Gleðiskruddur Yrja og Marit eru stofnendur Gleðiskruddunnar, jákvæðrar dagbókar og námskeiða sem byggjast á jákvæðri sálfræði.
Gleðiskruddur Yrja og Marit eru stofnendur Gleðiskruddunnar, jákvæðrar dagbókar og námskeiða sem byggjast á jákvæðri sálfræði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gleðiskruddurnar Yrja og Marit hvetja fólk til að gera eitthvað sem það hefur ástríðu fyrir, fara í svokallað flæði reglulega og auka þannig vellíðan, afköst og einbeitingu.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Vellíðan eykst margfalt við það að fara reglulega í svokallað flæði. Þetta segja Marit Davíðsdóttir og Yrja Kristinsdóttir, höfundar jákvæðu dagbókarinnar Gleðiskruddunnar. Þær deildu jákvæðri áskorun með hlustendum Ísland vaknar í vikunni, þar sem þær hvöttu hlustendur til að upplifa flæði nokkrum sinnum í viku.

Tímaskyn og áhyggjur hverfa

Við komumst í flæðiástand (e. flow) þegar við erum að gera eitthvað sem við höfum ánægju af. Það er að vera algjörlega niðursokkinn í athöfn, athafnarinnar vegna. Egóið fellur í burtu og tíminn flýgur.

„Flæði er einfaldlega það að gleyma stund og stað þegar við erum að gera eitthvað sem við höfum ánægju af og erum búin að öðlast færni í,“ sagði Yrja í samtali við þau Kristínu Sif, Jón Axel og Ásgeir Pál í Ísland vaknar.

„Öll athyglin beinist að því sem við erum að gera. Við gleymum okkur sjálfum. Tímaskynið hverfur og við gleymum öllum áhyggjum. Við höfum í raun og veru ánægju af því sem við erum að gera, rétt eins og þegar við vorum að teikna sem börn. Við gleymdum okkur og allt í einu var klukkan orðin fjögur,“ lýsti Yrja.

Rifjum upp barnæskuna

„Við ætlum að skora á ykkur í dag að finna eitthvað sem kemur ykkur í flæðisástand. Eitthvað sem ykkur þykir ánægjulegt og svolítið krefjandi sem þið getið gleymt ykkur í. Best er ef það er eitthvað sem þið hafið ástríðu fyrir,“ sagði Yrja sem benti á að ef fólki þætti erfitt að finna það sem kæmi því í flæði væri gott að rifja upp hvað kom því í flæði á æskuárunum.

„Þegar þið voruð lítil, hvað var það? Var það að mála eða teikna? Byggja með Lego? Hvað var það sem vakti upp þessa ástríðu og þið gleymduð ykkur í?“ sagði Yrja sem hvatti hlustendur til að taka frá tíma tvisvar til þrisvar í viku til að detta í flæði.

Lofar aukinni vellíðan

„Ég get alveg lofað ykkur að þið finnið meiri vellíðan,“ sagði Yrja en rannsóknir hafa sýnt að í flæði er fólk afkastameira, meira skapandi og á auðveldara með að læra eitthvað nýtt. Þá framkallar heilinn mismunandi hormón sem stuðla meðal annars að aukinni vellíðan og betri einbeitingu.

„Okkur líður svo miklu betur, við erum hamingjusöm og líður vel – og hvað er betra en það, að detta í flæði?“ spurði Yrja.

Yrja og Marit hækka í gleðinni með gleðimola vikunnar á mánudögum, í morgunþættinum Ísland vaknar, með þeim Jóni Axel, Ásgeiri Páli og Kristínu Sif á K100.