Guðný Jóna Pálsdóttir fæddist á Ísafirði 4. ágúst 1951 og bjó á Þvergötu 4 á Ísafirði sem barn.

Hún lést 18. maí 2022 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Foreldrar Guðnýjar voru þau Hólmfríður Enika Magnúsdóttir, f. 6. mars 1915, d. 19. janúar 1997, og Páll Benjamín Sigurðsson, f. 15. maí 1917, d. 15. febrúar 2013.

Þau eignuðust fjórar dætur: Karitas Maggý, f. 21. janúar 1941, Kristínu Björk, f. 30. maí 1943, Júlíönu Sigríði, f. 1. júlí 1947, og Guðnýju Jónu, f. 4. ágúst 1951.

Guðný giftist Sigurði Bessasyni 28. júlí 1973. Börn Guðnýjar og Sigurðar eru Snorri, f. 5. apríl 1972, og Páll Hólm, f. 26. maí 1977.

Snorri er giftur Kristbjörgu Jónsdóttur. Þeirra börn: Breki, Áróra og Gabríel Hrafn.

Páll er giftur Eddu Lúvísu Blöndal. Þeirra börn eru: Klara Líf og Nikulás Tómas.

Barn Páls með fyrri sambýliskonu, Margréti Gunnarsdóttur, er Jóna Guðný.

Guðný Jóna gekk í gagnfræðaskóla Ísafjarðar og stundaði nám í Tónlistarskóla Ísafjarðar í sex vetur. Hún fór í húsmæðraskólann á Laugum veturinn 1969 til 1970 og sótti tveggja ára kvöldnám í sjúkraliðanámi (við tjörnina) með fullri vinnu. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði 1982.

Fyrstu ár sín í Reykjavík vann Guðný í húsgagnaversluninni Víði. Þau Sigurður hófu sinn búskap á Nýlendugötu 24b. Þaðan lá leið þeirra á Hjarðarhagann, og á þeim árum hóf Guðný störf sem dagmóðir og vann við það í fimm ár samhliða námi. Með stuttu stoppi á Reynimel var flutt inn á Ásenda 9 árið 2003.

Guðný hóf störf á Landakoti, deild 2A, 1982 og vann þar til ársins 1996. Hún starfaði síðar hjá Þjónustuíbúðum aldraðra á Dalbraut 27 frá 1. apríl 1996 og vann þar til 2018 (þar af sem deildarstjóri frá 2005 til 2018) þegar hún hætti á vinnumarkaði.

Árið 1993 réðust Guðný og Sigurður í byggingu á sumarbústað í landi Þverár í Vindhælishreppi ásamt ættmennum Sigurðar.

Lífshlaup Guðnýjar var litað hennar miklu sköpun, hvort sem um ræðir handverk, skógrækt eða kærleiksríkar gleðistundir í faðmi fjölskyldu og vina.

Guðný verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 30. maí 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Guðný kom í fjölskyldu okkar fyrir rúmum 50 árum, hljóðlát og pen. Á núll-einni má segja hún hafi laumað sér utan um okkur öll. Jafn þægileg og glaðleg kona er vandfundin. Guðný var vinmörg og ræktaði vinasambönd. Á stundum minnti heimili hennar og Sigga á gistiheimili þegar ófært var til heimahaga hennar. Guðný var listræn og afar áræðin. Vílaði ekki fyrir sér að mála myndir. Gera mósaíkverk. Saumaskapur ekki vandamál. Málaði og bjó til fígúrur úr steinum. Með afburða græna fingur. En einmitt sá áhugi naut sín vel við fjölskyldubústað okkar fyrir norðan, Þverárbrekku. Við smíðar á húsinu var hún líka enginn eftirbátur. Hamar, sög, streð, Guðný var alltaf tilbúin. Á landi okkar, sem á þeim tíma var við lélegt vegasamband og er hátt yfir sjávarmáli, þar eru sumrin stutt og misgóð. Eftir gróðursetningu í nær 30 ár og 20.000 plöntum síðar er kominn allmikill skógur, að okkar mati. Skógur sem enginn nema Guðný hafði hugarflug til að gæti sprottið. „Sjáið þið bara hvernig snjórinn hefur farið með furuna, en hún er bara flottari svona.“ Guðný sá alltaf björtu hliðarnar. Uppátækjasöm. Rall við túnfótinn á bústaðnum, krappar beygjur og mikill hraði. „Látum þennan keyra út af,“ galaði hún og reif sig úr að ofan. Á góðum stundum átti Guðný til að hlæja svo óskaplega og þá heyrðist: „Hættið, hættið, eða ég pissa í mig!“ Ísfirsku barnagælurnar sem hún söng fyrir okkur, þær hljómuðu framandi í reykvísk eyru. Guðný átti til að taka vökunótt á sumrin í Þverárbrekku. Til að heyra náttúruna sofna og vakna á ný. Beið okkar hinna þá uppdekkað borð og morgunkaffið klárt þegar við fórum á fætur. Berlín. Í mörg ár höfum við ferðast fern hjón á aðventunni til Berlínar. Jólaþorp, leikhús, góður matur, mikill hlátur. Óvelkominn. Fyrir hálfu öðru ári hafði laumað sér gestur inn hjá Guðnýju. Gestur sem bókstaflega yfirtók hana. Þá var vitað hvert stefndi, samt högg við andlátið. Minnir okkur á að lífið er núna. Þessi óvelkomni gestur mætti við upphaf gullnu áranna. Sannarlega ótímabært. Þessarar konu er sárt saknað, en við höldum í vonina að „we'll meet again, don't know where ...“

Vésteinn (Steini) og Margrét (Maggý).

Ég sótti um vinnu á 2A á Landakoti eftir að hafa verið þar sjúkraliðanemi áður. Mætti til vinnu fyrsta vinnudaginn en þegar ég var að ganga upp stigann á milli hæða 1A og 2A tók ég eftir því að einhver var fyrir aftan mig. Mér verður litið til baka og sé þig, Guðný, koma upp á eftir mér. Ég kastaði á þig kveðju og kom með einhverja athugasemd um að þú værir að elta mig. Þú svaraðir að bragði, tókst undir bullið í mér og þar með hófst áratuga vinátta okkar og auðvitað Sigga líka.

Það er svo margs að minnast því margar voru samverustundirnar, margt var brasað og mikið hlegið. Ég var tíður gestur á heimili ykkar Sigga og strákarnir voru mér sem bræður. Eðlilega urðu samverustundirnar færri þegar ég flutti til Akureyrar og stofnaði fjölskyldu en vinátta okkar hélst óbreytt.

Þegar ég sit hér og minnist þín sé ég hvernig þú strýkur yfir naglaböndin á fingrunum á meðan við ræðum málin og þú setur upp þennan einstaka svip þar sem þú pírðir aðeins augun og svo þinn einstaki hlátur með stríðnisblæ. Þú varst svo mörgum kostum gædd, komst eins fram við alla, greiðvikin og hjálpsöm. Ég minnist þess þegar við Stína vorum að flytja á Nesveginn þá komuð þið Siggi og hjálpuðuð okkur eins og ekkert væri sjálfsagðara án þess að vera beðin um það. Man ennþá eftir því hvað ég varð undrandi og hrærð að fá þessa óvæntu aðstoð.

Listakona varstu fram í fingurgóma og hugmyndaflugið var eiginlega óþrjótandi. Þú miklaðir það ekki fyrir þér að bólstra heilu sófasettin en einnig bjóstu til alls konar furðuverur og ég á eina slíka en einnig varðveiti ég eins og gull hattinn sem þú hannaðir og gerðir fyrir mig fyrir eina þjóðhátíðina. Þú nýttir það sem þú fékkst í hendurnar og úr urðu ótrúlegustu hlutir. Það er ekki hægt að minnast þín og tala ekki um mat. Þú varst listakokkur og það var lærdómsríkt að fylgjast með þér þegar þú lékst listir þínar í eldhúsinu. Ég verð að nefna hrútaberjasultuna sem þú gerðir eftir berjatínsluferð haustið 1990 þegar við dvöldum í sumarbústaðnum í Skorradal. Ég vissi ekki að sulta gæti verið svona góð.

Eftir að ég skildi urðu samverustundir okkar aftur fleiri, ég kom oftar í Ásendann en einnig til ykkar Sigga í bústaðnum á Þverá, yndislegar stundir.

Svo hringdir þú og sagðir mér frá veikindum þínum, helvítis krabbinn. Við höfðum unnið með þennan fjanda allt of lengi og vissum hvað hann gæti haft í för með sér.

Nú kveð ég þig elsku Guðný með söknuði en ekki síður þakklæti fyrir okkar vináttu og allar dýrmætu stundirnar. Þakklát fyrir að hafa getið komið og haldið upp á 70 ára afmælið þitt með þér síðastliðið haust. Þakklát fyrir mjög svo dýrmætan tíma núna í febrúar þegar ég kom óboðin til þín í heimsókn, yndisleg stund.

Hjartans þakkir elsku Guðný, „I love you“.

Elsku Siggi, Snorri, Palli, Kristbjörg, Edda og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ykkar

Anna Breiðfjörð.