Halldór Jónsson fæddist 3. nóvember 1937. Hann lést 17. maí 2022. Útför hans fór fram 30. maí 2022.

Meira á

www.mbl.is/andlat

Það lagðist með ólýsanlegum sársauka á hjarta mitt þegar elsku pabbi var allur, eftir ofurhetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm. Pabbi var myndarlegur maður, nærri meðalmaður á hæð og réttholda, höfðinglegur á velli, með fallegt bros sem náði um allt andlitið, hann hafði góða kímnigáfu og lá jafnan vel á honum. Með nýyrði sínu „réttholda“, hvorki of feitur né of horaður, fetaði pabbi í fótspor mesta nýyrðasmiðs síðustu 150 ára, Jóns alþingismanns langafa síns.

Pabbi gat aldrei unnt sér hvíldar, hann átti ávallt erindi, sama hverrar gerðar það var, hann hélt sér við það og lauk því. Verkefni hans voru flest ekki hæf neinu meðalmenni, enda heljarmenni til hvers þess verks sem hann tók sér fyrir hendur og frumkvöðull par excellence. Standa bautasteinar margir og miklir eftir við ævilok, t.d. ótal stórframkvæmdir sem þjóðin býr enn við og munu sumar standa lengi. Flestir þekkja þó aðallega greinaskrif hans og ræður sem eru orðin fleiri en hægt er að henda reiður á. Styrmir ritstjóri vinur okkar tilkynnti 3.3.'07 að hann hefði stofnað halldorjonsson.blog.is og sett þar langsaltaða óbirta grein pabba! Pabbi sagði samstundis upp 45 ára áskrift. Hann taldi ekki nokkurn lesa blogg. Við pabbi áttum sameiginlega slíka hvatvísi. Hann varð strax 2.-5. mest lesni hvern dag. Pabbi hafði sterkar skoðanir, en ólíkt mörgum skriffinnum var hann fróður um flest. Hann skrifaði af sannfæringu, í krafti yfirburðaþekkingar, og kjarnyrt. Karenu systur skorti oft hugrekki til að lesa skrif digurbarkans, því sumir skömmuðu hana vegna þeirra.

Enginn var pabbi veifiskati, nema síður sé. Pabbi gat virst hrjúfur og hvumpinn, en það leyndist mér aldrei risastórt hjarta hans úr skíragulli. Hann gerði sér far um að greiða mér veg þegar þess þurfti, sem öðrum. Elstu minningar eru úr Skipasundi og Steypustöðinni, þar sem við Jón bróðir renndum okkur sem smákríli niður sandbingina og ærsluðumst. Þá var ég fárra ára þegar við fórum saman hvern sunnudagsmorgun, eftir sund í gömlu Laugardalslauginni, út á flugvöll að læra að fljúga, hverri vélinni stærri á fætur annarri eftir því sem árin liðu, og ótal æfingatíma einir. Pabbi náði sér auðvitað í einka-, kennslu- og atvinnuflugmannsleyfi, hann tók hlutina ávallt alla leið. Ágúst Ólafur sonur minn naut einnig flugkennslu afa síns, var á 11. ári þegar kennslan hófst. Í bóklega náminu var stráksi með margfalda löggilda flugkennslutíma.

Forystu, afburða dugnað, þekkingu og vit átti pabbi ekki langt að sækja, það þverfótar ekki fyrir áum þeirrar gerðar, afa sem ömmu megin. Andlát pabba skilur eftir sig risaskarð, sem enginn getur fyllt. Ég mun ávallt sakna elsku yndislega pabba míns, og hinsta faðmlagi hans gleymi ég aldrei. Hver á nú að líta eftir hópnum hans og mömmu? Pabbi vakti yfir heill hvers og eins, þótt það væri ekki öllum ljóst, og lagði lífsreglurnar. Hann hafði ávallt lög að mæla þótt það sæju ekki allir strax. Guð blessi minningu einstaks ljúf- og ofurmennis og hvíli pabbi í Hans friði, biður elskandi sonur.

Þorsteinn.

Jæja pabbi minn, þú ert sjálfsagt hvíldinni feginn eftir langa þrautagöngu í veikindum þínum. Þú tókst á við veikindi þín af miklu æðruleysi og aldrei kvartaðir þú undan því sem þú þurftir að ganga í gegnum, í fimm eða sex ár. Þú þurftir að hafa Karen þér við hlið til að hin sanna líðan kæmi fram í viðtölum við læknana, annars sagðir þú alltaf að þér liði bara vel og þú hefðir það bara fínt, þótt þú værir sárkvalinn.

En þannig varstu, þú kvartaðir aldrei og tókst á við hlutina oft öðruvísi en margur og ætlaðir þér aldrei annað en að sigrast á öllu þessu. Húmor þinn var aldrei langt undan og síðustu daga þína á sjúkrahúsinu, er við systkinin sátum yfir þér, gastu komið okkur til að hlæja með glettnum setningum milli þess sem þú dottaðir. Þú varst aldrei hræddur við að viðra skoðanir þínar og gast greint hlutina vel og á stundum með skoplegum hætti, en talaðir alltaf tæpitungulaust og naust mikillar virðingar fyrir það.

Þú gafst þig allan í verkefnin, og stærstan hluta ævi þinnar vannstu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi í sjálfboðavinnu og af mikilli hugsjón, gafst út blað þeirra með miklum ágætum og myndarskap, ásamt því að gæta og afla peninga fyrir hann. Þín bestu verk liggja þar eftir þig og vin þinn Gunnar Birgisson, saman gerðuð þið Kópavog að bæ sem gott er að búa í.

Mín elsta minning um þig er um okkur saman að renna okkur á sleða í brekkunni undir Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík, sem ég minnist oftast, en minningarnar eru margar; sem lítill gutti er ég þvældist með þér í fluginu, á Skymaster-flugvél þinni og öðrum vélum, um allt land í mörg mörg ár og tala nú ekki um þær stundir sem við vorum í Steypustöðinni um helgar að skoða malarflutninga og námur og hvaðeina sem tengdist starfi þínu sem forstjóri þar í 40 ár. En allir bíltúrar enduðu á sama stað; úti á flugvelli, þar sem þú þreyttist ekki á að skoða flugvélar, flugdellan var það mikil.

Þegar við Eyja ákváðum að byggja í Fjallalindinni og hella okkur í þetta af krafti, þá hefði þetta ekki risið sennilega nema vegna þess gríðarlega áhuga sem þú hafðir á framkvæmdinni og hvattir okkur stöðugt og studdir, og ekki má heldur gleyma hve mikið þú lagðir á þig að teikna allar teikningar í húsið okkar sem við búum í enn í dag. En þú teiknaðir líka fyrir okkur sumarhúsið okkar á Bergstöðum, og þar í sveitinni sl. 12 ár höfum við notið mikilla samvista með þér og mömmu, og komuð þið mun meira í sveitina eftir að við reistum okkar hús þar og þær minningar gleymast aldrei. Bergstaðir og veran þar ásamt mömmu gaf þér mikið og nutuð þið þess að vera þarna í sveitasælunni og nálægðin við ykkur var okkur öllum mikilvæg.

Ég þykist vita að líðan þín er betri núna þar sem þú ert og ég veit að þú saknar mömmu líka, sem er horfin í fang alzheimersjúkdómsins, en í fyllingu tímans munuð þið sameinast á ný. Þú gafst mikið af þér alla tíð, hvar sem þú komst, og minningin um þig lifir alla tíð.

Pétur Hákon

Halldórsson.

Eins og oft var ég gestur í Hvannhólmanum, við Pési vorum 12 ára eða hér um bil, og Halldór kallaði á okkur. Hann var að skjótast norður á Blönduós, ætli það hafi ekki verið með Hafþór eða Löggu, hvort við vildum með, því var auðsvarað.

Á leiðinni norður í TF-SKY var okkur skipað til sætis aftast en á heimleið losnuðu sætin í miðjunni og við skriðum fram. Halldór útskýrði fyrir okkur helstu lögmál fluglistarinnar og við liðum um loftin suður yfir heiðar. Nyrðra var lágskýjað og Halldór fylgdist vel með en yfir Kaldadal rofaði til. Þá vorum við kallaðir til og gerðir að aðstoðarflugmönnum. Fyrst Pési, svo ég, skriðum fram í, settum á okkur belti og fengum útlistun á mælum og tækjum. Síðan máttum við taka í stýrið. Við gengum á skýjum lengi á eftir.

Þar mættust nokkrar af bestu hliðum Halldórs; greiðvikni við samferðafólk sitt, flugdellan og alúð við okkur unga fólkið.

Nú heldur hann í hinstu ferð og ég vona að hún verði honum jafn góð og sú sem við Pési fengum með honum hér um árið. Hvíl í friði.

Sveinn (Denni).