Gafl, félag um þingeyskan byggingararf, hefur sent frá sér ályktun vegna þeirra framkvæmda sem nú standa yfir á sögufrægu húsi, Bjarnabúð, í miðbæ Húsavíkur. Félagið telur mikilvægt að varðveita útlit hússins og bendir á í ályktun sinni að það sé skýrt í lögum að varðveita skuli hús sem eru eldri en hundrað ára gömul.
Húsið sem um ræðir stendur að Garðarsbraut 12 og nefnist í daglegu tali Bjarnabúð. Húsið var byggt árið 1907 og var teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni byggingameistara. Rögnvaldur teiknaði sömuleiðis húsið sem stendur andspænis því, Bjarnahús og Húsavíkurkirkju sem reist var sama ár. „Saman mynda þessi þrjú hús eins konar hlið í miðjum bænum sem er mikilvægt fyrir aðalgötu bæjarins sem húsin standa við. Húsavíkurkaupstaður keypti húsið og færði það um nokkra metra til vesturs vegna vegagerðar,“ segir Snorri G. Sigurðsson formaður Gafls í samtali við Morgunblaðið. Snorri bendir á að miklar endurbætur hafi verið gerðar á húsinu frá aldamótum en að nú sé verið að skipta út timburgluggum og setja í stað þeirra glugga úr áli og plasti. Mikilvægt sé að sama verði ekki gert þegar viðgerðir hefjast á Bjarnahúsi og Húsavíkurkirkju.