Ingibjörg Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavik 1. nóvember 1947. Hún lést 12. maí 2022.

Ingibjörg var elst barna hjónanna Guðjóns Einarssonar, f. 26. apríl 1924, d. 10. maí 2004, og Þórdísar Guðmundsdóttur, f. 6. mars 1923, d. 11. febrúar 2005. Systkini Ingibjargar eru Einar, f. 1949, Yngvi Grétar, f. 1951, d. 1993, og Þorbjörg, f. 1961.

Maki Ingibjargar var Guðjón Róbert Ágústsson en hann lést árið 2017. Ingibjörg og Róbert giftu sig 24. júní 1967. Börn þeirra eru Þórdís Linda Guðjónsdóttir, maki Björn Gunnarsson, og Einar Michael Guðjónsson, maki Halldóra Sigurðardóttir. Barnabörnin eru sex og langömmubörnin eru fjögur.

Ingibjörg var lærður lyfjatæknir og starfaði á yngri árum í Laugavegsapóteki og Sjúkrasamlagi Reykjavíkur sem deildarstjóri, en það varð síðar að Tryggingastofnun ríkisins. Þar starfaði hún mestalla sína starfsævi.

Útförin fer fram frá Kristskirkju Landakoti í dag, 30. maí 2022, kl. 13.

Ingibjörg systir mín féll frá hinn 12. maí 2022 eftir stutt veikindi. Hún var stóra systir mín, 14 árum eldri en ég, örverpið. Eftir að móðir okkar dó árið 2005 varð hún stoð mín og tengsl við fyrri kynslóð og ekki stóð á svörum ef mig vantaði upplýsingar um yngri ár mín eða forfeður. Hún var stálminnug og við grínuðumst stundum með það hvor væri eldri, því ég er frekar gleymin.

Systir mín var mjög gestrisin og ég var alltaf velkomin til hennar. Hún átti líka alltaf til með kaffinu því hún var snillingur í eldhúsinu. Ég á margar uppskriftirnar frá henni en hún var þekkt innan fjölskyldunnar fyrir brauðterturnar, eftirréttina og tala nú ekki um salötin, sérstaklega kartöflusalatið. Það eru ekki margir mánuðir síðan að ég fékk kennslu hjá henni í að búa til hassí en það var réttur sem mamma eldaði alltaf. Margar minningar eru frá Borgarfirði þar sem hún og Robbi byggðu sér sæluhús. Sá staður átti sérstakan stað í hjarta hennar líkt og í mínu hjarta. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur urðum við nánari og áttum fleiri samverustundir. Hún keyrði aldrei þrátt fyrir að vera með bílpróf og áttum við marga bíltúrana saman. Ótrúlegt en satt þá rataði hún betur um Reykjavík en ég. Það verður tómlegt að fara upp í kirkjugarð að setja niður blóm hjá mömmu og pabba án hennar.

Systir mín bjó yfir mikilli þrautseigju og styrk sem hún sýndi fram á síðasta dag. Ég er þakklát fyrir að hafa getað notið samvista með systur minni en sakna hennar mikið.

Blessuð sé minning þín og Guð fylgi þér elsku systir.

Þorbjörg.