Álfsnes Elsta íþróttafélag landsins, Skotfélag Reykjavíkur, er 155 ára í dag. Opið hús verður á Álfsnesi á laugardag. Æfingaaðstaðan er nú lokuð.
Álfsnes Elsta íþróttafélag landsins, Skotfélag Reykjavíkur, er 155 ára í dag. Opið hús verður á Álfsnesi á laugardag. Æfingaaðstaðan er nú lokuð. — Ljósmynd/STÍ
Skotfélag Reykjavíkur (SR) hefur auglýst Íslandsmót í haglabyssuskotfimi á Álfsnesi 13. til 14. ágúst.

Skotfélag Reykjavíkur (SR) hefur auglýst Íslandsmót í haglabyssuskotfimi á Álfsnesi 13. til 14. ágúst. Skotvöllum þar var lokað í september 2021 þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi starfsleyfi vegna þess að starfsemin samrýmdist ekki landnotkun samkvæmt aðalskipulagi.

„Skotsamband Íslands úthlutaði okkur þessu móti og við höldum því til streitu á meðan við vitum ekki annað,“ segir Guðmundur Kr. Gíslason, framkvæmdastjóri SR. „Leyfi lögreglu til að skjóta á svæðinu á Álfsnesi er til staðar, þótt við höfum ekki starfsleyfi fyrir almennri starfsemi. Við þurfum að fá svar við því hvort við getum haldið mótið.“

Keppnislið SR hafa þurft að æfa í Þorlákshöfn eða Höfnum í sumar og kostar því hver æfing 80 til 100 km akstur með tilheyrandi kostnaði. Guðmundur segir að það standi upp á borgaryfirvöld að gera ráðstafanir til að skipulagsmálin á Álfsnesi komist á hreint. SR hefur ekki lagt fram umsókn um nýtt starfsleyfi.

„Pólitíkin verður að finna lausn á því hvernig á að nýta fjárfestingu upp á 500 til 600 milljónir í mannvirkjum á æfingasvæði SR á Álfsnesi. Við erum í stöðugu sambandi við íþrótta- og tómstundasvið borgarinnar til að finna framtíðarlausn á málefnum Skotfélags Reykjavíkur. Spurningin er hvort við eigum að fá starfsleyfið eða svið borgarinnar sem síðan fær SR til að reka skotíþróttasvæðið fyrir höfuðborgarbúa. Þetta er til skoðunar hjá Reykjavíkurborg. Okkur nægir ekki að fá aðeins að æfa 2-3 daga í viku og ekki á sunnudögum,“ segir Guðmundur. Hann segir að SR hafi gert tillögur um ráðstafanir til að bæta hljóðvist með hækkun á hljóðmönum. Einnig með því að bæta hljóðeinangrun við riffilvöll. Við æfingar eftir klukkan 19.00 verði einungis leyfðir hljóðdeyfðir stærri rifflar.

Hreindýrapróf og opið hús

Félagið hefur auglýst verkleg skotpróf hreindýraveiðimanna frá 1. til 30. júní með fyrirvara um að heimild fáist. Standast verður prófið fyrir 1. júlí. Guðmundur segir að heilbrigðiseftirlitið segi að því sé ekki heimilt að veita neinar undanþágur. Um 300 veiðimenn hafa þreytt prófið á hverju ári hjá SR. Nú verða þeir að fara til Þorlákshafnar eða í Hafnir til að þreyta prófið.

Skotfélag Reykjavíkur er elsta íþróttafélag landsins og fagnar 155 ára afmæli dag. Félagið býður til morgunkaffis í tilefni afmælisins á skotsvæðinu á Álfsnesi laugardaginn 4. júní klukkan 10 til 12. Allir eru velkomnir að koma í kaffið og að skoða aðstöðuna. gudni@mbl.is