Hæstiréttur sýknaði í gær Reykjavíkurborg af kröfu Sérverks ehf. um að fá endurgreiddar rúmlega 120 milljónir króna sem fyrirtækið greiddi í innviðagjald árið 2018 vegna uppbyggingar í Vogabyggð í Reykjavík.

Hæstiréttur sýknaði í gær Reykjavíkurborg af kröfu Sérverks ehf. um að fá endurgreiddar rúmlega 120 milljónir króna sem fyrirtækið greiddi í innviðagjald árið 2018 vegna uppbyggingar í Vogabyggð í Reykjavík.

Sérverk, sem á lóð við Kuggavog, taldi álagningu innviðagjaldsins ólögmæta og að tekjuöflun sveitarfélaga yrði að byggjast á heimildum í lögum.

Í dómi Hæstaréttar segir að um sé að ræða samning af einkaréttarlegum toga þar sem lóðarhafar skuldbundu sig til að greiða tiltekið endurgjald fyrir þá hagsmuni sem samkomulagið færði þeim. Ekkert væri komið fram í málinu sem benti til annars en að lóðarleiguhafar hefðu gengið til samkomulagsins á viðskiptalegum grundvelli og án þvingunar. Þá taldi Hæstiréttur að með 78. gr. stjórnarskrárinnar hefðu sveitarfélög sjálfstætt vald, innan ramma laga, til að taka ákvarðanir um nýtingu og ráðstöfun tekna og yrði að ljá þeim svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma.