Eyjólfur Ó. Eyjólfsson yrkir á Boðnarmiði: Í kaupstöðum landsins er kosið. Upp á kaffi er boðið og gosið sem alþýðan þambar og áttavillt rambar beint inn í sætasta brosið. Jón Atli Játvarðarson yrkir: Ánamaðkar dansa dátt, dráttarvélar puða.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson yrkir á Boðnarmiði:

Í kaupstöðum landsins er kosið.

Upp á kaffi er boðið og gosið

sem alþýðan þambar

og áttavillt rambar

beint inn í sætasta brosið.

Jón Atli Játvarðarson yrkir:

Ánamaðkar dansa dátt,

dráttarvélar puða.

Við lúpínunnar blómið blátt

býflugurnar suða.

Friðrik Steingrímsson kveður:

Gjörvallt lífið gegnum sneitt

glaður mjög ég kjaga,

ekki virðist ellin neitt

ætla mig að plaga.

Enn yrkir Friðrik:

Davíð fer ei margs á mis

mikill viskubrunnur,

húsakynnum helvítis

hann er allvel kunnur.

Kristján H. Theodórsson bætir við:

Aldrei skyldi öðling dá,

sem ekkert veit úr neðra.

Hans er líkleg þekking þá,

þröng á slóðum feðra.

Ólafur Stefánsson skrifar: „Það getur jafnvel verið enn skemmtilegra að hitta fólk á ferðalögum, þegar það er uppveðrað, heldur en heima í gráma og ati hversdagsins.“

Ef þú spyrð mig, eg því svara,

ætli' það sé ei besta lagið,

í háloftum að hittast bara

hress og stresslaus annað slagið.

„Agnarlítil þróun íslenskrar tungu“ verður Hallmundi Guðmundssyni að yrkisefni:

Álfheiður átti þá von,

að endingu fæddi hún son.

En mjög hana mæddi,

í morgun er fæddi,

- að stúlkubarn aftur varð „on“.

Gunnar J. Straumland segir „biskup átelur klerk“ og yrkir:

Ef dirfist þú í dag að segja

drottnurunum sannleikann,

hollast væri þér að þegja,

þeim er alveg sama um hann.

Gunnar Hólm Hjálmarsson:

Hver einn stjórnar sjálfum sér,

sem má ekki gleyma.

Það sem framtíð færir þér

fortíðin mun geyma.

Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir:

Hörpu stilla strengi vil

stefin hylli bjóða.

Hugann fyllir andans yl

óðarsnillin góða.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is