Ný rannsókn sem ráðgjafarfyrirtækið brandr vann, í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Leidar, leiðir í ljós að suður-kóreska tæknifyrirtækið Samsung er það stórfyrirtæki sem fólk treystir best af 15 verðmætustu vörumerkjum í heimi.

Ný rannsókn sem ráðgjafarfyrirtækið brandr vann, í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Leidar, leiðir í ljós að suður-kóreska tæknifyrirtækið Samsung er það stórfyrirtæki sem fólk treystir best af 15 verðmætustu vörumerkjum í heimi. Neðst á lista er Facebook. Hér fyrir ofan má sjá hvernig fyrirtækin raðast á listann.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á árlegri ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins, WTO, í Davos í Sviss í maí sl. Brandr-vísitalan er tæki til að mæla styrk vörumerkja.

Kristján Már Sigurbjörnsson,forstöðumaður rannsókna og vöruþróunar hjá brandr, segir í samtali við Morgunblaðið að rannsóknin hafi verið gerð til að skilja hvaða áhrif umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir hafa á traust út frá sjónarhóli neytenda. „Til þess að finna út úr þessu notuðum við sjálfbærnihluta brandr vísitölunnar. Við töluðum við samtals 6.500 einstaklinga í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum og spurðum út í fimmtán verðmætustu vörumerki í heimi (skv. Interbrand, 2021), þ.e. Apple, Amazon, BMW, Coca-Cola, Disney, Facebook, Google, Louis Vuitton, McDonald's, Mercedes-Benz, Microsoft, Nike, Samsung, Tesla og Toyota.“

Framkvæmd í maí

Kristján segir að rannsóknin hafi verið framkvæmd í fyrri hluta maí. „Þetta gefur góða innsýn í það traust sem neytendur bera til þessara félaga og á vonandi eftir að vekja umræðu um áhrif sjálfbærni á traust,“ segir hann.

Spurður nánar um helstu niðurstöður, segir Kristján að það sem komið hafi sterkast út í könnuninni séu áhrif stjórnarháttanna á traustið. „Góðir stjórnarhættir hafa greinilega meiri áhrif á traust en umhverfismál og félagslegir þættir í rekstri fyrirtækjanna, þótt félagslegu þættirnir séu reyndar ekki langt undan.“

Kristján segir að umræðan hafi síðustu misserin litast mest af umhverfisþættinum, þ.e. hvernig fyrirtæki haga sér gagnvart umhverfinu. „En það virðist hafa minni áhrif á traust en félagslegi þátturinn og stjórnarhættirnir, sem er áhugavert.“

Mæla það sem skiptir máli

Hann segir athyglisvert að sjá að mikil fylgni var á milli trausts og sjálfbærnivíddar brandr. Hún er samsett af sjö spurningum, sem mæla umhverfisþætti, stjórnarhætti og félagslega þætti. „Það segir okkur að við séum að mæla þætti sem skipta máli.“

Spurður um næstu skref segir Kristján að nú verði unnin skýrsla sem nýtist til frekari rannsókna og umræðna. Kristján segir að auðvitað hafi margir aðrir þættir áhrif á traust neytenda á fyrirtækjum. Þar sé þjónusta við viðskiptavini efst á blaði. „En þessi rannsókn sýnir svart á hvítu að sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð skiptir sífellt meira máli í þessu sambandi,“ segir Kristján að lokum.

tobj@mbl.is