Í Portúgal Jökull Jónsson annar frá hægri í góðum hópi.
Í Portúgal Jökull Jónsson annar frá hægri í góðum hópi. — Ljósmyndir/Ágústa Unnur Gunnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Vélmenni geta létt undir með of fáu starfsfólki á hjúkrunarstofnunum og sérstök tæki til að tína upp rusl eru heppileg á báta, sem sigla með farþega í útsýnisferðir við strendur landa, í viðleitni til þess að hreinsa hafið. Þessar hugmyndir sigruðu í keppni í evrópskum frumkvöðlabúðum ungmenna, þar sem Ingveldur Þóra Samúelsdóttir og Jökull Jónsson, nemendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, voru hvort í sínu sigurliðinu.

FB hefur tekið þátt í frumkvöðlabúðum, sem Erasmus+ styrkir, undanfarin ár og í lok apríl fór þátttakan í gang á ný eftir að starfsemin hafði legið niðri í tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins nema hvað sérstök keppni á netinu fór fram í fyrra. Fjögur framhaldsskólalið úr hópum frá Íslandi, Ítalíu, Portúgal, Finnlandi og Noregi eru valin, einn þátttakandi frá hverju landi í liði, vegna keppni í hverju landi fyrir sig. Að þessu sinni nefnist verkefnið European Voice of Tomorrow. Mismunandi hópar keppa í hverju landi og sigurliðin á hverjum stað mætast í úrslitakeppni í Turku í Finnlandi í febrúar 2023.

Fyrsta keppnin fór fram skammt frá Þrándheimi í Noregi í lok apríl, önnur í Lissabon í Portúgal 9.-13. maí, sú þriðja verður í Como á Ítalíu 2.-7. október og síðan verður FB gestgjafi 21.-25. nóvember.

Sjálfbærni

Ágústa Unnur Gunnarsdóttir kynningarstjóri er alþjóðafulltrúi FB. Hún heldur utan um verkefnin og fylgir liðunum í keppni ásamt öðrum kennara. Síðast unnu nemendur verkefni í sölumennsku en nú fjalla þau um sjálfbærni. „Í Portúgal tengdist verkefnið ferðaþjónustu,“ segir Ágústa. „Nemendurnir áttu að finna leiðir til þess að halda hafinu hreinu á sama tíma og tekið væri á móti ferðamönnum og siglt með þá meðfram ströndum Portúgals.“

Hugmynd Jökuls og félaga var valin sú besta. Hann segir að hópurinn hafi viljað opna augu ferðamanna fyrir mikilvægi þess að halda sjónum hreinum og það gagnaðist öllum. „Aðaláherslan var samt að kynnast nýju fólki og styrkja tengsl milli landanna,“ segir Jökull, sem kom inn í hópinn á síðustu stundu, þar sem annar forfallaðist. Hann er á húsasmíðabraut og hlakkar til þess að útvíkka sjóndeildarhringinn enn frekar. „Eftir að hafa hitt svona margt fólk og kynnst nýrri menningu langar mig til þess að kynnast heiminum betur og næst er það Finnland.“

Verkefnið í Noregi fólst í því að finna sjálfbæra lausn á manneklu í norska heilbrigðiskerfinu. „Við „fundum upp“ vélmenni, sem flokkar skjöl, sjúkraskrár og þvíumlíkt, og sparar þannig tíma hjá starfsfólki eins og til dæmis hjúkrunarfræðingum,“ segir Ingveldur Þóra. Hún segist hafa kynnst mjög mörgu fólki og eignast vini til lífstíðar. „Að vinna í hópi með fólki sem talar ekki sama tungumál er einstök lífsreynsla.“ Hún er á félagsvísindabraut og gerir ráð fyrir að útskrifast að ári. „Ég hlakka ótrúlega mikið til að fara í úrslitakeppnina og svo dreymir mig um að verða grunnskólakennari.“

Ágústa segir að þátttaka í þessum verkefnum sé mjög skemmtilegt tækifæri til þess að kynnast nemendum annarra þjóða, menningu þeirra og skólastarfinu. „Krakkarnir standa frammi fyrir raunverulegum verkefnum og eiga að finna lausnir sem henta hverju sinni.“