Úkraína Selenskí Úkraínuforseti hélt í gær á vígstöðvarnar til að kynna sér stöðuna af eigin raun.
Úkraína Selenskí Úkraínuforseti hélt í gær á vígstöðvarnar til að kynna sér stöðuna af eigin raun. — AFP
Úkraínustjórn biðlaði ákaft til vestrænna ríkja í gær um að senda fleiri vopn til þess að verjast innrás Rússa.

Úkraínustjórn biðlaði ákaft til vestrænna ríkja í gær um að senda fleiri vopn til þess að verjast innrás Rússa. Rússneski herinn hefur hert sóknina í austurhluta landsins síðustu dægur og er við að ná borginni Severodonetsk á sitt vald, en það myndi veikja mjög varnarstöðu Úkraínuhers og mögulega knýja fram undanhald hans.

Severodonetsk er ein síðasta borgin í héraðinu Lúhansk sem enn er á valdi Úkraínuhers, en það og héraðið Donetsk mynda landsvæðið Donbass, sem Rússar gera tilkall til og vilja leggja undir sig. Að sögn borgarstjóra þar er borgin nú rafmagnslaus, en í símtölum við vestræna blaðamenn þvertók hann fyrir að Rússum hefði orðið ágengt við hernám borgarinnar.

Í sömu mund fór Volodimír Selenskí Úkraínuforseti til borgarinnar Karkív í norðausturhluta landsins, en það er í fyrsta sinn sem hann kemur þangað síðan úkraínski herinn stökkti hersveitum Rússa á flótta þaðan. Karkív er næststærsta borg landsins og meðal hinna fyrstu sem Rússar reyndu að leggja undir sig eftir innrásina í febrúar, en án árangurs. Þar er mikið af fólki af rússneskum uppruna, en það hefur flest snúist gegn rússneska innrásarhernum eða heldur sig til hlés.

Selenskí ráðfærði sig í gær við herforingja þar og ræddi við óbreytta hermenn, en hann sæmdi einnig hermenn heiðursviðurkenningu fyrir framgöngu sína við vörn borgarinnar og samnefnds héraðs.

„Ég er mjög stoltur af varnarmönnum okkar. Þeir hætta lífi sínu á hverjum degi til þess að verja frelsi Úkraínu,“ sagði Selenskí af því tilefni.

Um leið notaði hann tækifærið til þess að biðja vestræn ríki um meiri vopn til þess að halda aftur af sókn Rússa, einkum eldflaugaskotpalla sem eru mikilvirkari en þær fallbyssur sem Úkraína hefur fengið til varna fram að þessu. 13