Guðný Kristrún Davíðsdóttir fæddist 9. apríl 1989 á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi. Hún lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi 12. maí 2022.

Móðir hennar er Ingibjörg Birgisdóttir félagsliði, f. 9.4. 1966. Faðir hennar er Davíð Kristjánsson vélvirki, f. 20.5. 1964. Þau skildu. Systir Guðnýjar Kristrúnar er Margrét Birgitta lögfræðingur, f. 1.3. 1984, maki Þórmundur Sigurðsson blikksmiður, f. 4.5. 1973. Börn þeirra eru: Davíð Ingimar framhaldsskólanemi, f. 27.7. 2004, Birgir Þór, f. 18.12. 2006, og Unnur Hekla, f.10.5. 2012. Eiginkona Davíðs er Drífa Eysteinsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 20.1. 1955. Börn hennar eru Sandra Gunnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, f. 29.5. 1970, maki Ólafur Gestsson endurskoðandi, f. 6.4. 1969. Börn þeirra eru: Gunnar Karl verkefnastjóri, f. 5.11. 1993, Drífa Björt kennaranemi, f. 1.10. 1999, maki Magnús Hilmar Viktorsson íþróttakennaranemi, f. 13.12. 1998. Barn þeirra er Glódís Embla, f. 14.4. 2022. Benjamín Óli, f. 1.12. 2008. Sonur Ólafs er Eggert Óskar, f. 18.12. 1990. Guðlaugur Karl Skúlason húsasmiður, f. 12.2. 1986, maki Sunna Björg Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 5.5. 1987. Börn þeirra eru Sóldís Kara, f. 30.4. 2016, og Bergrún Sara, f. 10.3. 2019. Gerður Sif Skúladóttir hjúkrunarfræðingur, f. 30.7. 1987, maki Magnús Sigurðsson viðskiptafræðingur, f. 14.2. 1982. Börn þeirra eru: Sigurður Darri, f. 18.9. 2006, Katrín Drífa, f. 6.9. 2008, og Bríet Thea, f. 19.4. 2019.

Guðný Kristrún gekk í Barnaskólann á Eyrarbakka og fór þaðan í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún vann við sveitastörf í Skógsnesi, í Rauða húsinu á Eyrarbakka, BYKO og VISS á Selfossi.

Útförin verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 27. maí 2022, og hefst athöfnin klukkan 14.

Í illum veðrum

Skulum við ganga saman

Og halda áttum

(G. Dal)

Ég er að skutla henni Guðnýju Kristrúnu niður á Eyrarbakka. Fjögurra ára situr hún í aftursætinu og syngur hástöfum vinsælt dægurlag. Hún var kátt barn. Á bernskuárunum koma í ljós hjá henni mjög erfið veikindi. Vofði svo sjúkdómurinn yfir henni og kom í veg fyrir að hún gæti nýtt sér ýmis félagsleg tækifæri ásamt því að geta valið sér starf.

Sem barn var hún stundum í sveitinni hjá afa og ömmu í Skógsnesi og þá kynntist hún dýrunum sem alla tíð áttu svo hug hennar. Hana dreymdi þá um að geta gert það að ævistarfi sínu að hlynna að dýrum. Hún eignaðist svo sjálf gæludýr og vildi gjarnan gefa þeim óvenjuleg nöfn.

Guðný Kristrún gekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands og útskrifaðist þaðan 2009 með húfuna sína á kollinum og hélt sitt útskriftarteiti hjá Margréti Birgittu systur sinni.

Hún hélt með Liverpool og var það hennar helsta áhugamál að horfa á leiki, þekkti leikmenn með nöfnum og setti gjarnan einhverja Liverpool-kalla á fésbókarvegginn sinn. Fyrir þrem árum hlotnaðist henni svo að fara á leik á Anfield og var það auðvitað mikið ævintýri að sjá sín átrúnaðargoð á vellinum.

Guðný Kristrún fór seinni árin til vinnu á VISS á Selfossi eftir því sem heilsa hennar leyfði og kynntist ýmsum þar. Síðastliðið haust sótti ég hana og skutlaði henni í vinnuna vegna þess að hennar bíll var bilaður. Við ræddum heilmikið saman á leiðinni og hún lét vel af verkstjórum sínum á vinnustofunni.

Stjörnurnar okkar

Loga allar svona skært

Vegna myrkursins

(G. Dal)

Ég þakka frænku minni fyrir góð kynni og votta allri fjölskyldu hennar mína dýpstu samúð.

Þórdís

Kristjánsdóttir.