[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur. JPV útgáfa 2022. Kilja, 80 bls.

Þetta er önnur ljóðabók höfundar og hér er mikið undir, sköpun veraldar, hringrás lífsins, vangaveltur um örlög manns og heims svo fátt eitt sé talið. Ljóðin eru öll óbundin að formi til og bókinni er skipt í tvo meginkafla, „Ástin á tímum fellibyljanna“ (vísun í Márquez) og „Kennslu aflýst vegna byltingar“. Stök ljóð við upphaf og lok bókar ramma inn meginbálkinn og tengjast raunar. Ljóð kallast á, á milli kafla, t.d. „Á sporbaug“ (74) við „Ástin á tímum fellibyljanna“ (9-11) sem skiptist í nokkra hluta eins og raunar mörg önnur ljóðin í bókinni.

Nokkur orð eru eins og leiðarhnoða gegnum bókina, frumefnin fjögur, loft, eldur, jörð og vatn, ljós og myrkur, stjarna, móðir, hjarta. Dauðinn er víða á ferli, en ekki kannski oft nefndur. Hann er „hinn forni þröskuldur / milli heimanna“ í upphafsljóði bókar sem lýkur svo: „Enginn kennir þér að deyja / samt veistu að þú kannt það“; sorg virðist blasa við bak við nokkur ljóðin t.d. „Aðskilnaður sameinar“ (14-15), „Útfall“ (17). Vísað er í gamlar goðsagnir þegar ort er um sköpunina og örlög hennar („Óreiða“ (16-17); „Krossberi“ (19); Kristur kemur öllu úr jafnvægi (40) en frjálslega þó. Síðastnefnda ljóðið er svona: „lóðrétt/ lárétt merkir upprisa // hitafarslínan / er næstum lóðrétt // tími mannsins á jörðinni láréttur // út – dauði /eða / upp – risa.“ Þetta ljóð kallast sterklega á við „Krossbera“.

Alda Björk leikur sér oft með andstæður, t.d. í ljóðinu „Niður/upp“: „Það sem er þungt / sekkur (jörð, vatn). // Það sem er létt / lyftist (loft, eldur). // Líkaminn þungur / andinn léttur“ (48). Í „Kynslóðum“ er teflt fram andstæðum eða þverstæðum: „Þegar hitinn og kuldinn / leita í sundur / hreyfist loftið. // Kuldinn dregur okkur niður / í fortíðina / í ræturnar / til formæðranna. // Hitinn lyftir okkur upp / til framtíðar / að birtunni / nær komandi kynslóðum. // Þannig er aðskilnaðurinn“ (49). Aðskilnaður sem sameinar er víðar á dagskrá (dauðinn, ástin). Hverfulleik lífsins og hringrás þess er ágætlega lýst í „Sú sem vökvar blómin“: „Um leið og þú fæðist / verður gröfin þín til // og stúlkan / sem vakir yfir leiðinu // sú sem fæðist / þegar þú deyrð“ (15). Maðurinn er ólíkindatól. Sjónin lagar sig að myrkrinu, heitir eitt ljóðið. Þar kemst maðurinn ekki lengra en á botninn þar sem hann er eins og skarkoli í felulitum í sandinum: „Enginn sér þig. // Og enginn veit / hvað þú sérð“ (24). Spurning er síðan hvort menn neiti að viðurkenna vandamálin? Sjái þau, en taki fyrir augun? Auga gervitunglanna sér allt, þarf ekki að spá (9-10), augu manna eru hvikulli. Sólmyrkvi er fallega orðað ljóð: „Útlínur / brjótast í gegnum / skugga // hringlaga ljósrönd / utan um / myrkan stein // og lófi hans / hylur hjarta / hennar“ (27). Myrkrið er í senn upphaf, fáfræði, andstæða ljóssins. Staðalkerti: „Alheimurinn er stærð / sem maðurinn gæti fundið / – ef hann sæi í gegnum myrkrið // vegna þess að / heimurinn virðist fylgja / útreikningum“ (64).

Tíminn kemur víða við sögu, enda er hann nátengdur sköpun heims og lífi manna, jafnóskiljanlegur og hann er. Og víst fer jörðin eftir reglu sem við reiknum út – en ekki til hins ýtrasta.

Þetta er gegnhugsuð bók, ein heild, mótuð af vitsmunalegum blæ, stundum tregafullum og yfirleitt hljóðlátum; upphrópanir eru fáar. Mörg ljóðin eru torræð enda hlýtur það jafnan að vera svo. Formið er knappt, lítið tóm til útskýringa og ef lesandi deilir ekki annað hvort hughrifum, hliðstæðri þekkingu eða reynslu höfundar þá opnast ekki sá heimur sem skáldið hefur skapað, nema kannski í hálfa gátt. Lokaljóðið, sem bókin dregur nafn sitt af, er fallegt: „Börn fæðast ekki gráðug / þau geta einfaldlega ekki lifað án ástar. // --- Hjartað er vöðvi / sem stækkar / til að rúma ástina // og smækkar / þegar hún fer. // --- Án ástarinnar / væri maðurinn einn // og án dauðans / myndum við ekki þekkja okkur sjálf“ (77).

Bókin hennar Ástu Bjarkar er seintekin en það borgar sig að lesa hana vel, öðlast yfirsýn, sjá tengingar milli ljóða og tileinka sér efnið eftir því sem hver og einn túlkar ljóðin í samræmi við hughrif sín og reynslu.

Sölvi Sveinsson

Höf.: Sölvi Sveinsson