Tiltekt Að mati Musks væri stutt kreppa ekki alslæm.
Tiltekt Að mati Musks væri stutt kreppa ekki alslæm. — AFP
Milljarðamæringurinn og raðfrumkvöðullinn Elon Musk vakti athygli í síðustu viku þegar hann sagði að efnahagskreppa gæti í reynd styrkt hagkerfið. Átti Musk í samtali við fylgjendur sína á Twitter og var m.a.

Milljarðamæringurinn og raðfrumkvöðullinn Elon Musk vakti athygli í síðustu viku þegar hann sagði að efnahagskreppa gæti í reynd styrkt hagkerfið. Átti Musk í samtali við fylgjendur sína á Twitter og var m.a. spurður hvort honum þætti líklegt að efnahagskreppa væri handan við hornið.

Svaraði Musk að hann teldi kreppu í vændum. „En það væri af hinu góða [því] peningum hefur rignt yfir vitleysinga í of langan tíma. Sum gjaldþrot þurfa að eiga sér stað,“ ritaði hann. „Sama gildir um viðbrögðin við kórónuveirufaraldrinum þar sem fólk fór ekki út úr húsi og byrjaði að halda að það væri algjör óþarfi að leggja hart að sér. Þetta fólk á erfiða lexíu í vændum.“

Bætti Musk við að byggt á reynslunni mætti búast við að kreppuástand gæti varað í um það bil 12 til 18 mánuði, og mátti skilja á ummælum hans að hagkerfið yrði sterkara að kreppunni lokinni enda búið að grisja í burtu óarðbær fyrirtæki. „Fyrirtæki sem eru rekin með viðvarandi neikvæðu sjóðstreymi (og eru þar með að eyða verðmætum frekar en að skapa þau) þurfa að deyja drottni sínum, svo þau hætti að draga til sín auðlindir.“

Ummælin hafa vakið misjöfn viðbrögð og þannig bendir blaðamaður Guardian á að rafbílaframleiðandinn Tesla, sem Musk stofnaði, hafi lengi átt erfitt uppdráttar og ekki ósennilegt að fyrirtækið – sem í dag er verðmætasti bílaframleiðandi heims – hefði ekki lifað af ef ekki hefði verið fyrir lán sem bandarísk stjórnvöld veittu félaginu á sínum tíma og rausnarlegar ívilnanir stjórnvalda víða um heim sem liðkuðu fyrir sölu rafbíla og sölu koltvísýringslosunarkvóta til annarra bílaframleiðenda. Bætir Guardian við að frá 2010 til 2018 hafi fjárfestar lagt um 20 milljarða dala í Tesla og félagið verið rekið með margra milljarða dala tapi allan þann tíma. Var 2021 fyrsta árið sem Tesla skilaði hagnaði. ai@mbl.is