Aðspurð hvort nýr meirihluti boði nýjar áherslur í tengslum við borgarlínuna segir Ásdís að fyrsta skrefið verði að fá inn utanaðkomandi ráðgjafa. „Til að horfa heildstætt á verkefnið og kanna hvort við séum að fara raunhæfustu og ábyrgustu leiðina.“ Hún bætir þó við að báðir flokkarnir styðji bættar og greiðari almenningssamgöngur.

„Ég held að flestir bæjarbúar séu sammála því. Við þurfum að fjárfesta í almenningssamgöngum.Það blasir við, miðað við hvernig umferðin er í dag, að það þarf að gera eitthvað.“