[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristmann Örn Magnússon fæddist 30. maí 1937 í Reykjavík.

Kristmann Örn Magnússon fæddist 30. maí 1937 í Reykjavík. Hann útskrfaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1956, og var sendur til Pfaff-verksmiðjanna í Þýskalandi tveimur árum fyrr eða um vorið 1954 til að hefja nám í viðgerðum á saumavélum og stundaði þær með skólanámi næstu tvö árin en varð síðan fastur starfsmaður Pfaff árið 1956.

Faðir hans, Magnús Þorgeirsson stofnandi Pfaff hf., lét Kristmann koma snemma að rekstri og stjórnun fyrirtækisins og árið 1961 lét Magnús hann taka við framkvæmdastjórn fyrirtækisins sem taldist til undantekninga á þeim tíma enda Magnús sjálfur ekki nema tæplega sextugur. Fram að þeim tíma höfðu öll fyrirtæki á landinu barist við innflutningshöft, innflutningsbönn, skammtanir og kvaðir um að versla við lönd sem uppfylltu mörg ekki gæðakröfur, en það voru m.a. austantjaldslönd sem keyptu af Íslendingum vörur gegn því að við keyptum af þeim vörur í staðinn. Á þeim tímum fengust aðeins takmörkuð leyfi til að flytja inn þær vörur sem Pfaff hf. var með umboð fyrir. En einmitt árið 1961 tók við stjórn landsins svokölluð Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks og eitt af aðalatriðum þeirrar stjórnar var að rýmka um innflutningshöft.

Það má segja að það sé hægt að skipta rekstri Pfaff í þrjú tímabil. Fyrstu árin 1929-1961 þegar Magnús stjórnaði því varð hann að berjast við ofangreind skilyrði, höft, höft og meiri höft. Síðan tók Kristmann við árið 1961 og þá var allt í einu hægt að flytja inn meira af vörum sem fyrirtækið hafði umboð fyrir. Þá tók einnig við mikill uppgangstími hjá fata- og prjónaiðnaðinum og var hlutur Pfaff í þeim uppgangi gífurlegur, enda var fyrirtækið með mörg helstu og bestu umboð á vélum og tækjum fyrir sauma- og prjónaiðnaðinn. En áfram var barist við verðlagshöft, gífurlega háa tolla og vörugjöld. Þriðja tímabilið varð svo eftir að Kristmann afhenti stjórnina á fyrirtækinu til barnanna á miðjum níunda áratugnum. Verðlagshöftin afnumin, öllum landsmönnum til hagsbóta, samkeppni fyrirtækja varð loksins virk, en áfram var barist við stjórnvöld um óeðlilega háa tolla og önnur innflutningsgjöld, sem loks voru afnumin að mestu leyti en þó ekki fyrr en árið 2015.

Kristmann tók snemma þátt í félagsstörfum sem tengjast verslun og þjónustu, og sat í stjórnum Kaupmannasamtakanna, Verslunarráðsins og var í mörg ár formaður Félags raftækjasala og barðist mikið fyrir breyttu samkeppnisumhverfi fyrir þá atvinnugrein.

Áhugamál á yngri árum voru frjálsar íþróttir en svo tók stangveiði og golf við og stunda hjónin golf enn af þó nokkrum krafti. Á undanförnum árum hefur Kristmann einnig haft mikla ánægju af að kynna sér og miðla sögu saumavélarinnar og á Pfaff nú myndarlegt safn af gömlum saumavélum og gífurlegt safn greina um þær og fyrirtæki sem framleiddu saumavélar. Þá bauð Kristmann einnig fram þekkingu sína til Árbæjar- og Þjóðminjasafnsins við skráningu saumavéla sem þau söfn eiga.

Fjölskylda

Eiginkona Kristmanns er Hjördís Magnúsdóttir f. 29.1. 1939, en þau gengu í hjónaband árið 1958 og hafa því verið gift í 64 ár. Foreldrar hennar voru Anna Þorbergsdóttir verkakona og Magnús Benjamínsson sjómaður en fósturforeldrar þau Margrét Magnúsdóttir húsfreyja og Þorsteinn B. Jónsson málari.

Börn Hjördísar og Kristmanns eru: Magnús Ingi, f. 9.3. 1958, þjónustustjóri Pfaff; Margrét Þóra, f. 24.2. 1962, framkvæmdastjóri Pfaff; og Birgir, f. 4.8. 1969, tölvunarfræðingur hjá Controlant og stjórnarformaður Pfaff hf.

Bróðir Kristmanns er Leifur Ragnar, f. 22.10. 1933, verkfræðingur og fv. framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Flugleiða hf.

Foreldrar Kristmanns voru Ingibjörg Jónsdóttir Kaldal húsfreyja, f. 19.11. 1903, d. 31.7. 1986, og Magnús Þorgeirsson kaupmaður, f. 23.1. 1902, d. 26.10. 1983.