Fríðindi Við gosfæribandið. Allir fastráðnir starfsmenn Ölgerðarinnar fá hlutabréf að gjöf í tilefni af skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Ólíkt nýtingu kaupréttar er ekki hægt að fresta greiðslu skatta þar til bréfin eru seld.
Fríðindi Við gosfæribandið. Allir fastráðnir starfsmenn Ölgerðarinnar fá hlutabréf að gjöf í tilefni af skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Ólíkt nýtingu kaupréttar er ekki hægt að fresta greiðslu skatta þar til bréfin eru seld.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Það vakti athygli á dögunum þegar stjórnendur Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar tilkynntu að samhliða skráningu fyrirtækisins á markað myndu allir fastráðnir starfsmenn fá hlutabréf í félaginu að gjöf. Tekur upphæð gjafarinnar mið af starfsaldri og geta þeir sem hafa unnið hjá Ölgerðinni í fimm ár eða lengur vænst þess að fá hlutabréf að andvirði 500.000 kr.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það vakti athygli á dögunum þegar stjórnendur Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar tilkynntu að samhliða skráningu fyrirtækisins á markað myndu allir fastráðnir starfsmenn fá hlutabréf í félaginu að gjöf. Tekur upphæð gjafarinnar mið af starfsaldri og geta þeir sem hafa unnið hjá Ölgerðinni í fimm ár eða lengur vænst þess að fá hlutabréf að andvirði 500.000 kr.

Þá ákváðu stjórnendur Brims fyrr á þessu ári að gefa starfsmönnum öllum hluti í félaginu og áætlað að verðmæti gjafarinnar hafi numið um 580.000 kr. að meðaltali handa hverjum starfsmanni.

Víða erlendis er ekki óalgengt að starfsmenn fyrirtækja geti áunnið sér eignarhlut í vinnustaðnum og fyrirkomulagið oft þannig að hlutabréf eru gefin í skiptum fyrir að halda tryggð við vinnustaðinn. Þeir sem eru hlynntir fyrirkomulaginu hafa bent á að með áunnum réttindum megi m.a. draga úr starfsmannaveltu og gera hinn almenna starfsmann áhugasamari um velgengni félagsins. Þá kann í sumum löndum að vera rekstrarlega og skattalega hagkvæmt fyrir bæði vinnustað og launþega að gefa starfsmönnum hlutabréf í stað hærri launa.

Eins og viðbót við laun

Sturla Jónsson endurskoðandi hjá Grant Thornton segir íslenskar skattareglur líta á hlutabréfagjöf til starfsmanna sem skattskyld fríðindi og mega starfsmenn Ölgerðarinnar því vænta þess að hlutabréfagjöfin verði skattlögð eins og ef um væri að ræða viðbót við laun þeirra. „Meta þarf verðmæti gjafarinnar ef verðbréfin eru gefin áður en félagið er skráð á virkum markaði og má þar hafa til hliðsjónar leiðbeiningar um kaupréttarsamninga í tekjuskattslögum. Starfsmaðurinn sem þiggur gjöfina þarf að greiða allt að 46,25% tekjuskatt og vinnuveitandinn þarf að greiða tryggingagjald af upphæðinni en hins vegar eru hlunnindi af þessu tagi undanþegin greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð,“ útskýrir Sturla.

Þegar starfsmaður síðan selur bréfin þarf hann að greiða 22% fjármagnstekjuskatt ef þau hafa hækkað í verði en ekki er hægt að fá tekjuskattinn eða tryggingagjaldið endurgreitt ef verð hlutabréfanna lækkar.

Þegar Brim gaf sínum starfsmönnum hlutabréf fór félagið þá leið að veita þeim jafnframt kaupauka til að mæta tekjuskattsskuldinni vegna gjafarinnar. Hjá Ölgerðinni fengust þær upplýsingar að starfsmönnum hafi verið veittir þrír kostir: að borga tekjuskattinn í einu lagi; selja hluta af bréfunum til að fjármagna skattgreiðsluna; eða dreifa skattgreiðslunni á tólf mánuði og völdu flestir síðasta kostinn.

Aðrar reglur gilda um nýtingu kaupréttar

Lögin veita meiri sveigjanleika þegar starfsmaður nýtir kauprétt í félagi. Eru nokkur ár síðan lögunum var breytt í þá veru að fresta má greiðslu tekjuskattsins þangað til hlutabréfin eru seld. „Er það mun rökréttara enda voru eldri ákvæði laganna þannig að fólk sem nýtti kaupréttarsamninga neyddist til að taka lán eða ganga á eigin laun til að eiga fyrir skattgreiðslunni. Er eðlilegt að geta frestað tekjuskattinum, hvað þá þegar haft er í huga að oft fylgir kaupréttarsamningum sú kvöð að mega ekki selja hlutabréfin í eitt eða tvö ár.“

Ef hlutabréfin hækka í verði frá því að starfsmaðurinn nýtir réttinn og þangað til bréfin eru að endingu seld þá er skattgreiðslan tvískipt þegar kemur að sölu: Ef kaupréttur hljóðar t.d. á um að mega kaupa hlut á 100 kr. þegar markaðsvirðið er 120 kr. þá reiknast tekjuskattur af mismuninum. Ef bréfið er síðan selt á 150 kr. er markaðsvirðið á kaupdag, 120 kr., dregið frá og fjármagnstekjuskattur lagður á eftirstöðvarnar. Við sölu yrði því að greiða tekjuskatt af 20 kr. annars vegar og fjármagnstekjuskatt af 30 kr. hins vegar.

Sturla bendir á að þessu til viðbótar heimili lög um tekjuskatt, að vissum skilyrðum uppfylltum, að greiða einvörðungu fjármagnstekjuskatt af ábata vegna kaupréttarsamninga. „Skilyrðin eru m.a. þau að kaupréttur að hlutabréfum í viðkomandi félagi þarf að ná til allra starfsmanna, gera þarf kaupréttarsamning og láta a.m.k. 12 mánuði líða áður en hann er nýttur, ekki má selja hlutabréfin í tvö ár eftir að kaupréttur er nýtur, og má kaupverðið að hámarki nema 1,5 milljónum króna á ári.“

Samspil hvata og áhættu

Ekki er úr vegi að bera saman reglurnar sem gilda á Íslandi og í útlöndum um skattlagningu hlutabréfagjafa og kaupréttarsamninga, og reyna að meta hvort breytinga sé þörf. Bendir Sturla á að í Bandaríkjunum, og þá sérstaklega hjá sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum, sé algengt að stór hluti launa fólks sé í formi hlutabréfa og hefur það fyrirkomulag m.a. í för með sér að hagsmunir fjárfesta og stofnendahópsins haldast betur í hendur. Má finna mörg dæmi um að þeir sem gengu t.d. snemma til liðs við Microsoft, Google eða Facebook og fengu greitt í hlutabréfum urðu að milljóna- og milljarðamæringum þegar félögin voru síðar skráð á markað. Segir Sturla jafnframt að það sé ekki óalgengt hjá bandarískum fyrirtækjum að almennt starfsfólk fái greidd laun og að auki n.k. bónus í formi hlutabréfa, og eigi þannig hlutdeild í velgengni vinnustaðarins.

En Sturla minnir á að því geti fylgt ýmsar hættur að gera starfsfólk fyrirtækja að hluthöfum og var t.d. lögum á Íslandi breytt eftir bankahrunið til að koma í veg fyrir að einstakir starfsmenn fjármálafyrirtækja gætu átt mjög mikið undir því að hlutabréfaverð þeirra hækkaði sem mest og hraðast í verði.

Er það pólitísk spurning hvort og þá hvaða hvata ætti að skapa fyrir launþega til að eignast hlut í vinnustöðum sínum en dæmin að utan virðast benda til að þeim félögum reiði vel af sem greiða leiðina fyrir starfsfólk að gerast hluthafar. „Verður að muna að ef kaupréttir eða hlutabréfagjöf eru hluti af launakjörum fólks þá felur það í sér að fólk er að taka ákveðna áhættu með laun sín og ef til vill eðlilegt að veita einhverja skattaívilnun af þeim sökum.“

Enginn afsláttur
» Greiða þarf um helming af virði hlutabréfanna í skatt og ekki hægt að fresta greiðslunni.
» Aðrar reglur gilda um nýtingu kaupréttar og má þá fresta greiðslu skatta.
» Sérstök undanþága leyfir að greiða aðeins fjármagnstekjuskatt af ábata vegna kaupréttarsamninga, háð ákveðnum skilyrðum.
» Í Bandaríkjunum gefa mörg fyrirtæki starsfólki hlutabréf sem bónus eða sem umbun fyrir að halda tryggð við vinnustaðinn.