[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Gunnarsdóttir fæddist 2. júní 1972 í Reykjavík og bjó öll æskuárin í Skerjafirði. „Ég fór hefðbundnu Vesturbæjarleiðina í náminu, gekk í Melaskóla, Hagaskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1992.

Margrét Gunnarsdóttir fæddist 2. júní 1972 í Reykjavík og bjó öll æskuárin í Skerjafirði. „Ég fór hefðbundnu Vesturbæjarleiðina í náminu, gekk í Melaskóla, Hagaskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1992.“ Eftir stúdentspróf vann Margrét í Vátryggingafélaginu Skandia og hóf svo nám við Háskóla Íslands haustið 1994 við viðskiptafræðideild. Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur með BS-gráðu í júní 1997, en hún var í fyrsta útskriftarhópnum sem útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræði frá HÍ.

„Þar sem ég var nýbúin að eignast frumburðinn, Gunnar Trausta, þá fór ég í færðingarorlof um leið og ég útskrifaðist. Vorið 1998 var ég ráðin framkvæmdastjóri ÍMARK, félags íslensks markaðsfólks, og vann þar í tvö ár og eignaðist einn son til viðbótar, Atla Má, á þeim tíma. Þá söðlaði ég um og gerðist markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni. Eftir að hafa eignast þriðja soninn, Magnús Daða, réð ég mig í framkvæmdastjórastöðu hjá Blindravinnustofunni árið 2003. Það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Á meðan ég vann þar eignaðist ég dóttur mína, Láru Ósk. Ég vann hjá Blindravinnustofunni í sex ár. Þá vippaði ég mér yfir í íþróttageirann og fékk starf sem framkvæmdastjóri Badmintonsambands Íslands. Það var líka mjög lærdómsríkur tími og virkilega skemmtilegt að vinna í íþróttaheiminum.“

Á meðan Margrét vann hjá Badmintonsambandinu fór hún sem fararstjóri á Ólympíuleikana í London árið 2012 en Ragna Ingólfsdóttir keppti í badminton á leikunum. „Það var algjörlega stórkostlegt að vera á Ólympíuleikunum og fá að fylgjast með besta íþróttafólki heims í svona miklu návígi.

Árið 2017 skipti ég yfir í allt annan bransa þegar ég réð mig til starfa fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg og tók þar við fjármálastjórastöðu félagsins. Þrátt fyrir að þessir bransar séu ólíkir þá eru félagsstörfin svipuð og uppbygging starfseminnar þar með. Það má segja að það sé erfitt að losna við mig af vinnustöðum sem ég hef unnið á. Eftir að ég hætti hjá Blindravinnustofunni settist ég í stjórn vinnustofunnar og sit þar enn. Og eftir að ég hætti hjá Badmintonsambandinu hef ég dundað mér við að færa bókhaldið fyrir sambandið.“

Margrét hefur verið virk í foreldrastarfi í gegnum skólastarf barnanna sem og íþróttastarfi þeirra. „Við erum öll gallharðir KR-ingar og börnin hafa öll æft knattspyrnu, handbolta og strákarnir einnig badminton með KR.“ Sjálf æfði Margrét á yngri árum, fyrst fimleika með KR og síðar Ármanni og svo handbolta með KR. „Íþróttir eru helsta áhugamálið en ég fylgist grannt með KR, helst í fótbolta, og Arsenal í enska boltanum. Á heimilinu er eiginlega fylgst með öllum íþróttum, allt frá pílu til knattspyrnu.

Við eigum hundinn Krumma sem er tveggja ára hress labrador og hann er auðvitað stórt áhugamál fjölskyldunnar og útivera með honum er alltaf skemmtileg. Ferðalög innanlands og utan eru nokkuð sem við höfum mjög gaman af. Við förum oft í göngur í náttúrunni og vitum fátt betra. Við eigum sumarbústað í Reykjaskógi og förum þangað hvenær sem færi gefst. Þaðan er stutt í fallega náttúru og hennar er óspart notið. Þá er Þjórsárdalurinn í algjöru uppáhaldi en þangað hef ég farið í sumarbústað með foreldrum mínum frá því að ég var tveggja ára og börnin mín með okkur alla sína tíð.“

Margrét á stóran og góðan vinkonuhóp en vinahópurinn úr Skerjó er enn mjög náinn og hefur verið alla tíð. „Við ólumst upp í miklu návígi hvert við annað og úr varð frábær hópur og við stelpurnar erum í saumaklúbbi sem kallast því skemmtilega nafni „Strauj' og saumum ekki“. Við hittumst reglulega, með og án maka okkar.“

Svo er Margrét í kaffiklúbbnum Sæmundi sem er einnig samansettur úr Skerfirðingum. „Þegar ég var með börnin lítil fórum við að hittast nokkrar úr hverfinu og mynduðum þennan stórskemmtilega hóp sem telur sjö konur á öllum aldri. Við drukkum kaffi saman alla föstudaga og í áranna rás hefur þessi klúbbur breyst og nú hittumst við frekar að kvöldi til og fáum okkur rauðvínstár.

Börnin mín eru fimmti ættliður í Skerjafirði en auk mín ólst móðir mín upp í Reynisnesi í Skerjafirði hjá foreldrum sínum og ömmum. Afi minn var bóndi í Skerjafirði.“

Fjölskylda

Eiginmaður Margrétar er Eyjólfur Gunnarsson, f. 28.11. 1972, framkvæmdastjóri útleigusviðs hjá Eik fasteignafélagi. „Við kynntumst í háskólanáminu en hann var tveimur árum á undan mér þar sem hann fór beint í háskólanám eftir Versló. Eftir að hafa búið í örfá ár í Vesturbænum fluttum við Eyjólfur og börnin okkar í Skerjafjörðinn og enduðum á því að byggja hús í garðinum hjá mömmu og pabba þegar við keyptum hálfa lóðina af þeim og byggðum okkur hús árið 2007.“

Börn Margrétar og Eyjólfs eru: 1) Gunnar Trausti, f. 15.6. 1997, lögfræðingur í Reykjavík. Maki: Esther Ruth Aðalsteinsdóttir, BA í lögfræði; 2) Atli Már, f. 7.8. 1999, BA í lögfræði. Maki: Auður Ragnarsdóttir, lögfræðinemi við HÍ; 3) Magnús Daði, f. 11.10. 2001, viðskiptafræðinemi við HÍ. Maki: Hugrún Helga Stefánsdóttir, viðskiptafræðinemi við HÍ; 4) Lára Ósk, f. 10.5. 2005, nemi við Menntaskólann í Reykjavík.

Systkini Margrétar: Anne-Merete Clausen, f. 13.6. 1944, d. 23.3. 1993, húsmóðir í Danmörku (hálfsystir); Þóroddur Gunnarsson, f. 24.6. 1953, býr í Reykjavík (hálfbróðir); Lára, f. 27.1. 1956, listakona í Stykkishólmi; Kjartan Georg, f. 24.1. 1957, viðskiptafræðingur í Reykjavík; Gunnar Már, f. 5.11. 1959, starfsmaður Líflands, býr í Reykjavík; Pétur, f. 8.3. 1963, viðskiptafræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Margrétar voru hjónin Gunnar Már Pétursson, f. 16.10. 1919, d. 5.8. 2010, viðskiptafræðingur og deildarstjóri hjá Almennum tryggingum, og Anna Georgsdóttir, f. 20.2. 1928, d. 17.1. 2009, starfsmaður Landsbókasafns og síðar Þjóðarbókhlöðunnar. Þau voru búsett í Skerjafirði.