Niceair Teikning af flugvél Niceair sem lendir á Akureyrarflugvelli í dag.
Niceair Teikning af flugvél Niceair sem lendir á Akureyrarflugvelli í dag. — Teikning/Niceair
Airbus 319-vél Niceair kemur til Akureyrar á mánudag í aðdraganda jómfrúflugs félagsins til Kaupmannahafnar á fimmtudag. Vélin kemur frá Lissabon í Portúgal þar sem hún var í viðhaldi og hefur vélin verið máluð í einkennislitum félagsins.

Airbus 319-vél Niceair kemur til Akureyrar á mánudag í aðdraganda jómfrúflugs félagsins til Kaupmannahafnar á fimmtudag. Vélin kemur frá Lissabon í Portúgal þar sem hún var í viðhaldi og hefur vélin verið máluð í einkennislitum félagsins. Uppselt er í fyrsta flug félagsins og segist Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri Niceair ánægður með bókanir í fyrstu ferðir sem hafi farið umfram væntingar. „Við ætlum að fljúga tvisvar í viku til Lundúna, tvisvar í viku til Kaupmannahafnar og einu sinni í viku til Tenerife. Síðan bætist Manchester við í haust,“ segir Þorvaldur. Hann segir að líkt og viðbúið var sé útlit fyrir að íslenskir ferðamenn verði helstu viðskiptavinir félagsins í sumar, en að erlendum ferðamönnum fari að fjölga með haustinu.

„Það er mikill spenningur hjá okkur öllum. Flugfreyjurnar og -þjónarnir voru að klára sín námskeið í dag og eru að ná í vélina. Frá og með fimmtudeginum munum við síðan fljúga samkvæmt áætlun og förum fyrst til Lundúna á föstudaginn,“ segir Þorvaldur.