[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Boðuð hækkun fasteignamats mun að óbreyttu hafa í för með sér þriggja milljarða króna hækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Boðuð hækkun fasteignamats mun að óbreyttu hafa í för með sér þriggja milljarða króna hækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði. Stjórn Félags atvinnurekenda hefur sent sveitarfélögum landsins áskorun um að lækka álagningarprósentu skattsins til að mæta hækkun matsins. Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að skatturinn sé orðinn hár í alþjóðlegum samanburði og dragi því úr samkeppnishæfni fyrirtækja.

Samkvæmt útreikningum Þjóðskrár Íslands hækkar fasteignamat á atvinnuhúsnæði um 10,2% um næstu áramót. Hækkunin er 9,6% á höfuðborgarsvæðinu og 11,5% á landsbyggðinni.

Heimatilbúin hækkun

„Við teljum að engin rök séu fyrir hækkun fasteignaskatta út frá aukinni eða bættri þjónustu sveitarfélaga. Hún kemur aðeins til vegna þess að ófremdarástand er á húsnæðismarkaði, sem hefur leitt til þess að húsnæðisverð hefur hækkað mjög hratt undanfarið,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Hann bætir því við að hækkun matsins sé að vissu leyti komin til vegna þess að ekki er nægjanlegt framboð af húsnæði, að hluta vegna skorts á lóðum. Hækkun matsins sé því heimatilbúin í sveitarfélögum og leiði síðan til hækkunar skatta ef ekki verði brugðist við með því að lækka álagningarprósentu.

„Eigendum atvinnuhúsnæðis er almennt nóg boðið eftir þróun síðustu ára, þar sem fasteignamarkaðurinn er augljóslega mjög þaninn og húsnæði hækkar sífellt í verði. Það endurspeglast engan veginn í tekjum af rekstri fyrirtækjanna,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Nefnir hann sem dæmi fyrirtæki í ferðaþjónustu og útleigu fasteigna sem hafi verið með illa nýtt eða autt húsnæði, sem engum tekjum skili, en hafi þurft að sæta hækkun fasteignagjalda.

Verri samkeppnisstaða

Að óbreyttum álagningarprósentum hækkar skattur af atvinnuhúsnæði um þrjá milljarða króna á næsta ári, fer úr 29-30 milljörðum í 32-33 milljarða. Félag atvinnurekenda segir að skatturinn hafi hækkað um 70% frá árinu 2015, þrátt fyrir að sum sveitarfélög hafi mildað hækkunina með lækkun álagningarhlutfalls. Hækkunin verði 87% ef hækkun matsins um komandi áramót verður ekki leiðrétt með lægri skattprósentu. Samtök iðnaðarins reikna hækkunina 112% síðustu tíu ár, fyrir utan hugsanlega hækkun á næsta ári.

Ingólfur segir að skatturinn sé orðinn mjög hár í alþjóðlegum samanburði. Hann nefnir sem dæmi að sveitarfélög hérlendis taki í heildina 0,9% af landsframleiðslu en hlutfallið sé 0,2% í Noregi og 0,4% í Finnlandi og Svíþjóð. „Þetta dregur úr samkeppnisfærni okkar fyrirtækja og kemur niður á vexti þeirra,“ segir Ingólfur. „Ég held að allir hljóti að sjá að þetta gengur ekki öllu lengur. Sveitarfélögin verða að axla ábyrgð,“ segir Ólafur.

Borgin tregust í taumi

Ef ekki verða gerðar breytingar á álagningarpósentu við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir næsta ár mun hækkun fasteignamatsins hafa í för með sér hækkun á fasteignasköttum fyrirtækja, í takt við hækkun mats atvinnuhúsnæðis í viðkomandi sveitarfélagi.

Raunar hafa forsvarsmenn nokkurra stóra sveitarfélaga, meðal annars Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar, lýst yfir vilja sínum til að lækka álagningarprósentu á móti hækkun matsins en flokkarnir sem ræða saman um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa ekki gefið út hvernig brugðist verður við. Borgin fær um það bil helming allra tekna sem sveitarfélög innheimta af atvinnulífinu og hefur að sögn viðmælenda úr atvinnulífinu verið einna tregust að lækka álagningarprósentu í kjölfar hækkunar fasteignamats á undanförnum árum.