Kjartan Ingi Sveinsson fæddist 13. maí 1975 á Selfossi. Hann varð bráðkvaddur á sjúkrahúsinu á Selfossi 13. maí 2022. Foreldrar hans eru Rannveig Sverrisdóttir, f. 25. apríl 1948, og Sveinn Magnússon, f. 3. júní 1947, d. 19. október 2006.

Bræður Kjartans eru: 1) Valgeir, f. 17. október 1971, maki Guðlaug Anny Guðlaugsdóttir, 2) Sverrir, f. 6. apríl 1979, maki Lena Dögg Vilhjálmsdóttir, og 3) Magnús Þórir, f. 3. nóvember 1987, maki Linda Rós Jónsdóttir.

Kjartan Ingi kvæntist 31. ágúst 2002 Kristina Sveinsson, f. 3. júlí 1975 í Slóvakíu. Börn þeirra eru: a) Sindri Ívan, f. 27. september 2001, b) Ingunn, f. 20. júní 2003 og c) Sóley Anna, f. 6. ágúst 2009.

Kjartan Ingi lagði stund á fjölþætt störf á starfsævinni. Hann vann við kantsteinagerð, stundaði sjómennsku á bátum frá Þorlákshöfn og Reykjavík og starfaði við jarðboranir, bæði hérlendis og erlendis, um árabil. Síðustu misseri hefur Kjartan Ingi starfað í vatnsverksmiðju Icelandic Water Holdings á Hlíðarenda í Ölfusi.

Útför Kjartans Inga verður gerð frá Eyrarbakkakirkju í dag, 2. júní 2022, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Kjartan.

Þegar ég minnist þín eru rólegheit það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það var aldrei neitt gert með gassagangi. Æðruleysi er líklega orðið sem væri best notað til að lýsa þér.

Ég á margar minningar um þig. Þú hefur verið hluti af lífi mínu síðan ég fæddist. Við bjuggum hlið við hlið þegar við vorum börn og unglingar og ég man eftir þér og bræðrum þínum slást þegar þið voruð peyjar. Það var oft fjör heima hjá ykkur, þú varst fjórum árum eldri en ég og það komu nokkur ár sem ég þekkti þig lítið. Svo kynntist ég Júlla mínum og þá varðst þú aftur hluti af mínu lífi. Þau voru ófá partíin sem við vorum saman í á Kaldbak þar sem oft var glatt á hjalla. Þið Júlli hafið verið félagar í mjög mörg ár og brallað misgáfulega hluti saman. Ég man eftir sögu af ykkur, ásamt fleirum, þar sem þið voruð á útihátíð og það var erfitt að kveikja upp í grillinu til að grilla steikina. Þið létuð ekki svoleiðis vandamál stoppa ykkur, steikin var bara borðuð eins og hún var. Síðustu ár hafi þið Júlli unnið mikið saman og ferðast víða. Hjá Jarðborunum eignaðist þú marga góða vini og verður minningu þinni haldið á loft af þeim góðu mönnum.

Síðast unnuð þið saman í vatninu og keyrðuð saman á hverjum degi í vinnuna. Júlli spjallaði við þig daginn sem þú lést og hvatti þig til að leita til læknis en þú varst ekkert að æða í það frekar en annað.

Elsku Kjartan. Þín verður saknað hér á þessum stað sem við hin erum.

Elsku Kristína, Sindri, Ingunn og Sóley, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sandra og Júlíus (Júlli).