Alþingi Viðreisn lagði fram þingsályktunartillögu um fjarvinnu.
Alþingi Viðreisn lagði fram þingsályktunartillögu um fjarvinnu. — Morgunblaðið/Eggert
Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að félags- og vinnumarkaðsráðherra verði falið að framkvæma úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað. Tillagan var lögð fram í síðasta mánuði.

Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að félags- og vinnumarkaðsráðherra verði falið að framkvæma úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað. Tillagan var lögð fram í síðasta mánuði.

Í tillögunni er lagt til að ráðherra láti vinna tillögur með það að markmiði að auka möguleika á fjarvinnu þar sem henni verður komið við og áhugi er fyrir hendi. Úttektinni verði lokið fyrir árslok 2022 og aðgerðir kynntar af ráðherra fyrir Alþingi á vorþingi.

Fram kemur í greinargerð með tillögu Viðreisnar að fjarvinna geti haft jákvæð áhrif á jafnvægi milli vinnu og einkalífs og sé til þess fallin að auka tækifæri fólks sem búsett er á landsbyggðinni. Þá geti fjarvinnustefna leitt til sveigjanlegra vinnuumhverfis, haft góð áhrif á samgöngur og umferðarþunga og um leið stutt við markmið stjórnvalda á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Mikil tækifæri felist í fjarvinnustefnu fyrir landsbyggðina, en aukin áhersla á fjarvinnu og störf án staðsetningar geti leitt til þess að hægt sé að stunda vinnu óháð búsetu.

Markmið tillögunnar er að ráðherra geri úttekt á þeim kostum og tækifærum sem felast í fjarvinnu og markvissri fjarvinnustefnu, að teknar verði saman upplýsingar um þá reynslu sem varð til í heimsfaraldri kórónuveirunnar þegar margir unnu heiman frá sér og að settar verði fram tillögur með það að leiðarljósi að auka hlut fjarvinnu á íslenskum vinnumarkaði þar sem því verður komið við.