Áfangaheimilið Dyngjan er það eina sem eingöngu er ætlað konum.
Áfangaheimilið Dyngjan er það eina sem eingöngu er ætlað konum. — Morgunblaðið/Úr safni
Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir liljahrund@mbl.is Ekki mun þurfa að loka Dyngjunni áfangaheimili vegna slæmrar fjárhagsstöðu um næstu mánaðamót líkt og útlit var fyrir. Heimilið tók til starfa árið 1988 og hefur starfað óslitið síðan. Dyngjan er eina áfangaheimilið á landinu sem er einungis ætlað konum en þar mega börn kvennanna einnig dvelja.

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir

liljahrund@mbl.is

Ekki mun þurfa að loka Dyngjunni áfangaheimili vegna slæmrar fjárhagsstöðu um næstu mánaðamót líkt og útlit var fyrir. Heimilið tók til starfa árið 1988 og hefur starfað óslitið síðan. Dyngjan er eina áfangaheimilið á landinu sem er einungis ætlað konum en þar mega börn kvennanna einnig dvelja.

Dyngjan fékk upphaflega ekki velferðarstyrk frá félags- og vinnumarkaðsmálaráðuneytinu, en forsvarsmenn áfangaheimilisins funduðu í kjölfarið bæði með Guðmundi Inga Guðbrandssyni ráðherra og velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

„Það var hætta á því að við þyrftum að loka vegna fjárhagsörðugleika. Síðan þá erum við búin að funda bæði með velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Guðmundi Inga félags- og vinnumarkaðsráðherra. Eftir umhugsunarfrest ákvað hann að veita okkur styrk til að þurfa ekki að loka, sem eru frábærar fréttir,“ segir Anna Margrét Kornelíusdóttir, stjórnarformaður Dyngjunnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Fundurinn með velferðarsviði Reykjavíkurborgar var sömuleiðis mjög góður. Við ræddum þar hugmyndir bæði um að endurskipuleggja reksturinn aðeins, og að auka samstarfið á milli okkar og borgarinnar í tengslum við nýtt áfangaheimili sem á að opna í sumar,“ segir Anna Margrét, en til stendur að opna nýtt áfangaheimili á vegum borgarinnar til viðbótar Dyngjunni á næstu mánuðum.

Nýtt úrræði verði framhald

Anna Margrét segir að eftir viðræður borgarinnar og Dyngjunnar sé áætlað að nýja áfangaheimilið verði hugsað sem næsta stopp í kjölfar Dyngjunnar. Konum sem ljúki dvöl á Dyngjunni gefist þannig kostur á að útskrifast í nýju úrræði borgarinnar, sem samanstendur af 30 til 40 fermetra stúdíóíbúðum þar sem mæður geta dvalið með börn sín. Nú tekur við frekara samtal hlutaðeigandi aðila til að skýra forsendur samstarfs betur.

„Við áttum rosa gott samtal og ég held að þetta endi á að vera lán í óláni og að við getum nýtt tækifærið til að einfalda reksturinn og nútímavæða hann svolítið. Þannig að við munum ekki loka um mánaðamótin og höfum tilkynnt skjólstæðingum okkar það. Þetta er gríðarlegur léttir – þetta hefur verið tími mikillar óvissu fyrir okkur og sérstaklega skjólstæðingana okkar á Dyngjunni,“ segir Anna Margrét og bætir við að þær séu mjög ánægðar og finni fyrir miklum velvilja alls staðar í þjóðfélaginu. „Þetta hús á sér greinilega stóran stað í hjarta mjög margra og okkur þykir rosalega vænt um að finna fyrir þessum stuðningi.“

Samtalið gott stökkbretti

Um framtíð Dyngjunnar segir Anna Margrét: „Með því að styrkja tengslin við borgina og vera með sterkari markmiðasetningu fyrir konurnar sem koma inn – ef við skipuleggjum úrræðið á aðeins betri hátt held ég að það megi bæði nýta fjármuni betur og styrkja konurnar sem koma á Dyngjuna.“

Hún bætir við að þetta verði gott stökkbretti fyrir heimilið og áminning um að svona geti komið upp á og við getum lært af þessu. „Ég held að það séu allir bjartsýnir og tilbúnir að leysa vandann og við munum núna starfa með Reykjavíkurborg og öllum sem koma að Dyngjunni í að gera betur.“

Hún segir Dyngjuna mikilvæga samfélaginu öllu, sem sýni sig ekki síst í þeim stuðningi sem heimilið hefur fengið að undanförnu. „Rekstur Dyngjunnar skiptir máli. Alls hafa tæplega tvö þúsund konur dvalið þar í gegnum tíðina; sumar í nokkrar vikur, aðrar í 2-3 ár. Hver og ein kona snertir líf margra í kringum sig, mun fleiri en flestir gera sér grein fyrir. Starf Dyngjunnar hefur þegar haft mikil samfélagsleg áhrif til góðs og það er ekki síst bakhjörlum, ráðgjöfum og þeim sem styrkt hafa starfið í gegnum tíðina með ýmsum hætti að þakka.“