Styrkveiting Ráðherrar ásamt fulltrúum þeirra sem hlutu styrk úr Barnamenningarsjóði á sunnudaginn.
Styrkveiting Ráðherrar ásamt fulltrúum þeirra sem hlutu styrk úr Barnamenningarsjóði á sunnudaginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynntu á sunnudaginn um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynntu á sunnudaginn um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands. 34 verkefni fengu styrk og heildarfjárhæð styrkja var um 92 milljónir króna.

Dansverk fyrir og eftir börn

Anna Kolfinna Kuran danshöfundur var ein af þeim sem hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði, 1,7 milljónir króna til að setja upp dansverk undir nafninu Femínískt reif en reif eru dansleikir þar sem raftónlist er spiluð. Dansverkið er samið af Önnu Kolfinnu í samstarfi við hópinn Litlu systir sem er stýrt af Ásrúnu Magnúsdóttur danshöfundi og samanstendur af krökkum á aldrinum þrettán til átján ára. Aðspurð segir Anna Kolfinna það hafa mikla þýðingu að fá þennan styrk og að um sé að ræða mikla viðurkenningu og heiður fyrir hana.

Anna Kolfinna segir að markmiðið með verkinu sé að skapa femíníska útópíu þar sem fólk upplifir sig öruggt og frjálst óháð kyni eða bakgrunni. „Við leggjum upp með að búa til dansverk þar sem við bjóðum áhorfendum inn í reifheim krakkanna.Við vonumst til að hafa þau áhrif á áhorfendur að þeir bresti í dans með krökkunum,“ segir Anna Kolfinna.

Hún segir, að flest fólk tengi ekki endilega reif og djamm við öryggi og því sé áskorun að ímynda sér þannig heim þar sem allir upplifa öryggi, virðingu og frelsi. Spurð um hvaðan hún fékk innblástur fyrir verkinu segir Anna að þetta sé þróun af hennar fyrri verkum en hún hefur lengi stuðlað að því að skapa örugg rými og samstöðu í dansverkum.

Að sögn Önnu lagði hún upp með að vinna verkefnið með ungmennum frekar en fullorðnum frá byrjun þróunar hugmyndarinnar. Segir Anna að reif séu í góðum tengslum við ungdóminn og að þau einkennist af baráttuanda, sköpun og uppreisn.

Anna bendir á að krakkarnir í Litlu systur séu ekki aðeins flytjendur heldur einnig listrænir stjórnendur. Verkið sé því unnið á miklum jafnréttisgrundvelli í samtali við krakkanna. Bætir Anna Kolfinna við að þau séu að auglýsa eftir fleiri krökkum á aldrinum þrettán til átján ára til að taka þátt í verkefninu. Ítrekar hún að ef einhver hefur áhuga má senda póst á netfangið hennar, annakolfinna@gmail.com. Tekur Anna fram að dansreynsla sé ekki skilyrði. Verkið verður flutt á Reykjavík Dance Festival í nóvember.

Vilja efla sjálfstraust og sköpun

Eva Rún Þorgeirsdóttir rithöfundur og Blær Guðmundsdóttir teiknari hlutu einnig styrk úr sjóðnum en þær fengu 1,3 milljónir króna til að bjóða krökkum á aldrinum níu til tólf ára upp á sögusmiðju í Borgarbókasafni.

Svakalega sögusmiðjan verður vikulegt rit- og teiknifélag. Mun smiðjan vera vettvangur fyrir börn til að fá leiðsögn í ritlist og myndlýsingu. Segir Eva að markmiðið með verkefninu sé að krakkar kynnist bókasafninu og líti á það sem stað innblásturs. Vilja þær þannig hvetja krakkana til skapandi hugsunar og vekja áhuga þeirra á lestri og bókmenntum. Segir Eva að þær vilji efla sjálfstraust barnanna í gegnum sköpun á forsendum barnanna.

Að sögn Evu er smiðjan fyrir alla krakka. „Til okkar Blævar koma krakkar sem hafa verið að skrifa sögur og teikna og vilja læra meira en líka krakkar sem langar til að skapa en vita kannski ekki alveg hvernig,“ segir Eva og bætir við að svona smiðjur hafi gífurlega góð áhrif á sjálfstraust barna.

„Með því að skapa sínar eigin leiðir kemur sjálfstraustið. Við höfum fengið til okkar krakka sem eru kannski smá feimnir en í lok smiðjunnar eru þau að lesa upp sögurnar sínar eða sýna teikningarnar sínar,“ segir Eva. Að hennar mati er það mjög gefandi að sjá börn öðlast sjálfstraust.

Verkefnið fer af stað í september og verður í Borgarbókasafninu í miðbænum og í Grafarvoginum. Verður hægt að skrá börn í smiðjurnar fljótlega í gegnum heimasíðu Borgarbókasafnið en smiðjurnar verða ókeypis fyrir börnin.

Þykjó sendir tónlist upp í geim

Stærstu styrkina fengu Listasafn Árnesinga og Sviðslistamiðstöð Íslands, sex milljónir króna hvor stofnun. Listasafn Árnesinga keyrir út færanlegar listasmiðjur til skóla í Árnessýslu með listamönnum sem búa flestir á Suðurlandi.

Sviðslistamiðstöð Íslands mun, í samstarfi við List fyrir alla og Þjóðleikhúsið, gefa út kvikmyndaða þætti undir nafninu Sviðslistir fyrir alla. Markmiðið er að opna augu barna fyrir fjölbreytileika sviðslista.

Þriðja stærsta styrkinn, 5,8 milljónir, fékk þverfaglega hönnunarteymið Þykjó. Verkefni Þykjó heitir Sendum tónlist út í geim og er verkefnið unnið í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Hörpu tónlistarhús. Verkefnið er innblásið af gullplötunni, Sounds of earth, sem var skotið út í geim með geimfarinu Voyager árið 1977. Er verkefnið kynnt sem þverfaglegt þátttökuverkefni fyrir börn. Hópur vísindamanna, hönnuða og tónlistarfólks býður þar með börnum um allt land í ferðalag um óravíddir tónlistarinnar.