Afmæli Ágústa heitin í áttræðisafmæli sínu sem haldið var í safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Þakklát fyrir velgjörning vina og starfsfólks kirkjunnar.
Afmæli Ágústa heitin í áttræðisafmæli sínu sem haldið var í safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Þakklát fyrir velgjörning vina og starfsfólks kirkjunnar. — xxx
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ágústa þekkti vel orð frelsarans um að sælla er að gefa en þiggja, og hún lifði samkvæmt því,“ segir Laufey Böðvarsdóttir, kirkjuhaldari og framkvæmdastjóri hjá Dómkirkjunni, sem þekkti Ágústu Johnson vel, en um næstu helgi fá fermingarbörn Dómkirkjunnar Biblíur að gjöf úr Ágústusjóði.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Dómkirkjan og kristin trú voru Ágústu mikilvæg, henni þótti vænt um Dómkirkjuna og bar mikla umhyggju fyrir starfinu þar. Hún var trúuð og kirkjurækin og tók virkan þátt í safnaðarstarfi kirkjunnar og var í stjórn Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar. Hennar ástríða var að efla starfið í kirkjunni og hlúa að þeim sem minna máttu sín,“ segir Laufey Böðvarsdóttir, kirkjuhaldari og framkvæmdastjóri hjá Dómkirkjunni, og á þar við Ágústu K. Johnson, konu sem fallin er frá, en nú um hvítasunnuhelgina verður síðasta fermingin í þeirri kirkju þetta vorið og þá fá fermingarbörnin Biblíur að gjöf úr Ágústusjóði.

„Vinir Ágústu vilja heiðra minningu hennar og halda nafni hennar á lofti með þessum Biblíugjöfum, en Ágústa lést fyrir einu og hálfu ári. Öll börn sem fermast í Dómkirkjunni hafa fengið Biblíu frá sjóðnum að gjöf frá því Ágústusjóður var stofnaður þegar Ágústa varð áttræð árið 2019. Hún vildi engar gjafir í tilefni stórafmælisins en Karl Sigurbjörnsson stakk upp á að stofnaður yrði sjóður í hennar nafni og vinir hennar tóku vel í það. Þetta gladdi hana mikið og hún gaf sjálf í sjóðinn. Kærleikur hennar til Guðs orðs leyndi sér ekki og einlægur áhugi hennar að efla og styrkja trúna í samfélaginu, ekki síst miðlun trúarinnar til hinna ungu. Ágústa þekkti vel orð frelsarans um að sælla er að gefa en þiggja, og hún lifði samkvæmt því.“

Stærði sig ekki af neinu

Laufey segir að Ágústa hafi misst föður sinn þegar hún var þriggja mánaða og að hún hafi haldið heimili með móður sinni og bróður.

„Hún var ógift og barnlaus en mjög félagslynd og afskaplega vinmörg og sérlega vel liðin kona. Hún var ákaflega gefandi manneskja og styrkti líknarsjóð Dómkirkjunnar af miklu örlæti. Ágústa mætti í allt hjá okkur hér í Dómkirkjunni og þegar mest var þá var hún hérna fimm daga vikunnar. Allt gerði hún án þess að stæra sig af því, það fór ekki hátt. Trúin á Guð var henni í blóð borin og kristinn boðskapur mótaði líf hennar og breytni. Eðlislæg gleði Ágústu einkenndi hana sem og vinartryggð og trúfesti í öllu því sem henni var falið.“

Lykilkona Seðlabankans

Laufey segir að Ágústa hafi lokið stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1959 og þá hafið störf í Landsbankanum.

„Við stofnun Seðlabanka Íslands fluttist hún þangað yfir og hún var því í hópi fyrstu starfsmanna hans, ritari hjá nýskipuðum bankastjóra. Hún vann hjá Seðlabanka Íslands nær allan sinn starfsferil eða í tæpa hálfa öld, lengst af sem deildarstjóri skrifstofu bankastjóra.“

Í minningargrein sinni um Ágústu lýsti Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, henni sem lykilkonu seðlabankastjóranna. Þar segir:

„Ágústa var blíð og trygglynd kona, en föst fyrir þegar það átti við, og ekki síst ef hún taldi að heiður bankans hennar væri undir. Ég get vottað að hún gætti vel að bankastjórunum sínum og mat þá alla mikils, en eins og nærri má geta engan þó eins og Jóhannes Nordal. Munaði þar miklu, en þó var fjarri því að við hinir þyrftum að kvarta. Hún var vel gerð og mannbætandi að fá að eiga vináttu hennar.“