Sycamore Tree Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa hljómsveitina Sycamore Tree sem mun spila í Hveragerði um helgina. Ágústa mun sjálf vera aðalgestur Helgarútgáfunnar á laugardag.
Sycamore Tree Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa hljómsveitina Sycamore Tree sem mun spila í Hveragerði um helgina. Ágústa mun sjálf vera aðalgestur Helgarútgáfunnar á laugardag. — Ljósmynd/Saga Sig
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið verður um að vera í Hveragerði á laugardag, þar sem lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup landsins verður haldið.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Helgarútgáfan á K100 sendir út frá Hveragerði á laugardagsmorgun í tilefni af því að Salomon Hengill Ultra, lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup á Íslandi, fer fram í bænum 3-4 júní. Aðalgestur Helgarútgáfunnar verður einn frægasti Hvergerðingurinn, söngkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir.

Yfir þúsund hlauparar eru þegar skráðir í hlaupið í ár en enn er hægt að skrá sig til leiks.

Flestir bestu utanvegahlauparar landsins taka þátt í hlaupinu, auk þess sem danska landsliðið í utanvegahlaupum hefur skráð sig til leiks. Eins og í fyrra verður keppt í 5 km, 10 km, 26 km, 53 km og 106 km hlaupi. Einnig bætist við 160 km braut sem er 100 mílur. Mótið er hluti af Víkingamótunum en í fyrra skráðu 1.375 þátttakendur sig til leiks.

Meðal hlaupara sem hafa skráð sig í 26 km hlaup eru langhlaupararnir og landsliðsfólkið Andrea Kolbeinsdóttir, Íris Anna Skúladóttir og Þórólfur Ingi Þórsson.

Þá keppir landsliðsfólkið Anna Berglind Pálmadóttir, Sigurjón Ernir Sturluson og Þorsteinn Roy Jóhannesson í 53 km hlaupinu en þau eru öll að hefja undirbúning fyrir heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum sem fer fram í Taílandi í nóvember.

Langhlauparinn Rakel María Hjaltadóttir brá sér í æfingahlaup í síðustu viku og hljóp 10 kílómetra brautina í hlaupinu ásamt nokkrum hressum Hvergerðingum. Hún lauk 106 kílómetrum í hlaupinu árið 2020 og tekur aftur þátt í ár.

Ýmislegt fleira verður um að vera í Hveragerði um helgina. Dagskrá verður í Gróðurhúsinu, bæði föstudags- og laugardagskvöld og tónleikar verða með Sycamore Tree, sem Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa, á laugardagskvöldið í Reykjadalsskála. Einnig verður sérstök sölusýning, Salomon Hengill Expó, í íþróttahúsinu í Hveragerði á laugardag.

Solomon Hengill Ultrahlaupið verður í beinni útsendingu frá mbl.is bæði á föstudag og laugardag.