Viðræður Einar Þorsteinsson hlýðir íbygginn á Dag B. Eggertsson.
Viðræður Einar Þorsteinsson hlýðir íbygginn á Dag B. Eggertsson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Viðræður fjögurra borgarstjórnarflokka hófust á miðvikudag í liðinni viku, en síðan hefur lítið frést frá viðræðum í Elliðaárdal annað en þar sé öll áhersla lögð á málefnin, en að menn geymi sér að ræða verkaskiptingu uns um annað semst, sem auðvitað er ekki gefið.

Baksvið Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Viðræður fjögurra borgarstjórnarflokka hófust á miðvikudag í liðinni viku, en síðan hefur lítið frést frá viðræðum í Elliðaárdal annað en þar sé öll áhersla lögð á málefnin, en að menn geymi sér að ræða verkaskiptingu uns um annað semst, sem auðvitað er ekki gefið.

Ekki er ómögulegt að það takist að ná samkomulagi um nýjan meirihluta fyrir fyrsta fund nýrrar borgarstjórnar 7. júní, en það kallar á mikinn einhug og Framsókn liggur víst ekkert á.

Sagt er að viðræðurnar hafi gengið betur en nokkur hafi þorað að vona, þótt tekið sé fram að menn hafi geymt sér erfiðu málin. Heimildarmenn í Framsókn segja að fulltrúar gamla meirihlutans hafi tekið kosningaúrslit til sín um sumt og séu fáanlegir til að skipuleggja nýtt byggingarland, sem virtist útilokað í kosningabaráttunni.

Borgarstjórastóllinn

Viðmælendur blaðsins eru ekki á eitt sáttir um skynsemi þess að skilja umræðu um borgarstjórastólinn eftir þar til annað er frágengið.

Allir þekkja hve veigamikið embættið er, hvort sem litið er til pólitísks vægis eða innan borgarkerfisins. Borgarstjóri er óskoraður leiðtogi meirihlutans og embættið mun valdameira á vettvangi borgarinnar en t.d. forsætisráðherra er í landsstjórninni. Stóllinn getur því aldrei orðið afgangsstærð í meirihlutaviðræðum í borginni.

Fyrir Einar Þorsteinsson ætti málið að vera einfalt. Hans helsta kosningamál voru breytingar í borginni, ekki síst á forystu hennar, og hann getur ekki kvartað undan viðbrögðum kjósenda, en Framsókn hlaut tæp 19% atkvæða, litlu minna en Samfylking með sín 20%. Þar ræddi ekki aðeins um almenna fylgisaukningu Framsóknar, líkt og í þinginu í fyrra eða mörgum sveitarfélögum nú. Einar sexfaldaði fylgi flokksins frá borgarstjórnarkosningunum 2018 og jók það um þriðjung frá kosningasigri flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum 2021. Að Framsóknarflokkurinn fái 19% atkvæða í Reykjavík er til marks um eitthvað meira en að dágóður hópur kjósenda hafi fórnað höndum og talið bara skást að kjósa Framsókn.

Einar getur því trauðla sest að samningum við gamla meirihlutann sem féll án þess að gera kröfu um sýnileg umskipti, sem sanni að hann sé ekki bara enn eitt varadekk Dags B. Eggertssonar.

Þar kemur ekkert í stað borgarstjórastólsins. Sama hvaða árangri Framsókn telur sig ná um málefnin, þá getur Einar ekki sagt kjósendum sínum að hann hafi náð markmiðum um breytingar sitji Dagur áfram sem kóngur í ráðhúsi sínu.

Úr horni Samfylkingar heyrast ýmsar hugmyndir um hvernig deila megi embættinu á kjörtímabilinu, en framsóknarmenn eru harðir á að Dagur verði að láta sér formennsku í borgarráði nægja, líkt og hann hafi gert sér að góðu í tíð Jóns Gnarrs.

Inn í blandast svo hugleiðingar um forystumál Samfylkingarinnar, sem að líkindum velur sér nýjan formann í haust, mögulegt hlutverk Dags og hugsanlega innreið hans í landsmálin ekki síðar en vorið 2025.

Málefnin geta vafist fyrir

Það var vafalaust rétt athugað hjá Degi B. Eggertssyni í upphafi viðræðna, að á málefnasviðinu eiga flokkarnir samleið um margt. Samt getur á ýmsu steytt.

Fyrir fram áttu menn von á því að húsnæðis-, skipulags- og samgöngumál kynnu að valda ágreiningi, en sem fyrr segir virðist gamli meirihlutinn reiðubúinn til þess að gefa eitthvað eftir í skipulagsmálum til að lina húsnæðiskreppuna.

Samgöngurnar gætu orðið flóknari, einkum varðandi Sundabraut, sem Framsókn telur klappaða og klára, þótt útfærsluna vanti. Hún getur þó skipt miklu um hversu mikið fé verður þá afgangs til annarra vegaframkvæmda í borginni og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur vafalaust skoðanir á því öllu.

Ekki þó síður kann flugvallarmálið að flækja viðræðurnar, en skömmu fyrir kosningar kom til opinberra orðahnippinga milli innviðaráðherra og borgarstjóra um flugvöllinn. Einar Þorsteinsson lagðist á sveif með ráðherranum og mótmælti því að farið væri í uppbyggingu við völlinn í trássi við samning milli ríkis og borgar frá 2019.

Á það kann að reyna strax á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar, því fyrir honum liggur tillaga um úthlutun lóðar undir 140 íbúða fjölbýlishús í Skerjafirði, sem Sigurður Ingi hefur lagst mjög á móti og telur raska flugöryggi.

Allt getur það skipt máli fyrir stöðu Framsóknar á landsvísu líkt og í Reykjavík og hvort flokknurinn fái loks borgarstjóra fyrir sunnan.