Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Umboðsmaður Alþingis mun hljóta sérstaka fjárveitingu til að fylgjast með framkvæmd brottvísana á flóttafólki héðan frá landi.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Umboðsmaður Alþingis mun hljóta sérstaka fjárveitingu til að fylgjast með framkvæmd brottvísana á flóttafólki héðan frá landi.

„Þetta er fyrirkomulag sem er vel þekkt innan samstarfsríkja okkar í Schengen,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra en enginn hefur þjónað þessu hlutverki hingað til.

„Þarna er bara kominn óháður aðili á vettvangi þingsins,“ segir hann, en um er að ræða sjálfstætt erindi samhliða nýju útlendingafrumvarpi ráðherrans. Jón býst við að forsætisnefnd geti tekið ákvörðun um hvort erindið verði samþykkt, sem hann býst sterklega við.

Í kjölfarið verði veitt aukið fé til þess að embættið geti sinnt þessu hlutverki.

Engar breytingar verða því í raun á framkvæmd frá- og brottvísana, aðeins nýr og óháður eftirlitsaðili.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt, í þessum málaflokki sem er mjög viðkvæmur í það heila, að það sé hér óháður aðili til að kanna hvort allt sé í samræmi við lög og reglur um þessar aðgerðir.“

Ekki hefur enn verið tilgreind tímasetning og segir Jón aðspurður að tímasetningin núna skipti því ekki sköpum, en mikil umræða hefur skapast um flóttamannamál á síðustu dögum og vikum, þá sér í lagi brottvísanir. Greint var frá því í lok maí að vísa ætti um 300 einstaklingum úr landi vegna afléttingar ferðatakmarkana. Á föstudag sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra síðan að þeir væru tæplega 200 talsins. „Sum hafa fengið áframhaldandi meðferð sinna mála, önnur eru hreinlega farin,“ sagði Katrín. Það breytir því þó ekki að margir hverjir hafa gagnrýnt framkvæmd brottvísananna harðlega.

–Áttu von á að þetta muni slá á gagnrýni?

„Nei, því hef ég ekki neina trú á. Þetta er klárlega til að auka við gagnsæi og umgjörð um svona hluti.

En þetta hefur engin praktísk áhrif á ferlið sem slíkt.“