Kristmann Þór Einarsson fæddist í Vestmannaeyjum 5. janúar 1945. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 22. maí 2022.

Foreldrar hans voru Einar Ingvarsson, f. 22. ágúst 1922, d. 13. apríl 1999, og Fjóla Ágústsdóttir, f. 22. janúar 1927. Eftirlifandi systkini eru Gíslína Henný Einarsdóttir, f. 15. nóvember 1946, Rúnar Sigurkarlsson, f. 13. júlí 1952, og Sigríður Alda Sigurkarlsdóttir, f. 27. október 1954.

Börn Kristmanns eru: Halldór, f. 1974; Fanney, f. 1976; Elísa, f. 1973; og Guðný, f. 1965. Hann átti 10 barnabörn og einn stjúpson, Steinþór Kristjánsson.

Kristmann ólst upp hjá afa sínum og ömmu sem bjuggu lengst af í kringum Skólavörðuholtið í Reykjavík. Hann var húsasmíðameistari að mennt og starfrækti skerpingaverkstæði í um fjóra áratugi. Þá var hann frímúrari í 50 ár.

Útför er í kyrrþey.

Það eru margar fallegar minningar sem koma upp við fráfall föður okkar. Pabbi var húmoristi, einstakt góðmenni og mikill dugnaðarforkur. Hann gat verið sérvitur, hafði skoðanir á nánast öllu og var vanafastur. Það kom bersýnilega í ljós í vali hans á veitingastöðum. Hann var sannfærður um að bestu veitingastaðir landsins væru Kentucky Fried Chicken og Sprengisandur. Reyndar taldi hann að talsverður gæðamunur væri á milli Kentucky-staðanna og kom ekki annað til greina en að fara í Kópavoginn. Þá var hann dyggur aðdáandi Elvis Presley og pílagrímsferð hans til Graceland var einn af hápunktum lífsins.

Pabbi var lánsamur að hafa alist upp hjá afa sínum og ömmu og fékk í arf frá þeim einstaka góðmennsku og dugnað. Hann hafði alla tíð lítið samband við foreldra sína, er kusu að fela ömmu hans og afa uppeldi unga mannsins.

Hann fæddist í Vestmannaeyjum árið 1945 og hafði gaman af að segja sögur af sínum yngri árum þegar hann sinnti sjálfboðastörfum fyrir Viðlagasjóð í kringum gosið í eynni á árinu 1973. Þar starfaði hann við hlið bandarískra hermanna sem komu dælum fyrir í höfninni á elleftu stundu. Þannig náðist að tryggja lífsnauðsynlega opnun hafnarinnar. Hann sinnti einnig ýmsum störfum fyrir Ístak í uppbyggingu á eynni fögru eftir gos.

Fyrstu tvo áratugina ólst pabbi upp í kringum Skólavörðuholtið, gekk í Austurbæjarskóla, síðar í Iðnskólann og eignaðist þar trausta vini. Hann hafði brennandi áhuga á ljósmyndun og eignaðist ungur myndavél, sem var ekki algengt á þessum árum. Þúsundir ljósmynda voru hans dýrmætasta eign og færðu vinum og börnum fallegar minningar í gegnum árin. Hann lærði húsgagnasmíði og síðar húsasmíði. Starfaði við byggingu Tollstöðvarinnar, Kaupgarðs og fleiri stórhýsa, ásamt því að starfa við stækkun Mjólkárvirkjunar. Þessir tímar voru pabba minnisstæðir og var hann eftirsóttur í ýmsa verkstjórn, enda einstaklega handlaginn og útsjónarsamur. Hann var frímúrari í 50 ár og alltaf stoltur þegar hann klæddist kjólfötunum sínum.

Margir muna eftir pabba á skerpingarverkstæði sínu í Skeifunni og síðar á Smiðjuveginum með London Docks-vindil, leikandi við hvern sinn fingur. Það hentaði pabba vel að starfa sjálfstætt og rak hann verkstæði í um fjóra áratugi. Við systkinin fengum í arf vinnusemi hans, nákvæmni, útsjónarsemi og líklega eitthvað af þrjóskunni. Við munum gera okkar besta til að kenna börnum okkar góðmennsku pabba og kynna þeim konung rokksins.

Pabbi var svolítið lúinn undir það síðasta og tilbúinn fyrir sumarlandið, þar sem afi og amma taka honum fagnandi. Hann var sáttur við lífið og þakklátur þeim sem stóðu honum næst. Pabbi kvartaði aldrei og var einstaklega harður af sér, jafnvel einum of. Það var ómetanlegt fyrir okkur systkinin að fá að kveðja hann að morgni 22. maí, eftir óvæntan heilsubrest. Við erum einstaklega þakklát fyrir að hafa átt hann sem pabba. Pabbi, við munum passa upp á myndirnar þínar. Jafnvel renna stöku sinnum við í væng eða tvo á Kentucky. Og já, það verður vitanlega í Kópavoginum.

Halldór, Fanney,

makar og barnabörn.