Wolfsburg Sveindís býr í fallegu og rólegu hverfi í þýsku smáborginni sem er í hjarta Þýskalands en alls búa tæplega 124.000 manns í Wolfsburg.
Wolfsburg Sveindís býr í fallegu og rólegu hverfi í þýsku smáborginni sem er í hjarta Þýskalands en alls búa tæplega 124.000 manns í Wolfsburg. — Morgunblaðið/Hallur Már
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dætur Íslands Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Í fyrsta þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnukonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur en hún sló í gegn með þýska stórliðinu Wolfsburg á nýliðinni leiktíð.

Dætur Íslands

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Í fyrsta þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnukonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur en hún sló í gegn með þýska stórliðinu Wolfsburg á nýliðinni leiktíð.

Sveindís, sem er einungis tvítug, gekk til liðs við þýska félagið frá uppeldisfélagi sínu Keflavík í desember 2020.

Hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Keflavík árið 2015, þá 14 ára gömul, þegar liðið lék í 1. deildinni en alls hefur hún skorað 42 mörk í 58 leikjum í fyrstu deildinni.

Tímabilið 2020 lék hún með Breiðabliki á láni frá Keflavík þar sem hún skoraði 14 mörk í 15 leikjum en hún varð Íslandsmeistari með Blikum sama ár.

Alls á hún að baki 32 leiki í efstu deild með Keflavík og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 21 mark.

Tímabilið 2021 lék hún með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni á láni frá Wolfsburg þar sem hún skoraði 6 mörk og lagði upp eitt í 19 leikjum en Kristianstad hafnaði í þriðja sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Háleit framtíðarmarkmið

Hún færði sig svo yfir til Þýskalands um síðustu áramót og var ekki lengi að stimpla sig inn hjá þýska stórliðinu.

Sveindís skoraði 3 mörk og lagði upp önnur fjögur til viðbótar, þar af tvö mörk í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Arsenal, í 14 leikjum með Wolfsburg í öllum keppnum á tímabilinu.

Hún varð bæði bikar- og Þýskalandsmeistari á sínu fyrsta tímabili með Wolfsburg en liðið vann þýsku 1. deildina í fimmta skiptið á sex árum og þá vann liðið bikarkeppnina áttunda árið í röð.

Sveindís er orðin algjör lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu þar sem hún hefur skorað sex mörk í 18 A-landsleikjum en hún lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í september 2020.

„Ég ætla mér að vera í liðum sem vinna bikara,“ sagði Sveindís meðal annars í þættinum þegar hún var spurð út í framtíðarmarkmið sín.

„Ég vil vinna Meistaradeildina og standa mig vel með landsliðinu auðvitað. Ég held að það sé alltaf markmiðið hjá leikmönnum sem spila fyrir bestu félagslið heims að verða bestu leikmenn heims og það er ekkert öðruvísi hjá mér.

Við þurfum svo bara að bíða og sjá hvernig það mun ganga en ef ég slepp við meiðsli þá held ég að það sé alveg raunæft markmið,“ bætti Sveindís við.