Í sambandi Hleðslustæðum fjölgar, enda fjölgar rafbílum hér ár hvert.
Í sambandi Hleðslustæðum fjölgar, enda fjölgar rafbílum hér ár hvert. — Morgunblaðið/sisi
Í dag eru hleðslustæði fyrir rafbíla í öllum bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, að undanskildu Kolaporti, en unnið er að uppsetningu hleðslustæða þar. Fjöldi hleðslustæða í húsunum er nú kominn í 44.

Í dag eru hleðslustæði fyrir rafbíla í öllum bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, að undanskildu Kolaporti, en unnið er að uppsetningu hleðslustæða þar. Fjöldi hleðslustæða í húsunum er nú kominn í 44.

Þetta kemur fram í nýlegu svari skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði, sem lögð var fram þann 2. október 2019, eða fyrir tæpum þremur árum. Óskað var eftir upplýsingum um hleðslustæði fyrir rafbíla í P-merktum bílastæðum bílastæðahúsa í eigu eða umsjá Reykjavíkurborgar.

Fram kemur í svarinu að þann 30. október 2019 hafi verið lögð fram tillaga skrifstofu umhverfisgæða umhverfis- og skipulagssviðs, um uppsetningu hleðslustæða fyrir rafbíla í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs. Uppsetning stæðanna sé örlítið á eftir þeirri áætlun sem þá var lagt upp með. Gert er ráð fyrir að framvindan verði samkvæmt áætlun fyrir lok þessa árs.

Ekki merkt hreyfihömluðum

Fjöldi rafhleðslustæða fyrir rafbíla er sem hér segir: Bergstaðir 4, Ráðhús 12, Stjörnuport 6, Traðarkot 6, Vesturgata 4 og Vitatorg 12.

Þá kemur fram í svarinu að ekkert hleðslustæðanna sé sérstaklega merkt hreyfihömluðum. Ekki er talið að neitt sé því til fyrirstöðu að þeir geti notað hleðslustæðin án þess að þau séu sérmerkt. Almennt séu öll hleðslustæðin ekki í notkun á sama tíma.

„Beðist er velvirðingar á að dregist hafi að svara fyrirspurninni,“ segir starfandi samgöngustjóri í svarinu. sisi@mbl.is