Hrönn Guðmundsdóttir fæddist á Akureyri, 28. október 1934. Hún lést 17. maí 2022 á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi.

Foreldrar Hrannar voru Ragna Jónsdóttir, f. 1. október 1913 á Akureyri, d. 31. maí 1960, og Guðmundur Elífasson, f. 13. nóvember 1902 í Hlíðartúni, Miðdalahreppi, d. 8. mars 1940. Hálfbróðir Hrannar, samfeðra, var Magnús Jóhannes Guðmundsson, f. 30. maí 1933, d. 16. janúar 2022. Hrönn giftist hinn 28. október 1955 Marinó Marinóssyni, f. 13. apríl 1933. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Snorradóttir, f. 1. desember 1896, d. 2. september 1995, og Jón Marinó Sigtryggsson, f. 13. júní 1896, d. 23. ágúst 1933. Börn þeirra Hrannar og Marinós eru: 1) Ragna Kristín, f. 23. mars 1955, maki Bjarni Ómar Ragnarsson, f. 28. janúar 1954. Börn þeirra eru: Ragnar, f. 29. september 1975, Sævar, f. 5. desember 1979, d. 12. nóvember 1993, og Hrönn, f. 4. febrúar 1986, maki Sæþór Fannberg Sæþórsson, f. 2. apríl 1985. Börn þeirra eru Embla Ýr, f. 10. janúar 2017, og Bjarki Snær, f. 22. október 2019. 2) Aðalbjörg, f. 9. júlí 1958. Börn hennar eru: Jakob Gunnar, f. 4. nóvember 1987, og Ágúst Daníel, f. 17. apríl 1994, sambýliskona Izabela Trojanowska, f. 23. mars 1994. 3) Hulda, f. 9. júlí 1962. Börn hennar eru: Sigrún Sif, f. 21. september 1986, Marinó, f. 8. febrúar 1988, og Særún, f. 20. júní 1997, sambýlismaður Eiríkur Egill Gíslason, f. 31. mars 1997. 4) Marinó, f. 24. nóvember 1967, maki Karlína Ingvadóttir, f. 14. ágúst 1973. Börn þeirra eru: Ingvi Þór, f. 2. febrúar 1994, sambýliskona Louisa Christina á Kósini, f. 22. apríl 1989, Sævar Óli, f. 25. júlí 2004, og Eva María, f. 27. nóvember 2008.

Hrönn ólst upp hjá móðurforeldrum sínum á Akureyri, í húsi þeirra Sólheimum. Hún gekk í Barnaskóla Akureyrar og lauk síðan gagnfræðaprófi. Hrönn stundaði nám í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði.

Hún flutti suður um tvítugt og bjó lengst af á Seltjarnarnesi. Hrönn vann ýmis verslunarstörf, lengst af í Hagkaupum.

Útför hennar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 27. maí 2022, klukkan 13.

„Mikið þakka ég ykkur ástsamlega fyrir alla hjálpina, elskurnar mínar.“ Með þessum orðum kvaddi hún mamma okkur systur í hvert sinn sem við komum og vorum leystar út frá henni með þessum fallegu orðum hennar og þakklæti. Þegar pabbi dó fyrir fimm árum missti mamma mikið. Hann var búinn að vera augun hennar í langan tíma eftir að hún missti nánast alla sjón. Mamma var með alvarlegan augnbotnsblæðarasjúkdóm sem hún fékk skyndilega. Það var henni og okkur öllum mikið áfall. Líf hennar breyttist mikið og að sjálfsögðu var það pabbi sem var hennar stoð þegar hún þurfti að læra ýmislegt nýtt vegna ástandsins.

Það er varla hægt nefna mömmu án þess að nefna pabba. Þau voru ákaflega samrýnd hjón og ósjaldan sást til þeirra leiðast hönd í hönd. Eitt af þeirra aðaláhugamálum var fjölskyldan, að hafa hópinn sinn hjá sér. Þá ljómuðu þau bæði af gleði og stolti.

Ég á margt og mikið að þakka foreldrum mínum fyrir þeirra miklu aðstoð sem þau veittu okkur Bjarna í gegnum veikindi sona okkar.

Það var ótrúlegur dugnaður í henni mömmu að bjarga sér sjálf eftir að pabbi dó. Hún bjó ein í þeirra íbúð og var alveg ákveðin í vera þar þar til yfir lyki. Hún þurfti mikla aðstoð svo það mætti verða. Þar sem hún var svo ljúf og þakklát fyrir alla hjálp var hún í mjög góðum samskiptum við starfsfólk heimaþjónustunnar sem margar hverjar voru henni ákaflega góðar og hlýjar. Viðkvæðið hjá henni þegar þær komu var alltaf „sæl vinan“ en hún þekkti þær allar með nafni þegar hún heyrði röddina í þeim. Er þeim hér með þakkað fyrir alla hlýjuna og hjálpina.

Dugnaður mömmu barst víða, oftar en ekki heyrðum við systur frá starfsfólki Landspítalans og Landakots hve dugleg hún væri með þessa örlitlu sjón sem hún hafði.

Mamma var einkabarn, en móðir hennar var mikill sjúklingur alveg frá fæðingu hennar. Hún ólst því upp hjá móðurforeldrum sínum á Sólheimum, ættarsetri þeirra. Æska hennar var því oft erfið, að hafa ekki móður sína hjá sér nema mjög sjaldan og sá hana oftast á spítala. Hún varð mömmu mikill harmdauði þegar hún lést langt um aldur fram. Síðasta árið og sérstaklega síðustu dagarnir voru þér mjög erfiðir elsku mamma mín, en ég veit að þú varst meira en tilbúin að fara. Þinn æðsti draumur var að komast til pabba. Þú varst oft búin að segja við okkur að hann yrði að fara að koma og ná í þig.

Nú er kallið komið mamma mín og ég sé ykkur pabba fyrir mér taka sporið í laginu „I am in heaven cheek to cheek“ með Ellu og Louie.

Takk fyrir allt og allt mamma mín og góða ferð í Sumarlandið.

Þín dóttir,

Ragna.

Jæja elsku mamma mín, þá er komið að því að við kveðjumst í bili.

Það verður tómlegt án þín, mamma mín, fyrir okkur systur sem áttum hálfgerða félagsmiðstöð heima hjá þér. Þar hittumst við oft í hverri viku og oftar en ekki var drukkið smá hvítvín sér til gamans. Þér þótti ekkert notalegra en að hafa okkur og krakkana í kringum þig. Eða Kittý frænku sem var þér nánast eins og systir, þið töluðuð saman á hverjum degi fram á síðasta dag. Þú varst hrein og bein og sagðir hlutina eins og þeir voru, varst með beinskeyttan húmor. Þú elskaðir það þegar við tvær sátum aðeins fram eftir kveldi og spjölluðum eða horfðum á íslenska þætti eins og Kiljuna. Þér fannst notalegt að hafa fólk í kringum þig og elskaðir það þegar við vorum öll hjá Rögnu og Bjarna að borða saman eins og við gerðum svo oft.

Það sem þú varst dugleg að bjarga þér eftir að þú misstir sjónina mamma mín, það hefur ekki verið auðvelt að sætta sig við það. En sem betur fór hafðir þú pabba þér við hlið sem stóð þar eins og klettur. En eftir að þú misstir elsku pabba þurftir þú að læra að bjarga þér ein ásamt aðstoð okkar og annarra sem komu inn á heimilið. Lífið varð ekki samt og áður, en þú hélst áfram með sama dugnaðinum en ekki af sama eldmóði og áður, lífið var breytt, þú veiktist meira og lífsgæðin minnkuðu. Þú varst orðin þreytt og varst tilbúin að fara og gast ekki beðið eftir því að hitta pabba aftur og nú hefur þú fengið ósk þína uppfyllta, elsku mamma mín. Fyrir það er ég þakklát og að hafa fengið að njóta samveru okkar sem varð mun nánari og meiri en áður, ég kynntist þér á annan hátt og ber mikla virðingu og elsku fyrir þér mamma mín.

Hvíl í friði og ást.

Þín dóttir,

Hulda.

Elsku besta amma nafna mín. Nú ertu loksins komin yfir í draumalandið til afa – stund sem ég veit þú varst farin að bíða svo eftir. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa ákveðið að kíkja til þín síðasta daginn þinn. Við áttum svo yndislega kveðjustund saman sem ég mun alltaf varðveita. Þú vildir vita hvort ég væri ekki örugglega hamingjusöm og ég var svo ánægð að geta sagt þér að ég væri það svo sannarlega. Við töluðum líka um langömmugullin þín tvö sem veittu þér svo mikla ánægju þegar þau kíktu til þín og þá sérstaklega þegar litli snáðinn skreið upp í fangið þitt og gaf þér stórt knús og koss. Rétt áður en ég fór kom hjúkrunarfræðingurinn inn til okkar og þú varst ekki lengi að tilkynna henni að þarna væri nafna þín komin í heimsókn og það var svo notalegt að heyra stoltið í röddinni þinni elsku amma mín.

Amma og afi voru mikið fjölskyldufólk og höfum við fjölskyldan alltaf verið dugleg að hittast og eyða tíma saman. Við stórfjölskyldan fórum árlega í sumarhús Landsvirkjunar við Steingrímsstöðvarvirkjun alla mína barnæsku og var beðið með eftirvæntingu eftir þeirri ferð allt árið. Þaðan eigum við óteljandi minningar um spilamennsku, veiði, gott veður og skemmtilega samveru með ömmu og afa. Núna síðustu ár kíktum við oft til ömmu seinni partinn, fengum okkur hvítvínsglas saman og ég skvísaði ömmu aðeins upp – litaði augabrúnir og lagaði neglur. Elsku amma var alltaf svo þakklát og glöð þegar maður nostraði aðeins við hana og toppurinn var þegar langömmukrílin fylgdu með og gáfu langömmu smá knús. Þessar minningar er svo dýrmætt að eiga núna þegar þú ert búin að kveðja okkur.

Takk fyrir allt elsku amma mín.

Þín nafna,

Hrönn.