Svartsýnn David Malpass segir tölurnar slæmar á heimsvísu.
Svartsýnn David Malpass segir tölurnar slæmar á heimsvísu. — AFP/Samuel Corum
Alþjóðaefnahagsráðið, WTO, hélt árlega ráðstefnu sína í Davos fyrr í vikunni og einkenndist umræðan þar af áhyggjum af því hvaða stefnu alþjóðahagkerfið kann að taka á komandi misserum.

Alþjóðaefnahagsráðið, WTO, hélt árlega ráðstefnu sína í Davos fyrr í vikunni og einkenndist umræðan þar af áhyggjum af því hvaða stefnu alþjóðahagkerfið kann að taka á komandi misserum.

Þannig sagði David Malpass, stjórnandi Alþjóðabankans, að innrás Rússlands í Úkraínu hefði raskað orku- og matvælamörkuðum auk þess að torvelda áburðarframleiðslu og gætu þessir þættir hrundið af stað efnahagskreppu á heimsvísu. Benti Malpass á að hagkerfi Þýskalands, sem er það fjórða stærsta í heimi, glímdi nú þegar við veruleg vandamál vegna hækkandi orkuverðs og að skortur á áburði muni hafa slæm áhrif á hagkerfi fjölda þjóða.

„Ef við skoðum framleiðslutölur á heimsvísu þá er erfitt að sjá hvernig á að vera hægt að komast hjá kreppu,“ sagði hann og bætti við að á meðan hagkerfi Bandaríkjanna, Evrópu og Kína geti vænst hægari vaxtar en ella þá verði áhrifin alvarlegri fyrir fátækari ríki heims ef fóður- og matvælaskortur verður viðvarandi og eldsneytisverð hátt. „Tvöföldun orkuverðs ein og sér ætti að duga til að hrinda kreppu af stað.“

Greinir Reuters frá að Alþjóðabankinn hafi nýlega lækkað alþjóðlega hagvaxtarspá þessa árs um næstum heilt prósentustig, úr 4,1% niður í 3,2%

Jafnvægislist seðlabankanna

Í viðtali við BBC viðraði Bill Winters, stjórnandi breska bankans Standard Chartered, að seðlabönkum heimsins væri vandi á höndum nú þegar verðbólga er víða á uppleið. Hafa margir seðlabankar þegar hækkað stýrivexti í þeirri von að hægja á verðbólgunni og þannig forða því að kaupmáttur launþega rýrni um of, en hærri vöxtum fylgja ýmsir ókostir: „Og stóra spurningin er hvort að seðlabankarnir þurfa að hækka stýrivexti svo mikið að það stöðvi vöxt hagkerfisins. Eða tekst þeim að stýra hagkerfunum mjúklega inn til lendingar?“

Þá bendir BBC á að efnahagsvandi stóru hagkerfanna sé af ólíkum toga. Í Bandaríkjunum einkennist ástandið í hagkerfinu af vítahring hækkandi launa og verðlagshækkana og reynir seðlabankinn þar að láta hagkerfið hægja ferðina með hækkun stýrivaxta. Í Evrópu hefur hins vegar gangverk hagkerfisins laskast, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu, og eiga fyrirtæki í álfunni erfitt um vik með að bregðast við hækkandi orku- og matvælaverði með aukinni framleiðslu eins og þau myndu alla jafna gera. ai@mbl.is