Lífshlaup fólks skiptist í nokkur tímabil. Þegar fólk er ungt reynir það að koma undir sig fótunum og kaupa sér litla íbúð. Svo stækkar það við sig og á einhverjum tímapunkti flytur fólk í sérbýlið sem það hefur alltaf dreymt um að búa í.

Lífshlaup fólks skiptist í nokkur tímabil. Þegar fólk er ungt reynir það að koma undir sig fótunum og kaupa sér litla íbúð. Svo stækkar það við sig og á einhverjum tímapunkti flytur fólk í sérbýlið sem það hefur alltaf dreymt um að búa í. Sérbýli með eigin garði og helst bílskúr. Fólk lærir að rækta garðinn sinn og ef fólk nær tengingu getur garðvinnan veitt fólki mikla lífsfyllingu.

Svo eldist fólk og hættir að hafa heilsu til að liggja á fjórum fótum í blómabeðum eða ýta sláttuvélum á undan sér. Þá fer fólk að íhuga að minnka við sig. Selja sérbýlið með garðinum og kaupa íbúð í blokk svo það losni við kvaðir sem fylgja garðvinnu og viðhaldi.

Fjórða iðnbyltingin hefur ekki bara fært okkur félagsmiða og parað saman fólk í gegnum Tinder. Fjórða iðnbyltingin hefur gert það að verkum að við getum keypt græjur sem auðvelda okkur lífið svo um munar. Ryksuguróbótar eru gott dæmi um slík tækniundur. Ef við eigum réttu græjurnar er líklegt að við getum búið lengur í því umhverfi sem okkur líður best í.

Eitt gott dæmi. Fyrir nokkrum árum síðan vantaði mig sláttuvél. Mér var ráðlagt að kaupa sláttuvél með svissneskum mótor því þannig græja myndi endast mér út lífið. Ég saup hveljur þegar ég áttaði mig á því hvað gripurinn kostaði. Kallaði fram falskt bros meðan ég kveikti í kortinu mínu við kassann. Til þess að milda sjokkið laug ég því að sjálfri mér að það væri sérlega valdeflandi að vera ekki orðin fertug og eiga sláttuvél með stórri vél og svissneskum mótor. Ég þeystist um grasflötina með þetta tryllitæki fyrir framan mig og leit á þetta sem sérlega líkamsræktaræfingu. Það hefði náttúrlega verið frábært ef fjórða iðnbyltingin hefði verið búin að segja heiminum að fólk yrði að eiga púlsmæli. Þá hefði ég getað mælt hitaeiningabruna á meðan ég dröslaðist um með stöðutáknið ógurlega.

Svo liðu árin. Lífið breyttist, heimurinn breyttist og eiginmaður kom til sögunnar.

Í fyrra fluttum við fjölskyldan og þá kom stöðutáknið ógurlega að góðum notum. Húsbóndinn á heimilinu hafði tekið við keflinu og leit á það sem sitt verkefni að slá. Allt gekk þetta ágætlega þannig séð. Eða þangað til mágur minn, eðlisfræðingurinn sem smíðar gervihnetti fyrir heimsbyggðina, kom í heimsókn. Hann sagði að þetta væri ekki nógu gott. Það væri slök nýting á tíma að þeytast um garðinn með sláttuvél fyrir framan sig. Hann sagði að við yrðum að eignast sláttuvélavélmenni. Á dögunum mætti hann með slíka græju heim til okkar og þeir bræður komu henni í gagnið.

Sláttuvélavélmennið er stillt þannig að það slær grasið á hverjum degi. Á þessum 14 tíma vöktum vélmennisins verður grasið enn þá fallegra og illgresi og blöðkur ná ekki að vaxa. Við hjónin fylgjumst dolfallin með því vinna í garðinum meðan við slökum á og segjum hvort öðru sögur.

Það eina sem truflar mig við þetta er að rándýra fjárfestingin og valdeflingartólið er nú ónotað inni í bílskúr og mun líklega smám saman grotna niður vegna hreyfingarleysis.