Þóra Einarsdóttir
Þóra Einarsdóttir
Þóra Einarsdóttir óperusöngkona vann á föstudaginn mál gegn Íslensku óperunni fyrir Landsrétti.

Þóra Einarsdóttir óperusöngkona vann á föstudaginn mál gegn Íslensku óperunni fyrir Landsrétti. Landsréttur staðfesti þá með dómi sínum að Íslenska óperan hefði brotið gegn kjarasamningi sem hún gerði við stéttarfélög FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna) og FÍL (Félag íslenskra leikara) árið 2000, m.a. með því að greiða söngvurum lægri greiðslu en lágmarksgreiðslur samningsins og með því að neita að greiða yfirvinnu eða launatengd gjöld. Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að um frjálsan verksamning væri að ræða og þar af leiðandi frjálst að semja undir lágmarksviðmiðum kjarasamningsins.

Þóra sagði í samtali við mbl.is í gær að dómur Héraðsdóms hefði sett alla samninga um verkefnaráðningar sviðslistafólks í uppnám og skapað mikla óvissu meðal söngvara um hver réttarstaða þeirra væri gagnvart Íslensku óperunni. Þar sem málið hafði mikið fordæmisgildi fékk Þóra leyfi til að áfrýja dómnum til Landsréttar og sneri Landsréttur dómnum við og staðfesti að Íslenska óperan hefði ekki farið að lögum við samningsgerð við söngvara fyrir uppsetningu verksins Brúðkaups Fígarós. Féllst Landsréttur á rök og kröfur Þóru Einarsdóttur að öllu leyti.

Mikið fordæmisgildi

Ljóst þykir að dómurinn muni hafa fordæmisgildi og að sögn Þóru er málið mikilvægt réttindamál fyrir söngvara. Að hennar mati sýnir niðurstaðan að söngvarar líkt og aðrar starfsstéttir eiga rétt á að njóta lágmarkskjara og -réttinda. „Þetta hefur mikið fordæmisgildi fyrir allar þessar verkefnaráðningar þegar stofnanir hafa samninga við stéttarfélög,“ sagði Þóra. „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig persónulega, ég er náttúrlega búin að vera að standa í þessu núna í þrjú ár.“ Sagði Þóra að það væri einnig mikill léttir eftir niðurstöðu héraðsdóms.

Sagði hún frábært að málinu væri lokið og það væri komin rétt niðurstaða í málið, en nánar er fjallað um það á mbl.is. tomasarnar@mbl.is