Markmiðið að við hættum að leggja öll eggin í sömu körfuna

Líkt og í veðráttunni er bjart yfir íslensku efnahagslífi um flest, jafnvel svo að varað er við ofhitnun. Á sama tíma er þó rétt að vera vakandi fyrir blikum utan úr heimi, sem við getum lítið gert í frekar en veðrinu annað en að búa okkur vel ef hann skyldi þykkna upp.

Það er eilífur vandi í okkar gjöfula en harðbýla landi, að við eigum mikið undir ytri aðstæðum sem við ráðum litlu um – hvort heldur eru tíðarfar, gæftir eða önnur náttúruumbrot; eða af manna völdum, allt frá markaðsaðstæðum í öðrum álfum, boðaföllum á fjármálamarkaði eða styrjöldum.

Jafnvel smávægileg atvik úti í hinum stóra heimi geta haft mikil áhrif á litla Íslandi, þar sem fámenn þjóð byggir afkomu sína á tiltölulega fáum þáttum, sem hver um sig getur verið brigðull.

Það hafa Íslendingar þekkt frá aldaöðli í landbúnaði og sjávarútvegi, þar sem lélegt sumar og harður vetur, rysjótt tíð eða aflabrestur gátu stefnt lífsviðurværi hennar í bráða hættu svo til hungursneyðar kæmi. Enn frekar þó náttúruhamfarir og drepsóttir, sem hér hjuggu öðru hverju svo djúp skörð að við landauðn lá.

Framfarir í tækni og vísindum samhliða uppbyggingu auðs og innviða, sem einnig hafa rofið einangrun landsins, veita landsmönnum bæði varnir og viðnám gegn slíku, þótt varlegt sé að treysta þeim um of í viðureign við ægikrafta náttúrunnar, hvort heldur um ræðir jarðskorpuna, loftslagið, sjávarstrauma eða lífríkið.

Í fyrri viku var haldin Nýsköpunarvika en þar kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir áherslur nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar fyrir stappfullum sal í Grósku. Þar minntist hún einmitt á þessa veikleika íslensks efnahagslífs, sem hefði fáar grunnstoðir, sem allar væru viðkvæmar fyrir ytri áföllum, líkt og hún nefndi ýmis dæmi um. Því þyrfti að fjölga stoðum atvinnulífsins og það yrði best gert með því að efla mikilvægustu auðlind Íslendinga, hugvitið.

„Ég rifja þetta upp núna því ég lít á það sem mitt mikilvægasta hlutverk sem ráðherra að gera allt sem í mínu valdi stendur til að við sem þjóð hættum að leggja öll eggin í sömu körfuna,“ sagði Áslaug Arna við þetta tækifæri og er óhætt að segja að orðum hennar hafi verið vel tekið af þeim fjölda frumkvöðla, sem þar voru í salnum og luku lofsorði á nálgun ráðherrans og hrósuðu raunar einnig Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fyrri ráðherra nýsköpunarmála.

Það er ástæða til þess að taka undir þau orð víðar en í Grósku og tileinka sér þau. Á undanförnum árum hefur nýsköpun á ótal sviðum aukið útflutningstekjur þjóðarinnar verulega, en jafnframt hefur alls kyns nýsköpun styrkt og byggt á fyrri stoðum í atvinnulífi. Það hefur gert atvinnulífið sterkara og ábatasamara, en það hefur einnig bætt þjóðlífið og nýtt mannauðinn betur, þjóðinni og einstaklingum hennar til heilla og gæfu.

Það var mjög mikilvægt þegar Íslensk erfðagreining byggðist upp, svo að vel menntaðir vísindamenn – íslenskir sem erlendir – fundu sér hlutverk hér á landi. Það var mikilvægt þegar Marel spratt upp úr íslenskum sjávarútvegi og markaði sér nýjan bás, þegar Össur varð til fyrir nauðsyn og bjó til lausnir sem mannkyni öllu hafa nýst, þegar CCP sýndi að hugmyndaflug og leikgleði tölvukynslóðarinnar var atvinnuvegur ekki síður en áhugamál. Velgengni þessara fyrirtækja varð kveikjan að ótal öðrum, sýndi fjárfestum að í íslensku hugviti væri eftir ýmsu að slægjast og umfram allt gáfu þeir okkar besta fólki sjálfstraust til þess að finna hugmyndaauðgi sinni farveg, láta draumana rætast og sýna hvers megnugt frumkvæði og framtak getur verið.

Aftur á móti minntist Áslaug Arna einnig á hitt, að þrátt fyrir að nýsköpun sé lofsungin og dragi björg í bú, þá hafa Íslendingar ekki tileinkað sér ávinning hennar sem skyldi, en það á einkum við í opinbera geiranum. Þar gætir oft tregðu gagnvart breytingum, hagnýting nýsköpunar þar snýr oftar að fyrra verklagi en að taka upp ný eða önnur verkefni, en þar gæti jafnframt ekki sömu hvata og í einkageiranum. Við þessu vill ráðherrann bregðast og nefnir sem dæmi að vegna öldrunar þjóðarinnar sé fyrirsjáanlegt að rekstrarkostnaður Landspítalans aukist að óbreyttu um 90% á næstu 18 árum, sem heita má óviðráðanlegt, en aðeins um 30% ef reksturinn yrði nútímavæddur með stafrænum lausnum og nýsköpun.

Þarna blasa því ekki aðeins við tækifæri, heldur er bæði nauðsynlegt og brýnt, að við nýtum hugvit og nýsköpun eins og kostur er, á sem flestum sviðum og þar má hið opinbera ekki vera undanskilið. Því það á við þar sem annars staðar, að meira vinnur vit en strit.